Lax- og silungsveiði

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 15:08:49 (5588)


[15:08]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég mun ekki fara hér efnislega niður í þann --- ég veit ekki hvað ég á að segja, þann mikla lagabálk sem hér er verið að leggja fram, en ég vil ítreka þær spurningar sem hér hafa komið fram um ástæður þess að þetta mál kemur svona seint fram og hvort það sé virkilega ætlan ráðherra að Alþingi afgreiði þetta mál í vor. Þetta mál er að mínu mati þess efnis að það þarf nokkuð langan tíma í nefndarvinnu. Það eru afar margir einstaklingar og aðilar í þessu þjóðfélagi sem telja að þeir hafi hagsmuna að gæta þegar kemur að lögum um lax- og silungsveiði. Þar ber fyrst að telja landeigendur, bæði við ár og vötn, reyndar einnig landeigendur að sjó. Það ber að nefna þá sem stunda hafbeit og fiskeldi svo ég tali nú ekki um allan þann fjölda veiðifélaga sem í eru mjög margir einstaklingar sem stunda stangveiði. Það er að mínu mati nauðsynlegt fyrir nefndina sem um þetta fjallar, sem er væntanlega hv. landbn., að hún hafi tíma til að ræða við fulltrúa allra þessara hópa.
    Nú man ég ekki gjörla eftir því hvað eru margir fundir eftir í landbn. til vors samkvæmt starfsáætlun Alþingis í vetur. En ég hygg að þeir séu ekki fleiri en fjórir og eitthvað þarf nefndin að vinna að fleiru en þessu máli. Ég hlýt að ítreka að það eru náttúrlega engin vinnubrögð að koma með stjórnarfrv. sem við vitum að var í höfuðdráttum tilbúið á síðasta vori. ( Gripið fram í: Eru ekki deilur í stjórnarflokkunum um þetta?) Við höfum ekkert heyrt um það að þetta mál sérstaklega hafi valdið hatrömmum deilum innan stjórnarflokkanna. En e.t.v. hafa menn verið svo uppteknir vegna einmitt deilna innan stjórnarflokkanna á öðrum sviðum að það hefur ekki tekist að koma máli sem þessu fram. Nema, sem ég veit ekki, innan annars hvors stjórnarflokksins hafi verið mikil andstaða við þetta mál. Ég sé að hér er kominn 2. þm. Norðurl. v. og ég veit reyndar að í því kjördæmi eru mjög deildar meiningar um ýmis atriði í þessu máli og þar hafa menn verið að bíða eftir því og spyrja eftir því hvort þetta mál sé ekki að koma fram.
    Ég dreg ekki úr því að það er mikilvægt að um þetta svið séu góð og skýr lög. Ein og ég sagði áðan þá er hér um að ræða málaflokk þar sem saman koma atvinnuhagsmunir og hagsmunir fjölmargra einstaklinga sem stunda stangveiði og ýmis álitamál. Það er með lax- og silungsveiði nánast eins og með hestamennskuna að það er erfitt að koma þar að nokkrum mælikvörðum á sviði sem styðjast við raunvísindi. Menn líta meira á þetta sem heimspeki og list heldur en raunvísindi. Þar af leiðandi eru álitamálin mörg og nauðsynlegt að ganga þannig frá hlutunum að ekki þurfi að koma upp deilur að óþörfu.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að flytja lengri ræðu. Við fáum væntanlega skýringar á því frá hæstv. ráðherra hvernig í ósköpunum standi á því að málið komi svona seint fram og hvar sú fyrirstaða hafi verið sem gerði það að verkum að málið kom svo seint fram að það hlýtur að teljast afar ólíklegt að það takist að afgreiða það á þessu þingi.