Lax- og silungsveiði

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 15:28:09 (5592)


[15:28]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra má kalla það nöldur ef hann vill að þingmenn hvetji til þess að viðhöfð séu vönduð vinnubrögð í nefndum Alþingis. Hæstv. ráðherra getur kallað það að tefja fyrir framgangi mála. Hann talaði hér með mikilli óvirðingu um þá hagsmunaaðila sem málið varðar, hvort það ætti virkilega að fara að kalla alla þá dorru, svo ég hafi orðrétt eftir hæstv. ráðherra, fyrir nefndina. Ég er ekki viss um að samtökum veiðifélaga, hagsmunasamtökum veiðibænda og fleirum finnist sér sýnd mikil virðing með því að kalla þá einhverja dorru sem alls ekki sé ástæða til að kalla til viðtals við þá nefnd sem kemur til með að fjalla um þetta mál.