Húsnæðisstofnun ríkisins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 18:25:44 (5604)


[18:25]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Um það mál sem hér er til umfjöllunar er samkomulag eftir því sem ég veit best milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Brtt. eru fluttar af hv. félmn., nál. af meiri hlutanum, fyrir utan það að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var með sér nál. sem hann hefur gert grein fyrir.
    Brtt. við upphaflega frv. er að finna á þskj. 774 og ég ætla við þessa umræðu að gera örlítið grein fyrir afstöðu okkar framsóknarmanna. Ég hef reyndar ekki átt kost á því að fylgjast með þeirri umræðu sem fram fór í hv. félmn., en þar sem fulltrúar okkar í þeirri nefnd eru ekki við þessa umræðu nú þá ákvað ég að gera hér örlitlar athugasemdir við málið.
    Í 2. tölulið í þessum brtt. í ákvæði til bráðabirgða þá er afskaplega mikilvægt ákvæði þar inni er lýtur að frestun á greiðslum lánþega, þ.e. þeirra sem verða fyrir verulegri tekjuskerðingu vegna atvinnuleysis, minnkandi atvinnu, veikinda eða annarra óviðráðanlegra aðstæðna. Síðan er um það getið í þessari brtt. að ákvæði þetta falli úr gildi 1. jan. 1996. Í ljósi þeirra upplýsinga sem fram komu hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni áðan um stöðu lánþega við Húsnæðisstofnun ríkisins og þeirra miklu vanskila sem þar eru, sem auðvitað endurspegla það þjóðfélagsástand sem núna er, atvinnuleysið, kjaraskerðingin, sem gengur yfir hið almenna launafólk. Það lýsir sér auðvitað í því að menn geta ekki greitt af þeim lánum sem menn eru með við stofnunina og því er þetta ákvæði að mínu viti, þessi greiðsluaðlögun sem þarna um ræðir, afskaplega mikilvæg.
    Ég á hins vegar erfitt með að skilja og er reyndar útilokað að skilja það ákvæði sem þarna er inni um að þetta skuli falla úr gildi 1. jan. 1996. Eftir því sem best er vitað ætlar þessi ríkisstjórn að sitja út kjörtímabilið, þ.e. þangað til a.m.k. í apríl 1995. ( Gripið fram í: Í síðasta lagi.) Í síðasta lagi fer hún frá þá. Atvinnustefna ríkisstjórnarinnar er þekkt. Allt frá því að hún kom til valda um mitt ár 1991 þá hefur stefnan verið sú að halda hér uppi alveg lágmarksatvinnuleysi svona til þess að aga fólk í kjarabaráttunni og það er það sem mun --- nema hæstv. félmrh. geri okkur grein fyrir því síðar við umræðuna að það eigi að breyta um stefnu hjá ríkisstjórninni. Ef svo er þá getur maður í sjálfu sér skilið þetta ákvæði sem þarna er inni um að þetta gæti hugsanlega fallið úr gildi í upphafi árs 1996. En með sömu atvinnuleysisstefnu sem ríkisstjórnin hefur haldið uppi þá er það alveg klárt að það fólk sem er að missa vinnuna um það leyti

sem ríkisstjórnin er að hrökklast frá lendir í erfiðleikunum í upphafi árs 1996 og kannski miklu fyrr. Þannig að það er náttúrlega alveg ótækt að þetta ákvæði gildi bara til þess tíma.
    Ég spyr hæstv. félmrh. og af því að hv. formaður félmn., Rannveig Guðmundsdóttir, er hér líka við umræðuna vil ég spyrja hvaða ástæður liggja að baki að sú greiðsluaðlögun sem þarna er gert er ráð fyrir, sem ég tel vera afskaplega mikilvæga, skuli vera algjörlega bundin við þetta tímabil sem þarna um ræðir.
    Ég veit að það þarf ekki að lýsa því fyrir hæstv. félmrh., ég veit að hæstv. ráðherra þekkir það úr sínu starfi, þeim erfiðleikum sem fólk í landinu býr við nú um þessar mundir. Stærsta vandamálið hjá launamönnum í Reykjavík og því fólki sem hefur verið að sækja um að komast inn í félagslega íbúðarkerfið, ætli það séu ekki um 400 íbúðir sem verða til úthlutunar í Reykjavík núna um þessar mundir, 800 manns hafa sótt um, en sennilega kemst ekki nema hluti af þessum 400 sem verður úthlutað íbúðum inn í kerfið vegna þess að þegar á úthlutunarreglurnar reynir þá eru tekjur þessa fólks orðnar svo lágar að þær nægja ekki til að standa undir greiðslubyrðinni af lánum í félagslega kerfinu. Þá spyr maður: Hvernig er þetta félagslega kerfi eiginlega orðið ef kerfi sem á að þjóna því fólki sem býr við erfiðustu aðstæðurnar, kröppustu kjörin, hefur verið þannig uppbyggt að það þjónar ekki lengur þeim hópi sem þarf á því að halda? En það er ekki kerfið, því miður, vegna þess að þá gætum við breytt því. Það er ekki kerfið sem hefur breyst eða hefur aðlagast með þessum hætti, það eru aðstæðurnar í þjóðfélaginu. Það er kjaraskerðingin og það er atvinnuleysið sem hefur farið svona með fólkið að launin standa ekki undir afborgunum og vöxtum af þessum lánum, sem þó er boðið upp á með þeim hagstæðustu kjörum sem menn geta hugsað sér undir þessum kringumstæðum.
    Þetta er hin grafalvarlega staða sem er upp komin og því spyr ég hæstv. félmrh.: Hvernig á að aðstoða þetta fólk sem hefur orðið fyrir þeirri kjaraskerðingu í gegnum tíðina og er að verða fyrir núna út af stjórnarstefnu þessarar ríkisstjórnar að það kemst ekki einu sinni inn í þetta félagslega íbúðakerfi sem menn hafa þó á undanförnum árum komist inn í?