Húsnæðisstofnun ríkisins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 18:33:16 (5605)


[18:33]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hv. félmn. fyrir meðferðina á því frv. sem hér er til umfjöllunar. Ég geri mér grein fyrir því að þær brtt. sem komu fram á síðari stigum málsins, eftir að mælt hafði verið fyrir frv. og það komið inn í nefnd, að æskilegt hefði verið að þær hefðu komið fyrr. En ég vil þakka nefndinni hve vel hún tók á því máli og brást við að flytja þessar brtt. við frv.
    Ég vil fyrst víkja í örfáum orðum að þeim efnisatriðum sem eru í því frv. sem upphaflega var mælt fyrir við 1. umr. þar sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson beindi til mín spurningum varðandi það mál. Það er í fyrsta lagi varðandi það sem fram kemur í frv. um vörslu á fjármagni byggingarsjóðanna, að það sé heimilt að ávaxta það annars staðar heldur en í Seðlabanka Íslands ef Húsnæðisstofnun kýs svo, þá vil ég staðfesta og ítreka það sem fram kom við 1. umr. þessa máls, þar sem um það var spurt aftur, að það er ekki hugmyndin með þessu, hvorki af hálfu ráðuneytisins né Húsnæðisstofnunar, að þessi heimild verði nýtt til þess að ávaxta fjármagn Húsnæðisstofnunar erlendis.
    Varðandi lögbýlin þá fór þingmaðurinn nokkrum orðum um það að hann teldi æskilegt að sú nefnd sem er að skoða félagslega húsnæðiskerfið á grundvelli þeirrar skýrslu sem fram hefur verið lögð, sem byggir á reynslunni af félagslega kerfinu frá 1990, yfirfari það ákvæði sem hér er í þessu frv., en það er stefnt að því að þessi nefnd skili af sér þannig að hægt sé að leggja fram frv. um félagslega húsnæðiskerfið á hausti komanda. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að nefndin skoði þetta ákvæði og sjái hún ástæðu til að gera á því einhverjar breytingar og finni á því einhverja annmarka þá er auðvitað sjálfsagt að nefndin yfirfari það ákvæði og ef ástæða er til þá verði farið yfir það þegar fram kemur hér frv. á hausti komanda varðandi félagslega íbúðarkerfið.
    Varðandi þær tvær brtt. sem nefndin tekur upp og flytur sem brtt. við þetta frv. vil ég að gefnu tilefni fara um þær nokkrum orðum. Ástæða þess að flutt er tillaga um að lengja lánstímann varðandi fimm ára lánið er öllum ljós. Upphaflega þegar frv. um almennar kaupleiguíbúðir var í undirbúningi, mig minnir að það hafi verið 1988, þá var hugmyndin sú að hafa lánið mun lengra eða til 25 ára, en um það náðist ekki samstaða þá og því varð það að lögum með þeim hætti að hér var einungis um að ræða fimm ára lán. Ástæðan fyrir því að það var ekki fyrr upp tekið, eins og þingmaðurinn nefndi, á síðasta þingi var sú að ég gerði mér vonir um að sú endurskoðun sem ég nefndi fyrr í mínu máli lægi fyrr fyrir þannig að hægt væri að leggja fram heildarendurskoðun á þessu þingi. En það kom í ljós að sú endurskoðun er viðameiri heldur en ráð var fyrir gert í upphafi og því taldi ég ástæðu til þess að beina því til nefndarinnar að taka upp þessa tillögu nú.
    Það er ljóst að greiðslubyrðin er nokkuð þung. Hér hefur verið nefnt að hún geti verið um 60.000 kr., kannski á bilinu 50.000 til 60.000--65.000 kr. eftir stærð íbúðarinnar. Þá er að vísu ekki tekið tillit til vaxtabóta, en engu að síður er þessi greiðslubyrði þung. Hún léttist að vísu verulega eftir fimm ár. Það verður líka að taka með í því ljósi að það fólk sem fer inn í almennar kaupleiguíbúðir er oft fólk sem á þess ekki kost að fara inn í félagslega íbúðakerfið af því að tekjur þess eru hærri en svo að það hafi skilyrði til að fara inn í það og síðan fær það of lágt greiðslumat til þess að kaupa í almenna kerfinu. Þess vegna ætti þetta að vera álitlegur kostur fyrir það fólk og ég hygg að hann verði það ef Alþingi samþykkir þá brtt. sem hér er lögð til. Að öðrum kosti hefur þetta fólk kannski ekki annað val heldur en leigumarkaðinn þar sem það er að greiða kannski 40.000--50.000 kr. í leigu sem er þá svipuð fjárhæð og það er að greiða á mánuði vegna þessa láns.
    Varðandi frestun á greiðslum lána að uppfylltum ákveðnum skilyrðum vil ég fara nokkrum orðum. Ég vil í fyrsta lagi leiðrétta það sem fram kemur í áliti frá minni hluta félmn., Kristni H. Gunnarssyni, þar sem hann segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,, . . .  að af hálfu félagsmálaráðherra, sem óskaði eftir þessari breytingu, er ákvæðið túlkað þannig að það takmarkist við þá sem sótt hafa um skuldbreytingarlán samkvæmt reglugerð nr. 414/1993 og verið synjað. Hér er um afar afmarkaðan hóp að ræða. Samkvæmt upplýsingum Húsnæðisstofnunar ríkisins . . .  gæti ákvæðið átt við 27 umsækjendur af 280 sem þá höfðu sótt um.``
    Það er auðvitað fjarstæða að setja slíkt í nál. að það sé túlkun félmrh., eins og hér kemur fram, að þetta ákvæði eigi einungis að ná til 27 einstaklinga, einungis þeirra sem Húsnæðisstofnun hafði á þeim tíma hafnað og féllu ekki undir ákvæði reglugerðar sem var gefin út 19. okt. 1993. Hér var einungis um að ræða að við settum fram upplýsingar um það hvað þetta væri stór hópur sem ekki hefði verið hægt að skuldbreyta lánum hjá samkvæmt þessari reglugerð vegna þess að sú aðstoð dugði ekki þeim hópi og það þurfti að fara út í frestun á lánum til þess að þetta fólk gæti haldið sínum íbúðum. En auðvitað nær þetta ákvæði til þeirra sem koma hér á eftir og hugsanlega falla ekki undir þá reglugerð um skuldbreytingar sem var gefin út í október 1993. Við vorum einungis að gefa nefndinni upplýsingar um hvað það gæti hugsanlega kostað sú frestun sem hér er lögð til og þar rennum við nokkuð blint í sjóinn. Við vitum ekki um hve stóran hóp er að ræða og við nefndum dæmi um að ef það væru 100 sem nytu góðs af þessu ákvæði þá kostaði það svo og svo mikið. Þannig að við getum ekkert sagt hvort um er að ræða 50 manns, 100 manns, 200 manns eða 300 manns, það verður tíminn auðvitað að leiða í ljós. En fyrst og fremst er um það að ræða að þetta ákvæði er sett fram þar sem reglugerð um skuldbreytingar á lánum á vegum Byggingarsjóðs ríkisins, sem gefin var út í október, gagnaðist ekki öllum þeim sem á þurftu að halda. Og ef þetta ákvæði kæmi ekki til mundi þetta fólk ella missa sínar íbúðir. En það er auðvitað fráleitt að halda því fram, eins og gert er í nál. minni hlutans, að hér sé verið að koma á ákvæði sem einungis eigi að ná til 27 manna hóps sem hefur verið hafnað af Húsnæðisstofnun. Þetta vil ég að komi mjög skýrt fram.
    Það kom einnig fram í máli þingmannsins og þar vísar hann í álit lögfræðinga Húsnæðisstofnunar ríkisins, þar sem kemur fram að telja verði heimilt að skuldbreyta með breytingu á skilmálum lánum Byggingarsjóðs ríkisins og húsbréfadeildar ef settar verða öruggar reglur, samþykktar af ráðherra. Þingmaðurinn segir í sínu nál. að hann veki athygli á áliti lögfræðideildar Húsnæðisstofnunar um þetta efni, að það sé heimilt að skuldbreyta lánum Byggingarsjóðs ríkisins. Þessu ákvæði sem þingmaðurinn vitnar til var einmitt beitt þegar gefin var út reglugerðin 19. okt. 1993, um það að stofna greiðsluerfiðleikalánaflokk, eins og var gert með því. En það er ekkert ákvæði í lögum um Húsnæðisstofnun sem heimilar frestun á greiðslum lána nema hjá Byggingarsjóði verkamanna og þess vegna var þetta ákvæði nauðsynlegt.
    Hv. 11. þm. Reykv. vék nokkuð að þessu sama ákvæði varðandi greiðsluerfiðleikana. Ég vil kannski koma inn á það líka að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ræddi hér nokkuð um vanskil hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Það er rétt að vanskil hafa aukist og á því eru skýringar. Ég hygg að um 70% af þeim hópi sem eru í vanskilum við Húsnæðisstofnun sé fólk sem hefur verið atvinnulaust um skemmri eða lengri tíma, fólk sem hefur orðið fyrir tekjufalli sökum þess að yfirvinna hefur dregist saman og fólk sem hefur búið við langvarandi veikindi. Þetta eru sennilega um 80% af þeim hópi sem lent hefur í greiðsluerfiðleikum og það er vissulega áhyggjuefni. Ég tek alveg undir það með hv. 11. þm. Reykv. að hér er ákveðinn hópur sem getur ekki staðið undir þeim hagstæðu kjörum sem bjóðast í félagslega húsnæðiskerfinu. Það er meira að segja svo að 100% lán sem veitt er í erfiðustu tilvikum, þ.e. hver einasta króna er lánuð hjá Húsnæðisstofnun ríkisins, að þetta fólk hefur ekki einu sinni getað staðið undir þeirri greiðslubyrði. Og það er nokkuð hátt hlutfall af þeim sem hafa fengið þetta 100% lán sem hafa lent í miklum erfiðleikum og jafnvel svo að íbúðir þessa fólks hafa lent á uppboði og þetta er vissulega áhyggjuefni.
    Hvaða leiðir eru til fyrir þennan hóp, ég skal ekki segja. Það hefur vænkast mjög leigumarkaðurinn á undanförnum árum. Leiguíbúðum hefur fjölgað verulega. Ég hygg að á sl. 5--7 árum hafi verið byggðar hér eða komið á fót um 700 leiguíbúðum gegnum útlán í félagslega íbúðakerfinu meðan þau á árum áður skiptu einhverjum fáeinum tugum. Þannig að leigumarkaðurinn hefur lagast mjög. Það sem maður horfir náttúrlega til líka fyrir þetta fólk er að koma á húsaleigubótum og ég vænti þess að frv. um það efni verði lagt hér fram á næstu dögum vegna þess að það bætir auðvitað hag þessa fólks þannig að það geti átt einhvern möguleika til þess síðar meir að koma sér upp húsnæði þá gegnum félagslega íbúðakerfið.
    Ég bendi líka á þann möguleika sem mér finnst sveitarfélögin ekki hafa nýtt sér nægilega og það er sá kostur sem boðið er upp á í félagslega kerfinu í gegnum félagslega kaupleigu, þ.e. fólk á sjálft að eiga val á því og sveitarstjórnirnar eiga að bjóða fólki það hvort það vill leigja eða kaupa félagslega kaupleiguíbúð. Þar á fólkið að hafa valið. En sveitarstjórnirnar eiga ekki að geta, samkvæmt ákvæðum þeirra laga, sett fólkinu stólinn fyrir dyrnar og sagt: Þið verðið að kaupa íbúðina annars fáið þið hana ekki. Fólk

á að geta átt þetta val. Þessi kostur finnst mér allt of lítið hafa verið nýttur af hálfu sveitarfélaganna sem eru framkvæmdaraðilar um þessar félagslegu íbúðir.
    Varðandi það að þetta ákvæði sé tímabundið. Ég tel að það sé ekki rétt að hafa viðvarandi ákvæði í húsnæðisslöggjöfinni um greiðluerfiðleika. Það má vel vera að það þurfi að framlengja þetta ákvæði þegar það nálgast það að fara að renna út. Við verðum þá bara að endurmeta stöðuna hvort það þurfi að framlengja það. En ég vil í þessu sambandi upplýsa að nefnd á mínum vegum hefur verið að skoða það sem nokkuð var til umræðu á síðasta þingi og er um sérstaka greiðsluaðlögun vegna greiðsluerfiðleika með líkum hætti og Norðmenn hafa komið á fót. Þeir eru með sérstaka löggjöf um greiðsluaðlögun og ég hygg að ég fari rétt með að Svíar séu líka að taka í gildi lög um greiðsluaðlögun. Nefndin hefur verið að skoða kosti slíkrar greiðsluaðlögunar og eftir því sem hún hefur skoðað þetta mál betur þá hef ég vitneskju um það að hún er jákvæð fyrir þeim kosti sem þessi greiðsluaðlögun felur í sér, en að þessu verki hafa komið fulltrúar dómsmrn., félmrn. og Neytendasamtakanna. Í Noregi eru það um 4.400 aðilar sem hafa fengið fyrirgreiðslu samkvæmt þessari löggjöf um greiðsluaðlögun og þessi löggjöf hefur meira að segja haft þau áhrif að tekist hafa frjálsir samningar milli aðila sem taka mið af þeim reglum sem lögin um greiðsluaðlögun byggjast á.
    Þessi nefnd mun skila af sér tillögum sem ég hef upplýsingar um að verði jákvæðar og mæli með því að þessar tillögur verði rækilega skoðaðar og tekin upp greiðsluaðlögun og ég á von á því að nefndin skili mér í næsta mánuði sínum tillögum.