Húsnæðisstofnun ríkisins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 18:55:44 (5609)


[18:55]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. vék að því að hann teldi rétt að þingið gæti fjallað um tillögur um greiðsluaðlögun á þessu þingi og ég veit ekki út af fyrir sig hvort þingmaðurinn meinti frv. Ég held að þetta mál sé flóknara en svo að það verði hrist fram úr erminni frv. um það á þeim fáu vikum sem eftir lifa af þessu þingi. Þetta er mjög flókið mál. Hér er verið að tala um að það sé áætlað hjá þröngum hópi sem fyrirsjáanlega blasir ekkert við nema gjaldþrot hvernig greiða megi niður skuldir viðkomandi miðað við áætlaðar tekjur og framfærsluþörf og standist einstaklingurinn þá raun á fimm árum þá er verið að tala um að fella niður ákveðnar skuldir hjá viðkomandi og það er ekkert einfalt mál. En skýrsla um það verður væntanlega tilbúin í næsta mánuði og þá finnst mér sjálfsagt að þeirri skýrslu verði dreift hér á Alþingi þannig að þingmenn geti áttað sig á þessari hugmynd. Ef samkomulag næst um það yrði tíminn í sumar notaður til að semja frv. um það sem þá yrði lagt fram á næsta vetri.