Húsnæðisstofnun ríkisins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 19:00:14 (5612)


[19:00]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég er ein af þeim sem skrifuðu undir nefndarálit félmn. við afgreiðslu þessa máls úr nefndinni og stend að þeim breytingartillögum sem hér hafa verið lagðar fram og talað fyrir á sérstöku skjali. Ég hefði kannski kosið að segja eitthvað um þetta áður en ráðherra talaði en því miður missti ég af lestinni, enda mæðist maður í mörgu þessa dagana og það verður að hafa það. Ég ætla ekkert að lengja þessa umræðu. Ég veit að hér hafa komið fram mjög margvíslegar upplýsingar um þessi mál og greiðslustöðu heimilanna og skuldastöðu heimilanna og ætla ekki að fara neitt ítarlega í það en á því taka þessar brtt. m.a.
    Ég vil hins vegar byrja á því áður en ég segi nokkuð efnislega um málið að koma á framfæri ákveðnum mótmælum eða ákveðinni gagnrýni á það hvernig mál hafa borist frá ráðuneyti inn í félmn., breytingartillögur sem varða þetta frv. sem hér var lagt fram fyrr á þessu þingi. Þá voru inni í frv. í rauninni þrjú mál. Það var um ávöxtun sjóðanna að það mætti ávaxta þá víðar en gert hefur verið, það var um skyldusparnað og það var um félagslegar íbúðir á lögbýlum. Og þetta eru allt óskyld mál í sjálfu sér. Síðan hafa bæst við tvö ný efnisatriði inn í frv. sem eru líka allsendis óskyld hinum þremur. Annað lýtur að frestun á greiðslum hjá einstökum lánþegum Byggingarsjóðs ríkisins og hitt lýtur að kaupleiguíbúðunum, að gefa heimild til að lengja lánstíma á þeim lánum sem hingað til hafa verið veitt til fimm ára. Þarna eru komin 5 ólík efnisatriði inn í eitt og sama frv. sem er frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það kom beiðni til nefndarinnar frá félmrn. um að hún flytti þessi tvö síðasttöldu frv. sem ég nefndi hérna og þessar brtt. Þetta eru hvort tveggja góð atriði og við skulum segja að það sé mjög erfitt að standa gegn þessum efnisatriðum vegna þess að þau eru í sjálfu sér góð og allir vilja gjarnan reyna að bæta þessa húsnæðislöggjöf eða bæta úr þeim ágöllum sem á henni eru. Hins vegar er það í rauninni óviðunandi fyrir almenna þingmenn að fá ekki 1. umr. um svona veigamiklar breytingar á húsnæðislöggjöfinni. Það er eðlilegt að þetta sé í frv. þegar það er lagt inn í þingið þannig að málið fái 1. umr. inni í þinginu og allir þingmenn geti tekið þátt í þeirri umræðu og komið ábendingum á framfæri við þingmenn. En þetta er svo sem ekki einstakt dæmi sem ég er hér að rekja. Þetta gerist æ tíðar að ráðherrar í rauninni biðji þingnefndir um að taka mál til flutnings ýmist heilu frumvörpin eða biðji þingefndir að gera breytingar á frumvörum sem ráðherrarnir hafa sett hér inn í þingið.
    Vegna þessa var gerð samþykkt á þingflokksfundi hjá Samtökum um kvennalista 22. mars sl. og mig langar til að lesa hana hér. Þessi samþykkt var send forsætisnefnd Alþingis og hún er svona, með leyfi forseta:
    ,,Þingflokkur Kvennalistans ræddi á fundi sínum 21. mars sl. um afstöðu til þess að þingnefndir leggi fram mál í eigin nafni að beiðni ráðherra. Þingflokkurinn telur að slíkt eigi aðeins að gera í undantekningartilvikum þegar brýna nauðsyn ber til og flýta þarf málum vegna þess að um óumdeilda þjóðarhagsmuni er að tefla.
    Þingflokkur Kvennalistans telur að ef um ágreiningsmál er að ræða eða pólitísk umdeild mál, þá sé óæskilegt að þingnefndir taki að sér að flytja þau mál inn í þingið að beiðni einstakra ráðherra. Sama máli gegnir um veigamiklar breytingartillögur við frumvörp sem þingnefndir eru með í vinnslu. Að undanförnu hefur það færst í vöxt að ráðherrar fari þess á leit við þingnefndir að gera grundvallarbreytingar á frumvörpum eða bæta inn nýjum óskyldum atriðum við 2. eða 3. umr. um málið. Vafamál er að slíkt standist ákvæði 44. gr. stjórnarskrárinnar um að ekkert lagafrv. megi samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. Þingflokkur Kvennalistans telur að setja þurfi skýrar reglur um framangreind atriði og beinir því til forsætisnefndar að taka málið til gaumgæfilegrar skoðunar.``
    Þetta er sem sagt samþykkt þingflokks Kvennalistans. Þessi samþykkt kemur til vegna þess að við höfum orðið varar við það að þetta gerist nú æ tíðar að ráðherrar komi hér inn með frumvörp sem eru kannski hálfköruð og komi síðan með beiðnir inn í nefndirnar um að þær fullvinni frumvörpin og geri á þeim veigamiklar efnisbreytingar. Þessu vil ég koma hér á framfæri, virðulegi forseti, þannig að þetta megi þá koma til skoðunar og þá hjá öðrum þingflokkum jafnvel, hjá ráðherrum og síðast en ekki síst inn í forsætisnefnd sem fær þetta bréf til formlegrar umfjöllunar.
    Eins og ég sagði eru þessi efnisatriði sem félmn. gerði að sínum í sjálfu sér góðra gjalda verð, bæði það að heimila frestun á greiðslum hjá einstökum lánþegum til Byggingarsjóðs ríkisins og eins að veita heimild til þess að hægt sé að skuldbreyta fimm ára lánum sem fylgja kaupleiguíbúðum og gera þau að 25 ára lánum. Hvort tveggja er til þess fallið að létta greiðslubyrði hjá fólki sem á í erfiðleikum með að ná endum saman vegna kaupa á eigin íbúð. Og því miður gerist það nú æ tíðar að fólk lendi í miklum erfiðleikum við að standa í skilum með afborganir af húsnæðislánum eða öðrum lánum sem tekin hafa verið vegna þess að fólk hefur verið að eignast eigin íbúðir. Hér hafa komið fram tölur um það að frá 1. okt. sl. og þar til í lok janúar á þessu ári eða á 4 mánuðum hafi Húsnæðisstofnun borist 280 umsóknir um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika og þetta er auðvitað talsvert á fjögurra mánaða tímabili. Aðeins 56 af þessum 280 höfðu fengið jákvæða afgeiðslu hjá stofnuninni og fengið samþykki við skuldbreytingalán. Það kom

jafnframt fram í gögnum hjá Húsnæðisstofnun eins og hv. 5. þm. Vestf., Kristinn H. Gunnarsson, hefur rakið að stofnunin hefur metið það svo að um 27 umsækjendur af þessum 280 hefði líklega verið boðin frestun á greiðslum ef þessi frestunarheimild hefði verið fyrir hendi í lögum. Það eru einu tölurnar sem við höfum handbærar núna. Það getur vel verið að þessi hópur eigi eftir að verða talsvert stærri þegar fram líða stundir en þetta eru þó einu haldbæru tölurnar í augnablikinu. Það kom fram hjá mjög mörgum sem komu á fund nefndarinnar að þessi ákvæði þó ágæt væru mundu ná til mjög takmarkaðs hóps. Það kom fram hjá fulltrúa fjmrn., Halldóri Árnasyni. Það kom fram hjá fulltrúa Neytendasamtakanna og e.t.v. einhverjum fleiri sem komu á fund nefndarinnar.
    Hins vegar var m.a. á það bent af fulltrúa Neytendasamtakanna á fundinum að það þyrfti að gera ýmislegt fleira og Neytendasamtökin sendu nefndinni einmitt talsvert af gögnum um þá löggjöf sem í gildi er m.a. í Noregi, þ.e. lög um greiðsluaðlögun. Þessu lög eru til í Noregi og líklega er hún komin á í Svíþjóð núna og gott ef ekki eitthvað sambærilegt er til í Bretlandi. Það er víða verið að vinna með þessi mál enda er það alþekkt fyrirbæri og kannski hlutur sem hefur verið að gerast á öllum Norðurlöndunum á undanförnum árum að skuldir heimilanna hafa aukist mjög verulega. Það er sameiginlegt einkenni á öllum Norðurlöndunum að allan síðasta áratug hafa skuldir heimilanna verið að aukast mjög mikið. Hér á landi hafa þær fjórfaldast á 10 árum, frá 1981--1992 fjórfölduðust skuldir heimilanna og það segir sig auðvitað sjálft að þegar litið er til þeirra háu vaxta sem hér hafa verið þá hlýtur það að leiða til talsverðra greiðsluerfiðleika hjá fólki. Sumt af þessum lánum og þorri þessara lána hefur verið tekinn vegna öflunar eigin húsnæðis en talsvert af þessum lánum eru líka neyslulán. Það er athyglisvert þegar skoðuð er þróunin frá 1986--1992 þá hefur skuldaaukning heimilanna verið 143,5 milljarðar en fjárfesting í íbúðarhúsnæði á sama tíma verið 105,2 milljarðar þannig að 40 milljarðar af þessu eru neyslulán og þá væntanlega lán til kaupa á bílum eða öðrum neysluvarningi.
    Það má kannski segja að fólk hefði átt að sníða sér stakk eftir vexti og ekki fara út í þessar miklu lántökur, en hér hefur verið mikið framboð af lánsfé og þetta lánsfé hefur verið tiltölulega útbært í bönkunum enda vextirnir háir og bankarnir hafa fyrst og fremst horft á það hvort það fólk sem er að taka lán getur lagt fram einhvers konar veð, annaðhvort í íbúðarhúsnæði sjálfs sín eða annarra en síður á það hvort fólkið hefði í raun og veru tekjur til að standa undir þessum lánum sem það hefur verið að taka þannig að auðvitað bera bankarnir talsverða ábyrgð líka.
    Vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi þar sem heimilin eru svo mjög skuldsett eins og raun ber vitni, þá vil ég fagna því sem kom fram hjá ráðherra að það er verið að skoða það núna í félmrn. hvort við eigum að fara að dæmi Norðmanna og setja hér löggjöf um greiðsluaðlögun. Það er í rauninni ekki nema sjálfsagt að þetta sé skoðað hvað heimilin varðar vegna þess að við horfum hér upp á það og erum búin að horfa upp á það mörg undanfarin ár að það hefur verið afskrifað talsvert mikið af lánum eða 40 milljarðar í bönkum og sjóðum á undanförnum fimm árum vegna atvinnufyrirtækja sem hafa lent í þrotum og við heyrum um það í fréttum upp á hvern einasta dag að það er verið að gera nauðarsamninga við fyrirtæki þar sem lánveitendur gangast undir það að fá ekki að fullu greidd til baka þau lán sem þeir hafa veitt, fá bara ákveðinn hluti af því. Þetta hefur tíðkast með fyrirtækin, að þau hafa fengið slíka nauðarsamninga og það er auðvitað jafnsjálfsagt, þó að ég verði að setja ,,sjálfsagt`` þarna innan gæsalappa vegna þess að auðvitað er ekki sjálfsagt að við séum með þessa stöðu almennt í samfélaginu, en að einstaklingarnir og heimilin geti fengið sambærilega meðhöndlun inni í kerfinu.
    Þess vegna fagna ég því að það skuli nú vera komið fram hjá ráðherra að þetta sé til alvarlegrar skoðunar í ráðuneytinu en ég segi eins og hv. 5. þm. Vestf., ég hafði ekki þá trú eftir að fulltrúi ráðuneytisins hafði komið inn í nefndina og talað um þessa norsku löggjöf og sagt það m.a. einmitt á fundi 1. mars, ég er hér með punkta frá þeim fundi, að þessi greiðsluaðlögunarlög í Noregi hefðu ekki gefist vel og það hefðu verið mjög fáir sem hefðu fengið einhverja meðhöndlun samkvæmt þeim lögum.
    Þetta kom sem sagt fram hjá þessum fulltrúa þannig að maður eiginlega gaf sér það að það væri ekki kannski mjög mikill vilji í ráðuneytinu til þess að taka upp þessa löggjöf. En ég fagna því að þessi vinna er nú í gangi og vonandi fáum við að sjá þá skýrslu í þinginu hið fyrsta um þetta mál.