Húsnæðisstofnun ríkisins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 19:25:56 (5614)


[19:25]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að ræða hv. þm. gefi nú kannski tilefni til ítarlegrar umfjöllunar um húsnæðismál þá sé ég ekki ástæðu til þess að setja á langt mál um það enda ekki margir hér í þingsalnum til þess að hlýða á málið. Mér sýnist að það sé eingöngu hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fyrir utan forsetann þannig að ég ætla ekki að setja á langt mál um þetta þó að tilefni hafi gefist til.
    Ég vil í fyrsta lagi segja varðandi reglugerðina að ég hef talið nauðsynlegt að gefa út reglugerðir um skuldbreytingar á lánum á vegum Byggingarsjóðs ríkisins. Ég taldi það nauðsynlegt. Ég tel það samræmast góðum stjórnsýsluháttum að setja reglugerð um skuldbreytingalán en það séu ekki bara einhverjar reglur sem Húsnæðisstofnun setur þar um. Ef um reglugerð er að ræða þá er þetta birt í Stjórnartíðindum og það er í samræmi við ákvæði laganna að okkar mati að það sé sett reglugerð um og það sé stofnað þá til tímabundins lánaflokks eins og heimilt er í 11. gr. laga um Húsnæðisstofnun.
    Hér hefur nokkuð verið agnúast út í það að ég skyldi hafa beðið nefndina um að flytja tvær breytingartillögur við þetta frv. Ég tel nú og get auðvitað út af fyrir sig tekið undir það og tek það ekkert illa upp þó að t.d. hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hv. 10. þm. Reykv., hafi nefnt að það væri eðlilegra að frv. færi í gegnum 1. umr. Hér er hvorki um stórvægilegar né flóknar breytingar að ræða sem ég óskaði eftir að nefndin flytti. Nefndin var með frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins til meðferðar. Hér var um tvær tiltölulega einfaldar breytingar að ræða, annars vegar um lengingu á láni í almennum kaupleiguíbúðum og hins vegar að heimila húsnæðismálastjórn, sem hún ekki hafði heimild til, frestun á greiðslu lána hjá Byggingarsjóði ríkisins. Þetta eru nú ekki stórvægilegar breytingar og það hefur oft komið til að nefnd hafi tekið upp ýmsar stórvægilegar breytingartillögur við frumvörp sem fram hafa verið borin í nefndum.
    Hitt væri annað mál ef væri verið að biðja nefndina að flytja kannski viðamikið frv. án þess að það færi hér í gegnum 1. umr. Hér var um að ræða brýn mál til hagsbóta fyrir fólk sem er í greiðsluvandræðum enda tók nefndin vel undir það eins og fram kom í mínu máli fyrr í dag.
    En ég skil ekki hvað hleypti svo illu blóði í hv. þm. þegar ég fór að tala um greiðsluaðlögunina. Ég hélt einmitt að þingmaðurinn mundi fagna því að það væri verið að skoða mjög ítarlega greiðsluaðlögunina og þá löggjöf sem Norðmenn hafa til að mynda byggt á. Ég vil ítreka það því að mér finnst þingmaðurinn tala þannig að maður hristi þetta frv. bara fram úr erminni að þetta er nokkuð flókið og viðamikið mál. Nefndin hefur ekki einungis verið að afla sér gagna frá Noregi um þetta mál og víðar um reynsluna af þessu, heldur hefur nefndin líka verið að vinna að gagnaöflun hér á landi um greiðsluvanda heimilanna með það að markmiði að greina vandann nánar, fá upplýsingar um umfang og ástæður til þess að vera betur undir það búin að leggja fram tillögur um þetta efni. Ég tel að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða og þó nefndin hafi haft örfáa mánuði nú á þessum vetri til að fjalla um það mál, þá tel ég það alls ekki langan tíma fyrir svona stórt og viðamikið mál eins og þetta er.
    Varðandi skyldusparnaðinn sem hv. þm. nefndi, þá er hér verið að útvíkka hann þannig að fólk sem býr við atvinnuleysi og langvarandi veikindi og námsmenn geti fengið greiddan út sinn skyldusparnað. Það verður að fara mjög varlega í sakirnar. Eftir að skyldusparnaðinum var hætt þá vorum við með 4--5 milljarða sem þurfti að greiða út til fólks og það varð að gera það í áföngum þannig að það verður að fara mjög vægilega í sakirnar í þessu efni. Auðvitað geta komið upp svona tilvik eins og hv. þm. nefndi eins og almenna greiðsluerfiðleika hjá fólki en ég minnist ekki að það hafi verið áður heimild til þess þegar skyldusparnaðurinn var í gangi að greiða það út þó að það væri um almenna greiðsluerfiðleika að ræða. En ég er alveg sannfærð um það að þessi útvíkkun sem núna er með þessu ákvæði mun skila sér vel og það er áætlað að þetta muni gagnast um 400 ungmennum sem samkvæmt þessum ákvæðum munu fá endurgreiddan sinn skyldusparnað.
    Varðandi fjármögnun Húsnæðisstofnunar sem hv. þm. nefndi einnig þá hafa verið vissir erfiðleikar í húsnæðisútboðunum. Það er alveg ljóst en það hefur ekkert komið niður á útlánagetu stofnunarinnar

með einum eða öðrum hætti. Húsnæðisstofnun hefur fengið hagstæða fyrirgreiðslu hjá ríkissjóði þannig að það hafa ekki skapast nein vandræði og það hefur verið unnið að því á undanförnum vikum að samræma útboð Húsnæðisstofnunar og annarra ríkisverðbréfa með ákveðnum skilmálum sem á að gera það auðveldara að þessi húsnæðisútboð gangi. Ég vænti þess að sú samræming sem að hefur verið unnið muni skila sér í því að við munum fá meira fjármagn inn í gegnum þessi húsnæðisútboð sem ég tek undir að hafa á undanförnum vikum ekki skilað eins og til var ætlast.