Þjóðminjalög

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 10:47:51 (5620)


[10:47]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Með frv. því sem hér liggur fyrir er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á þjóðminjalögum sem samþykkt voru á Alþingi vorið 1989 og síðar breytt með lögum frá 1991. Í þjóðminjalögum, nr. 88/1989, var mælt fyrir um að endurskoða skyldi lögin eigi síðar en að fimm árum liðnum frá gildistöku þeirra. Má segja að með því frv. sem hér er flutt sé þeirri lagaskyldu fullnægt. Þess er þó að geta að þjóðminjaráð telur æskilegt að innan tíðar fari fram frekari endurskoðun á þeim köflum laganna sem fjalla um fornminjar og húsafriðun. Þær breytingar sem nú eru gerðar eru tillögur um lúta fyrst og fremst að stjórnkerfi þjóðminjavörslunnar eins og ég mun víkja nánar að.
    Þjóðminjalögin sem sett voru 1989 leystu af hólmi löggjöf um sama efni frá 1969 með breytingu frá 1975. Helstu nýmælin vörðuðu stjórn þjóðminjavörslunnar. Gert var ráð fyrir allviðamiklu stjórnkerfi bæði á landsvísu og að því er varðaði minjavörslu í héruðum. Innan þessa kerfis var stjórn fornleifamála að verulegu leyti skilin frá umsjón annarrar minjaverndar. Reynslan hefur þótt sýna að á því stjórnkerfi sem þannig var stofnað til væru nokkrir annmarkar sem æskilegt væri að lagfæra. Valdmörk milli stjórnaðila hafa í sumum tilvikum þótt bagalega óskýr og tilhögunin ekki alltaf fallin til að stuðla að greiðri framkvæmd.
    Brtt. sem í frv. felast miða að því að sníða af kerfinu helstu agnúana af þessu tagi í því skyni að gera það einfaldara, skýrara og skilvirkara.
    Frá vinnubrögðum við endurskoðun laganna er greint í inngangi athugasemda við frv. og vísa ég

til þess. Ég mun nú drepa á helstu breytingarnar sem frv. gerir ráð fyrir.
    Í gildandi lögum er kveðið á um að þjóðminjaráð fari ,,með yfirstjórn þjóðminjavörslu í landinu í umboði menntmrn.`` Í stjórnsýslulegu tilliti þykir þetta orðalag óljóst. Í frv. er því sá kostur tekinn að láta koma skýrt fram að yfirstjórn þessara mála sé í höndum menntmrh. Að öðru leyti er verksvið þjóðminjaráðs skilgreint efnislega svipað og í gildandi lögum. Ráðinu er ætlað að sinna stefnumörkun og áætlanagerð, þar á meðal um fjárhagsmálefni og hafa efitrlit á því sviði. Jafnframt er það stjórnarnefnd Þjóðminjasafns Íslands.
    Skipan þjóðminjaráðs breytist nokkuð samkvæmt frv. Áfram er gert ráð fyrir fimm fulltrúum en í stað eins fulltrúa samkvæmt tilnefningu deildarstjóra Þjóðminjasafns kemur fulltrúi tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga. Er hér farið að ósk stjórnar sambandsins um aðild að þjóðminjaráði og vonast er til að sú tilhögun verði til að treysta góð samskipti við sveitarfélögin um málefni þjóðminjavörslunnar.
    Þótt ekki sé lengur gert ráð fyrir að deildarstjórar Þjóðminjasafns tilnefni fulltrúa sinn í þjóðminjaráð er fulltrúa tilnefndum af föstum starfsmönnum safnsins ætluð seta á fundum ráðsins með málfrelsi og tillögurétti og sama gegnir um þjóðminjavörð og safnstjóra. Sem fyrr er ráðherra ætlað að skipa einn fulltrúa í þjóðminjaráð og er í frv. gert ráð fyrir að hann sé jafnframt formaður ráðsins.
    Samkvæmt gildandi lögum skipar ráðherra formann úr hópi ráðsmanna. Niður er fellt ákvæði um að fulltrúinn sem ráðherra skipar skuli vera fornleifafræðingur. Þykir ekki ástæða til að lögbinda það með hliðsjón af verksviði ráðsins. Þá er mælt fyrir um skipan varamanna í þjóðminjaráð en svo er ekki í gildandi lögum. Loks er þess að geta að skipunartími ráðsins verður fjögur ár í stað fimm.
    Þau atriði sem nú voru rakin og varða þjóðminjaráð er að finna í 1. gr. frv. Í sömu grein eru ákvæði um embætti þjóðminjavarðar. Breytingar frá gildandi lögum miða að því að skýra og styrkja stöðu þjóðminjavarðar að því er tekur til þess hlutverks hans að hafa umsjón með þjóðminjavörslu í landinu og annast forstöðu Þjóðminjasafnsins. Ákvæði um fyrrnefnda þáttinn er í gildandi lögum orðað svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þjóðminjavörður hefur umsjón með þjóðminjavörslu í landinu öllu í umboði þjóðminjaráðs.``
    Í frv. eru orðin ,,í umboði þjóðminjaráðs`` felld brott. Óbreytt er að forseti Íslands skipi þjóðminjavörð til fjögurra ára í senn að tillögu menntmrh. en kveðið á um að ráðherra skuli leita umsagnar þjóðminjaráðs. Samkvæmt gildandi lögum skal að öðru jöfnu ráðinn maður með sérfræðilega menntun í menningarsögu. Þessu ákvæði er haldið í frv. en bætt við hæfisskilyrðin ,,reynslu af stjórnunarstörfum``.
    Einna veigamestu breytingar sem frv. gerir ráð fyrir felast í 2. gr. þess þar sem fjallað er um hlutverk og skipan fornleifanefndar. Lagt er til að afnumin verði sú tvískipting á stjórn þjóðmunavörslunnar sem gert er ráð fyrir í gildandi lögum og felst í því að fornleifanefnd fer með yfirstjórn fornleifavörslu og fornleifarannsóknir í landinu í umboði þjóðminjaráðs og er jafnframt stjórnarnefnd fornleifadeildar Þjóðminjasafnsins.
    Samkvæmt frv. hefur fornleifanefnd áfram það verkefni að fjalla um leyfisveitingar vegna fornleifarannsókna. Að öðru leyti er henni ætlað að sinna faglegri ráðgjöf en ekki stjórnsýslustörfum. Fulltrúum í nefndini er fækkað úr fimm í þrjá og skipunartími styttur úr fimm árum í fjögur ár. Tilnefningaraðilar verða Háskóli Íslands, þjóðminjaráð og Félag ísl. fornleifafræðinga, en ráðherra skipar formann úr hópi þeirra fulltrúa sem þannig eru tilnefndir.
    Samkvæmt gildandi lögum tilnefna Háskóli Íslands og Samband ísl. sveitarfélaga hvort sinn fulltrúa en jafnframt eiga sæti í nefndinni ráðherraskipaður fulltrúi í þjóðminjaráði, þjóðminjavörður og fornminjavörður. Samkvæmt frv. er þjóðminjaverði eða staðgengli hans ætluð seta á fundum fornleifanefndar með málfrelsi og tillögurétti. Mælt er fyrir um skipan varamanna en um það eru ekki ákvæði í gildandi lögum.
    Samkvæmt 3. gr. frv. er eins og áður er gert ráð fyrir að landinu skuli skipt í minjasvæði með ákvæðum í reglugerð en mælt fyrir um að afla skuli tillagna þjóðminjaráðs um það efni. Lagt er til að ekki verði lengur mælt fyrir um að á hverju minjasvæði skuli starfa einn minjavörður og einn fornleifavörður, heldur verði þessi hlutverk sameinuð í starfi minjavarðar. Þá er og gert ráð fyrir heimild til að fela forstöðumanni byggðasafns á viðkomandi minjasvæði að gegna hlutverki minjavarðar samkvæmt sérstökum starfssamningi. Þess er vænst að sú tilhögun sem frv. gerir ráð fyrir reynist raunhæfari en sú skipan sem mælt er fyrir um í gildandi lögum og hefur ekki enn komist til framkvæmda þar sem fé hefur ekki verið veitt til þessa á fjárlögum.
    Í 4. gr. frv. felast tillögur um breytingar á þeirri grein laganna sem fjallar um Þjóðminjasafn Íslands. Fyrst ber að telja það atriði að deildaskipting safnsins verður samkvæmt frv. ekki lengur bundin í lögum eins og nú er að nokkru leyti, heldur verður heimilt að kveða á um hana í reglugerð að fengnum tillögum þjóðminjaráðs. Þar sem deildir verða ekki lengur sérgreindar í lögunum sjálfum falla jafnframt brott ákvæði laganna um sérstöðu eða sérstök verkefni einstakra deilda eða breytast þannig að í stað deildar er vísað til safnsins sjálfs. Þetta á m.a. við um fornleifasvið og fornleifadeild sem samkvæmt gildandi lögum lýtur stjórn fornleifanefndar. Af þessari breytingu leiðir einnig að sérstök ákvæði um forstöðumann fornleifasviðs, sem samkvæmt lögum nr. 43/1991, um breytingu á þjóðminjalögum, ber starfsheitið fornminjavörður, falla niður.
    Ákvæði um ráðningu starfsfólks þjóðminjasafnsins breytast talsvert samkvæmt frv. Eftir gildandi

lögum skipar menntmrh. deildarstjóra og sérfræðinga að fengnum tillögum þjóðminjaráðs eða fornleifanefndar að því er varðar fornminjavörð. Í frv. er gert ráð fyrir að ráðning þessara starfsmanna verði í höndum þjóðminjavarðar með samþykki þjóðminjaráðs. Ráðning deildarstjóra skal vera tímabundin til fimm ára í senn. Áfram er gert ráð fyrir að safnstjóri sem jafnframt er staðgengill þjóðminjavarðar verði ráðinn af menntmrh. til fimm ára í senn. Ákvæðum um byggðasöfn í 6. gr. gildandi laga er samkvæmt 5. gr. frv. breytt lítillega í því skyni að gera þau skýrari að því er varðar þá reglusetningu sem mælt er fyrir um.
    Núverandi ákvæði má skilja á þá lund að fyrir hvert byggðasafn skuli vera stofnskrá, starfsreglur og reglugerð staðfest af menntmrh. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir stofnskrá fyrir hvert safn, en jafnframt heildarreglugerð um byggðasöfn sem ráðherra setur að fenginni tillögu þjóðminjaráðs. Kveðið er á um að ríkisstyrkur til byggðasafns sé háður því að menntmrn. hafi samþykkt stofnskrá safnsins að fenginni tillögu þjóðminjaráðs.
    Samkvæmt 8. gr. frv. er gerð lítils háttar breyting á ákvæðum um skipan minjaráða sem gert er ráð fyrir að starfi á hverju minjasvæði. Í stað fulltrúa úr stjórnum viðurkenndra byggðasafna á svæðinu koma forstöðumenn safnanna.
    Í 20. gr. frv. er gert ráð fyrir breytingu á 49. gr. gildandi laga að því er varðar greiðslu kostnaðar af störfum húsafriðunarnefndar. Lagt er til að lögfest verði að þau útgjöld greiðist úr húsafriðunarsjóði en ekki ríkissjóði. Þetta þykir eðlilegri skipan og í samræmi við það sem gildir um ýmsa aðra opinbera sjóði, þ.e. að kostnaður við úthlutun framlaga greiðist af ráðstöfunarfé sjóðanna.
    Aðrar breytingar sem í frv. felast eru minni háttar og að verulegu leyti orðalagsbreytingar sem leiðir af því að deildir þjóðminjasafns verða ekki lengur tilgreindar í lögunum. Um þessar breytingar skal vísað til athugasemda við einstakar greinar frv.
    Það er von mín að unnt reynist að afgreiða þetta mál nú á vorþinginu svo að lagabreytingarnar geti öðlast gildi 1. júlí eins og frv. gerir ráð fyrir. Að svo mæltu leyfi ég mér, hæstv. forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.