Þjóðminjalög

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 11:00:22 (5621)


[11:00]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er eitt atriði í þessu frv. sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um sérstaklega og það er ákvæði sem snýr að ráðningu minjavarða og þeirri breytingu sem lögð er til með frv. að þjóðminjaráð geri tillögur um minjasvæði en ef ég man rétt gildandi lög, þá er gert ráð fyrir því að það séu kjördæmin í aðalatriðum sem séu grundvöllurinn fyrir þessari skiptingu. Og samkvæmt gildandi lögum hygg ég að gert sé ráð fyrir að minjaverðir á þessum minjasvæðunum séu menn í fullu starfi sem þar séu ráðnir. Hér er sem sagt lögð til sú breyting að þjóðminjaráð geri tillögu um minjasvæði og að ákvæði gildandi laga um að ráðnir skulu minjaverðir auk fornleifafræðinga, en það var sett inn í frv. við meðferð í þinginu, ráðnir fyrir árslok 1994 og er gert ráð fyrir að lengja þann frest nú til ársloka 1997.
    Ég efast út af fyrir sig um að það sé rétt að skilja þetta mál eftir opið varðandi minjasvæði eins og hér er gerð tillaga um, en alveg sérstaklega finnst mér hæpið að framlengja án nánari fyrirmæla ákvæði um það hvenær skuli ráðið í stöðu minjavarða fyrir hin einstöku minjasvæði. (Forseti hringir.) Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvað hann hafi í huga í þeim efnum. Nú geta menn auðvitað hugsað sér, og mér finnst það ekki óeðlilegt, virðulegur forseti, að þetta sé tekið í áföngum, en ég vil spyrja ráðherra eftir því hvaða stefnu hann hyggist fylgja að þessu leyti.