Þjóðminjalög

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 11:17:23 (5625)



[11:17]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég kýs að veita andsvar við þessari ræðu --- ekki það að mál ræðumanns, sem ég gat ekki hlýtt á nema að hluta þar sem ég var kvaddur í síma, gæfi sérstakt tilefni til þess en þegar ég veitti ráðherra andsvar áðan þá hafði ég ekki handa á milli gildandi lög sem ég hef síðan augum borið og mín ábending eða spurning til ráðherrans var kannski að vissu leyti ekki nógu vel undirbyggð af því að ég hafði vitnað til laganna eftir minni en í upphaflegu frv. til gildandi laga var gert ráð fyrir að landinu yrði skipt í minjasvæði og það væru kjördæmin sem væru þar lögð til grundvallar. En ég sé að þessu eins og fleiru hefur verið umturnað í þeim lögum sem að lokum voru samþykkt og þar stendur: ,,Landinu skal skipt í minjasvæði eftir nánari reglum sem ráðherra setur í reglugerð.`` Hér er hins vegar verið að leggja til samkvæmt frv. að þjóðminjaráðið geri tillögur um þetta. Mín spurning til ráðherrans hefði auðvitað átt að lúta að því hvort hæstv. ráðherra hefði sett þessar reglur. Nú hef ég ekki kost á að spyrja hann öðru sinni en kannski víkur hann að því í ræðu sinni. Ég er þeirrar skoðunar að á lokastigum málsins við lögsetningu gildandi laga þá hafi verið farið í málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða sem ekki hafa verið farsæl nema að litlu leyti og ég held því að ýmislegt í þessu frv. sem ég hef þó ekki lesið nægilega séu ekki óeðlilegar breytingar sem þar eru á ferðinni en mín áhersla að því er varðar minjaverðina og minjasvæðin er sú að þarna verði raunverulega tekið á og ráðið í þessi verkefni þannig að þessi ákvæði verði virk hið fyrsta.