Þjóðminjalög

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 11:19:54 (5626)


[11:19]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um Þjóðminjasafn Íslands. Þetta mál hefur ekki komið á dagskrá þann tíma sem ég hef setið á hinu háa Alþingi en ég sé það af gögnum að á síðasta kjörtímabili hafa í tvígang verið gerðar breytingar á þessum lögum. Annars vegar var farið rækilega í gegnum gildandi lög og á þeim gerðar töluvert miklar breytingar 1989 og síðan voru gerðar frekari breytingar 1991.
    Eins og fram kom í máli hæstv. menntmrh. var ákvæði í gildandi lögum um það að endurskoða skyldi lögin og það vakna auðvitað spurningar um það varðandi stofnanir eins og þessa hversu eðlilegt það er að vera sífellt að breyta lögunum. Auðvitað þarf að sníða af agnúa en ég held að menn hljóti að geta komið sér niður á einhverja framtíðarstefnu varðandi skipan Þjóðminjasafnsins. Stofnun eins og þessi er þess eðlis að það er eitthvað að, það er eitthvað sérkennilegt ef menn þurfa alltaf að vera að breyta lögunum

um svona safn. En hvað um það, hér er þetta frv. fram komið og það er auðvitað vegna þess að ýmislegt sem samþykkt var 1989 hefur ekki reynst sem skyldi.
    Ég verð að segja það í upphafi máls míns að þetta frv. er ansi seint fram komið og vegna þeirrar óskar sem fram kom í máli hæstv. menntmrh. um að þetta mál yrði afgreitt fyrir vorið þá verð ég að setja fyrirvara hvað það varðar af minni hálfu. Ég hef efasemdir um að það takist. Við erum með tvö stór og mikilvæg mál til meðferðar í hv. menntmn., þ.e. frv. um Vísinda- og tækniráð og frv. um Þjóðarbókhlöðuna. Það eru hvort tveggja mál sem þarfnast rækilegrar skoðunar þannig að ég vil slá þann varnagla að það er ekki víst að það takist að afgreiða þetta mál fyrir vorið.
    En þegar ég fór að lesa í gegnum gildandi lög og síðan frv. sem hér liggur fyrir þá fór ég að hugleiða það hvert er hlutverk stofnunar eins og Þjóðminjasafnsins --- þjóð-minja-safn, safn sem á að gæta arfs Íslendinga í munum og minjum. Ég punktaði hjá mér sex þætti sem mér finnst fela í sér meginhlutverk Þjóðminjasafnsins og sú spurning vaknar í mínum huga hvort það sé ekki rétt í lögum eins og þessum að kveða nánar á um hlutverk safnsins. Það er skilgreint hér mjög vítt. Það segir í lögunum að tilgangur laganna sé að tryggja sem best varðveislu menningarsögulegra minja þjóðarinnar. Síðan er kveðið á um skipulag og starfsemi Þjóðminjasafnsins og byggðasafna sem tengjast Þjóðminjasafninu en hlutverk safnsins er ekki skilgreint nánar. En ég sé hérna sex hlutverk. Í fyrsta lagi það að varðveita forngripi og minjar. Í öðru lagi að rannsaka þjóðminjar. Í þriðja lagi að sýna muni og minjar. Í fjórða lagi að fræða og kenna. Í fimmta lagi að efla þekkingu og vitund um sögu verkmenningu og daglegt líf þjóðarinnar í aldanna rás og í sjötta lagi að segja sögu þjóðarinnar. Þetta tengist auðvitað en þetta er mjög víðtækt hlutverk sem hægt er að vinna að með ýmsu móti. Ég hlýt að spyrja þeirrar spurningar hvernig safnið uppfyllir eða sinnir þessu hlutverki sínu.
    Nú þykist ég tala af nokkurri reynslu og þekkingu því bæði hef ég sem sögukennari notað Þjóðminjasafnið mikið og farið í ferðir þangað með mína nemendur og einnig hef ég unnið að verkefnum á vegum Þjóðminjasafnsins, þjóðháttarannsóknum, þannig að ég þykist þekkja nokkuð til. Þá er þar fyrst að nefna að þegar húsnæðismál eru með þeim hætti sem raun ber vitni, þ.e. sjálft safnahúsið er í afar lélegu ásigkomulagi og geymslurými af skornum skammti, þá gerir það eitt safninu erfitt fyrir um að sinna þessu hlutverki. Þá er að nefna það að Þjóðminjasafnið hefur verið mjög svelt af fjármunum á undanförnum árum sem kannski sést best á því hve safnið er óskaplega gamaldags. Ég hef nefnt þetta margsinnis í umræðum um fjárlög og ráðstafanir í ríkisfjármálum þar sem við höfum verið að koma m.a. inn á framlög til húsafriðunar og fleiri þátta og það er ekki hægt að segja annað en að safnið hefur verið óskaplega svelt enda hefur það lítið þróast á þeim áratugum sem það hefur starfað, þ.e. það sem snýr að almenningi. Rannsóknir hafa þróast þar töluvert og margt gerst í þeim en sýningaraðstaða safnsins er fyrir neðan allar hellur og svo gamaldags að ég hef stundum nefnt það svo að það ætti bara að fara að varðveita safnið sem grip út af fyrir sig. Ef maður kemur í söfn erlendis þá finnur maður hvað þetta er himinhrópandi. Ég get nefnt sem dæmi m.a. lítið þjóðminjasafn á Álandseyjum sem á sínum tíma hlaut verðlaun Evrópuráðsins sem þjóðminjasafn. Það er afar skemmtilegt safn og sýnir vel hvernig hægt er að kynna þjóðminjar og verkmenningu á annan hátt en að hengja einhvern hlut upp á vegg og setja svo þar á miða sem sýnir nafnið á hlutnum en því er ekkert lýst hvernig hann var notaður.
    Þá er líka fróðlegt að nefna að það er nýbúið að endurskipuleggja allt danska þjóðminjasafnið og þar hefur verið unnið alveg gífurlegt verk og það safn er orðið mjög skemmtilegt og fróðlegt að skoða það. Ég vildi beina því til hæstv. menntmrh. að næst þegar hann bregður sér út fyrir landsteinana þá skoði hann söfn af þessu tagi því þá held ég að hann mundi gera sér grein fyrir hvað Þjóðminjasafn Íslands er illa á vegi statt og hversu gamaldags það er enda þarfnast safnið sjálft og sýningarsalirnir algjörrar endurskipulagningar við. Það er ekki hægt að halda svona áfram.
    Auk þess hefur safnið haft allt of litla peninga til þess að stunda rannsóknir. Við eigum svo mikið verk óunnið í fornleifauppgreftri að það er bara engu lagi líkt. Það er ekki einu sinni búið að grafa upp eða kanna helstu sögustaði þjóðarinnar eins og Þingvelli, Skálholt. Það er ekki búið að kanna nema hluta af Skálholti, Hóla í Hjaltadal, og ég gæti nefnt fleiri staði þannig að við hefðum í rauninni einhverja raunverulega mynd af því hvernig hér var búið á fyrri öldum. Sú þekking sem við höfum á lifnaðarháttum á fyrstu öldum Íslandsbyggðar er byggð á svo takmörkuðum grunni að það nær bara ekki nokkurri átt. Við höfum því mikið verk að vinna í þessum efnum og þarf auðvitað að gera áætlun um það hvernig skuli staðið að eflingu þessara þátta. Ég vil einmitt minna á það hér að fornleifarannsóknir, fornleifar út af fyrir sig og þekking á þeim, efla auðvitað ferðaþjónustu og getur á svo margan hátt komið inn í atvinnulífið. Það er hægt að gera sér mikinn mat úr þeirri þekkingu og þarf ekki að minna á þjóðir sem hafa gífurlegar tekjur af sínum fornminjum. Nú er auðvitað ekki um það að ræða að við höfum hér glæstar byggingar frá fyrri öldum eða slíkt en það er hægt að gera gríðarlega mikið úr slíkum minjum. Ég minni þá t.d. á víkingasafnið í York, en á því svæði hefur tekist að búa til mjög forvitnilega og skemmtilega mynd af því sem þar gerðist fyrir 1000 árum eða svo. En við eigum ekkert víkingasafn.
    Ég gæti nefnt ýmislegt fleira sem þarf að taka á eins og útgáfu- og kynningarmál en ég vil líka nefna það sem gott hefur verið gert og þar má nefna ýmsar góðar sérsýningar sem safnið hefur staðið fyrir og safnakennslu sem beinist að grunnskólanemum, sérstök jólaprógrömm og fleira slíkt. En safnið þarf auðvitað mjög að efla.

    Ég ætla þá að víkja að einstökum greinum þessa frv. og það er kannski af því að ég kem svona ný að þessum lögum að þá hafa vaknað margar spurningar í mínum huga varðandi þá skipan sem hér er kveðið á um. Þá er þar fyrst að nefna skipan þjóðminjaráðs og þá breytingu sem hér er gerð á 2. gr. laganna þar sem kveðið er fastara að orði og í rauninni er það svona skýrara að það er menntmrh. sem fer með yfirstjórn þjóðminjavörslu í landinu í stað þess að í gildandi lögum segir ,,fimm manna þjóðminjaráð fer með yfirstjórn þjóðminjavörslu í landinu í umboði menntamálaráðuneytisins``. Ég hygg að þarna sé í rauninni verið að skýra það frá stjórnsýslusjónarmiði hvernig þessu skuli háttað og ég geri ekki neina athugasemd við það. En það er varðandi skipan þjóðminjaráðs sem ég vil gera athugasemdir.
    Þá er mín fyrsta spurning sú að það kemur hér fyrir bæði í gildandi lögum og þessu frv. að það er verið að tengja safnið við Háskóla Íslands. Nú er Þjóðminjasafnið sjálfstæð stofnun og engin bein tengsl við Háskóla Íslands og ég velti því fyrir mér hvaða erindi Háskóli Íslands á inn í þessi ráð. Það er ekki kennd fornleifafræði við Háskóla Íslands sem sérgrein, það er ekki kennd þar þjóðháttafræði og þó þar séu reyndar starfandi við kennslu bæði þjóðháttafræðingar og fornleifafræðingar þá er það spurning hvers vegna Háskóli Íslands eigi að hafa þarna fulltrúa. Mér finnst alveg sjálfsagt að spyrja sig þeirrar spurningar. Er það eðlilegt? Mér finnst að sjálfsögðu að fagmenn eigi að koma þarna að eins og Félag íslenskra safnamanna og Félag fornleifafræðinga sérstaklega. En ég vil benda á að hér er nefnt í 1. gr. Bandalag kennarafélag. Það er nú ekki til lengur, það er búið að leysa það upp. Þannig að það þarf alla vega einhver nýr aðili að koma þar. Ég get ímyndað mér að þetta hafi verið sett inn í lögin á sínum tíma til að tengja við safnakennsluna. En það er líka spurning hvers vegna kennarar eigi að koma þarna inn. Ég er ekkert að setja mig á móti því en úr því að búið er að leysa þessi samtök upp, eiga þetta þá að vera grunnskólakennarar eða framhaldsskólakennarar? Ég hygg að bæði þessir skólastig noti safnið jafnt.
    Síðan gerist það að fulltrúi starfsmanna er tekinn út úr ráðinu og ég vil setja stórt spurningarmerki við það. Það kom reyndar fram að fulltrúi þeirra mun eiga áheyrnaraðild að ráðinu og hafa þar tillögurétt og málfrelsi en mér finnst það mikil spurning hvort fulltrúi þeirra eigi ekki að eiga þarna sæti. Þannig að það er ástæða til að skoða það hvernig þetta er skipað.
    Þá kemur röðin að þjóðminjaverði. Mér þykir allsérkennilegt í lögunum að það er ekki gerð sú krafa til þjóðminjavarðar, sem á náttúrlega að vera yfirstjórnandi þessa stóra safns, að hann hafi þekkingu eða reynslu af rekstri safna, enga sérþekkingu í rekstri safna. Nú er safnfræði eða rekstur safna víða orðin sérgrein erlendis og hér á landi er til fólk sem hefur sérmenntað sig í þeim fræðum. Söfn eru mjög sérstakar stofnanir og það eru auðvitað bæði til stór og víðtæk söfn eins og Þjóðminjasafnið og sérsöfn af ýmsu tagi og þetta er orðin sérgrein. Mér finnst ekki óeðlilegt að gera þá kröfu að þjóðminjavörður hafi einhverja þekkingu á rekstri safna ef hann er sá sem hefur eins og hér segir, ,,umsjón með þjóðminjavörslu í landinu öllu``. Hins vegar er gerð sú krafa til safnstjóra að hann hafi þekkingu, góða þekkingu á rekstri safna. Ég hef svolítið verið að velta fyrir mér þessari verkaskiptingu þarna á milli. Ef menn hugsa þessa stofnun, Þjóðminjasafnið meira sem háskólastofnun, sem rannsóknastofnun, þá er líka spurning hvort það á ekki að hvíla einhver rannsóknarskylda á t.d. þjóðminjaverði og þeim sem þar starfa. Þetta er svona spurning um skilgreiningu á hlutverki. Hvers konar stofnun er þetta? En mér finnst í raun og veru mjög sérkennilegt að gera þá kröfu að þjóðminjavörður sé maður með sérfræðilega menntun í menningarsögu, sem er náttúrlega mjög víðtækt hugtak, og reynslu af stjórnunarstörfum, sem er reyndar nýtt hér í lögunum, en hann á ekki að þekkja sérstaklega til safna. Mér finnst þetta vera atriði sem við þurfum að velta fyrir okkur hvort það eigi ekki að gera þá kröfu að þjóðminjavörður þekki til safna því hans ábyrgð er gríðarlega mikil.
    Þá kem ég að fornleifanefndinni. Það verður að segjast eins og er að í kringum þá nefnd, eins og hún hefur starfað á undanförnum árum, hafa verið ansi mikil og leiðinleg átök. Ég hygg að þær breytingar sem hér er verið að gera séu gerðar í ljósi þeirra. Hér er fækkað í fornleifanefnd og í rauninni tekin af henni nokkur völd. Samt er það svo að fornleifanefndin eins og hér segir ,,fjallar um og veitir leyfi til allra staðbundinna og tímabundinna fornleifarannsókna``. Það hefur kannski verið helst í kringum þessi leyfi sem þessi átök hafa átt sér stað.
    Nú er það í sjálfu sér mjög mikilvægt að fornleifum sé ekki raskað og að það sé alveg ljóst hverjir mega koma þar að málum en nefndin hefur verið mjög stíf í sínum störfum. Ég minnist þess að í upphafi starfs hennar gáfu einstaka nefndarmenn út miklar yfirlýsingar um það að hér gætu engir stundað fornleifarannsóknir nema Íslendingar, það hefðu ekki aðrir þekkingu á því sviði en þetta er auðvitað alrangt og margar merkustu fornleifarannsóknir sem hér hafa átt sér stað voru unnar af útlendingum, Norðurlandabúum. En ég hygg að þetta hafi nú heldur lagast en við í nefndinni þurfum að kynna okkur það betur hvernig þetta fyrirkomulag hefur gefist. Það er svolítið erfitt að átta sig á því hvað þessi breyting þýðir í raun og veru.
    Þá kem ég að minjavörðunum. Það vaknar sú spurning: Hver er ástæðan fyrir því að þetta ákvæði um minjaverðina og fornminjaverðina hefur ekki komist í framkvæmd? Nú er það svo að í gildandi lögum er ekkert kveðið á um þessa skiptingu í minjasvæði og ég get eiginlega ekki gert mér í hugarlund hvað menn eru að hugsa um mörg svæði í raun og veru. Það er ekkert sem segir að kjördæmaskipanin sé endilega hin rétta skipting. Það mætti bæði hugsa sér að svæðin væru mun fleiri en líka jafnvel færri, t.d. að allt Norðurland væri eitt minjasvæði og allt Austurland eða hvernig sem menn vilja skilgreina það. Ég sakna

þess að það skuli ekki einu sinni hafa verið sett reglugerð um þetta að við séum hér að fjalla um lög --- það er náttúrlega greinilegt að það er verið að fækka þessum stöðugildum um helming --- en við höfum ekki hugmynd um hvað við erum samt að tala um margar stöður eða hvar þessir minjaverðir verði staðsettir og það þarf auðvitað að vinda bráðan bug að því að skýra þetta og ákveða hvað í þessu felst.
    Þá er það deildaskiptingin. Ég hef rætt við starfsmenn Þjóðminjasafnsins sem sumir hverjir hafa miklar áhyggjur af því að það skuli eiga að afnema deildaskiptinguna með þessum lögum. Það er vissulega stór spurning hvort það eigi að kveða á um deildaskiptingu í lögum eða hvort safnið eigi einfaldlega að hafa heimild til þess að þróa sína starfsemi eftir eigin höfði. En ég held að til þess að tryggja það að einhverjir ákveðnir þættir falli ekki niður þá væri hægt að leysa það með því að skilgreina hlutverk safnsins nánar. (Forseti hringir.) Er tími minn búinn?
    ( Forseti (GHelg) : Hv. þm. er samkvæmt minni tímamælingu búin með tímann.)
    Ég verð að upplýsa það, virðulegur forseti, að ég er ekki nærri því búin. Ég verð þá að biðja hér aftur um orðið á eftir en heypa öðrum þingmönnum að því eins og ég nefndi þá er ég að koma að þessu máli hér í fyrsta sinn og hef ýmislegt við það að athuga enda snertir þetta mitt sérsvið og mína þekkingu þannig að ég hef margt um þetta að segja.