Þjóðminjalög

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 12:14:14 (5629)


[12:14]
     Hjálmar Jónsson :
    Virðulegi forseti. Framlagt frv. til laga um breytingu á þjóðminjalögum horfir til mikilla bóta og ég vona að það verði samþykkt. Það skýrir ýmis markmið þjóðminjavörslu og hlýtur að leiða til öruggari og markvissari vinnubragða og því ber að fagna framlagningu þess. Ágætir menn hafa unnið að og verið í forsvari Þjóðminjasafnsins og settur þjóðminjavörður hefur komið með ferskan andblæ og unnið þar einnig gott verk.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir talaði hér um áðan að það þyrfti að banna bruna, ef ég skildi hana

rétt, og vissulega þarf að gera allt til að hindra að óhapp verði og að því er að sjálfsögðu unnið einnig.
    Þetta er yfirgripsmikið mál og væri hægt að ræða um í löngu máli. Ég mun reyna samt sem áður að hafa það stutt. Það þarf að hafa áætlanir um fornleifarannsóknir skýrar og nauðsynlegt að taka fá verk fyrir í einu og vinna þau vel en krukka ekki í án þess að geta lokið nokkrum heildarrannsóknum og fengið niðurstöður.
    Það má hafa að leiðarljósi það sem Jón Helgason prófessor í Árnasafni orti til höfundar Hungurvöku:
          mér fannst sem þú ættir arfinn þinn
          undir trúnaði mínum
--- ef ég man þetta rétt. Við höfum einmitt þessa trúnaðarskyldur við fyrri kynslóðir og sjálf okkur og sögu okkar og full ástæða er til þess að hyggja vel að þessum markmiðum. Það má líka segja eins og hann lýkur þessu kvæði:
          Þótt enn þá sé margt sem er illa lest
          og aldirnar leifðu skörðu,
          er flækjan greidd sem ég gat það best,
          gamli maður í jörðu.
    Mér sýnist að lögin eigi og hljóti að þjóna þessu hlutverki meðan við erum að átta okkur á sögu okkar og menningu.
    Mig langar að gera hér að umtalsefni V. kafla núgildandi þjóðminjalaga. Það er lítt sem ekki krukkað í þann kafla sem lýtur að friðun húsa. Þar er að mínum dómi þörf á nokkrum breytingum.
    Í 36. gr. segir að öll hús reist fyrir 1850 skuli friðuð og allar kirkjur reistar fyrir 1918 skuli friðaðar. Friðun er eins og við vitum kvöð á fasteign og með núgildandi ákvæðum eru lagðar afar þungar kvaðir á söfnuði landsins og það eru einkum hinir fámennari núna. Kirkjur sem byggðar voru á síðustu tveim áratugum síðustu aldar og fyrstu tveim þessarar aldar eru margar líkar að gerð og það er að mínum dómi bókstafstrú að ætla að halda þeim öllum óbreyttum. Þær eru svo líkar en þarna er verið að leggja svo þungar kvaðir á fólk að það liggur við að það þjóni sem einhvers konar þjóðminjanefndir eða nefndir um húsafriðun en ekki söfnuður til að þjóna lifandi guði og sjálfu sér um leið. Söfnuðir vilja að sjálfsögðu sýna ræktarsemi gömlu kirkjunum en hús sem voru byggð við þröngan kost og hag þjóna ekki endilega söfnuðum og safnaðarlífi í dag. Hins vegar er söfnuðunum skylt að halda við þessum húsum og eins og ég segi vill fólk það gjarnan en það vill ekki vera um leið hneppt í fjötra og gert skylt að halda við húsi sem það getur jafnvel ekki notað og eyða öllu sínu fé til þess í stað þess að byggja eða hafa hús og íverustað sinn til að þjóna guði sínum eins og hentar því um leið.
    Í þessum ágæta sal eru góð sæti og góðir bekkir en það er ekki í öllum kirkjum landsins góðir kirkjubekkir en það er bannað að breyta þeim og í öllu falli mjög erfitt að fá þeim breytt. Það eru reyndar ekki margir hér inni núna en það væri varla nokkur ef hér væru gamlir harðir trébekkir og er sjálfsagt að hyggja að slíku.
    Ég vænti þess sem sagt að ákvæðin um friðun kirkna verði ekki lengur til að hneppa söfnuði í fjötra. Það verði tekið til endurskoðunar einnig og að safnaðarfólk geti komið saman til að þjóna guði sínum en þjóni ekki sem samtök um friðun gamalla húsa.