Kennaraháskóli Íslands

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 12:52:54 (5634)


[12:52]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að fjalla um þann þátt þessa frv. sem tekur til fjögurra ára kennaranáms. Það mál, eins og kom fram hér, hefur verið lengi í undirbúningi, og í Kennaraháskóla Íslands var fullbúin kennsluskrá fyrir 120 eininga nám þegar því var síðan frestað. Þegar farskóli Kennaraháskóla Íslands, nú nefndur fjarskóli Kennaraháskólans, tók til starfa og ákveðið var að koma því námi á um mitt ár 1992 var einmitt ákveðið að útskriftartími þeirra nemenda sem þar eru við nám yrði á því ári sem félli niður vegna lengingar. Og þar með yrði séð fyrir því að ekki liði eitt ár þar sem kennarar útskrifuðust ekki. Síðan varð breyting mjög skyndilega, eins og kunnugt er. Ég skal viðurkenna að á undirbúningstíma þessa fjögurra ára kennaranáms hafði ég vissar efasemdir meðfram vegna þess að þá hafði verið alllengi kennaraskortur á landsbyggðinni sem, sem betur fer, stefnir í rétta átt og virðist mjög hafa dregið úr því og virðist reyndar vera svo að til séu kennarar í landinu til að manna allar kennarastöður. En eins og mörgum er

kunnugt hafa kennarar farið í mjög mörg önnur störf á undanförnum árum. Kann að vera að ástandið í þjóðfélaginu valdi því að kennarar koma frekar aftur til starfa nú en áður var. Annað sem hefur gerst líka síðan þetta var er að það hafa komið fleiri tilboð í kennaranámi. Ég nefndi hér fjarnámið eða farskólann og kennaradeild á Akureyri.
    Ég vil vekja athygli á því að sú stefna er uppi núna að samræma skólahald hér því sem gerist í nálægum löndum og nefnd um mótun menntastefnu hefur lagt mikla áherslu á það að grunnskóli hér á landi og framhaldsskóli verði með sem líkustu sniði því sem gerist í nálægum löndum og sömu kröfur gerðar. Þá finnst mér ekki óeðlilegt að við stefnum á sömu kröfur í kennaranáminu og minni á það að í nálægum löndum er kennaranám yfirleitt fjögur ár. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef hér undir höndum frá 1992 er t.d. kennaranám í Noregi fjögur ár og hefur fyrir skömmu verið lengt úr þremur árum. Í Hollandi er það fjögur ár, í Svíþjóð frá þremur og hálfu og upp í fjögur og hálft ár, í Þýskalandi frá fjóru og hálfu ári og allt að sex árum, í Frakklandi er fjögurra ára kennaranám, í Englandi fjögurra ára kennaranám þó þar hafi jafnvel heyrst raddir um að stytta það aftur. Síðan er Belgía með þrjú ár. Þetta eru upplýsingar frá 1992. Með hliðsjón af því að við erum að samræma okkar grunnskóla og kröfur um skólahald við það sem gerist í nálægum löndum þá held ég að það sé nauðsynlegt að við tökum sömu kröfur líka með kennaranámið. Og ég vek athygli líka á því að í þessari lengingu kennaranáms er verulega mikil áhersla lögð á starfsþjálfun, æfingakennslu og faglegan undirbúning til að gera kennara hæfari um að koma til starfa en hægt hefur verið að gera innan þessara 90 eininga þriggja ára kennaranáms.