Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 14:02:07 (5638)


[14:02]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Þessi þáltill. um flugmálaáætlun fyrir árin 1994--1997 er að mörgu leyti fyrirmyndarplagg í sjálfu sér. Það er mikið af upplýsingum hér og mér finnst málið vera sett býsna skilmerkilega fram og að því leytinu til held ég að það sé hægt að hæla þeim sem að því hafa staðið.
    En ég vil taka undir síðustu orð hv. 6. þm. Vestf. að mér finnst að það sé ekki rétt röð á hlutunum. Mér finnst að stefnumótandi áætlun eins og þessi þurfi að koma til umræðu í þeirri nefnd sem hlut á að máli í hv. Alþingi áður en menn negla algerlega niður áætlunina sjálfa og að þeir sem semja áætlunina þurfi kannski að fá aðeins að átta sig á hug alþingismanna, sem eiga sæti í viðkomandi nefnd, til þeirrar stefnumörkunar sem kemur fram í plagginu. Ég held að að mörgu leyti sé meðferð mála vegna vegáætlunar þó í miklu betra horfi. Þar koma þó þingmenn kjördæmanna að málinu fyrr og menn átta sig þá á því hvort um málin er ágreiningur. Þetta skapar viðkomandi meiri hluta eða þeim sem bera ábyrgð á stjórn landsins í sjálfu sér ekki neinn vanda í því að koma fram sinni stefnu. Ég held að það sé í raun og veru miklu eðlilegri og betri farvegur sem ég er hér að lýsa til þess að menn átti sig á hvaða stöðu þeirra stefnumörkun er í og geti þá brugðist við gagnrýni á fyrri stigum.
    Í þeirri flugmálaáætlun sem við sjáum hér fyrir framan okkur núna sýnist mér að gert sé ráð fyrir álíka framkvæmdum á næstu sex árum eins og voru á síðustu sex árum. Það eru um 2.000 millj. til þessara heildarframkvæmda. Ég hef ekki aðstöðu til þess að fullyrða hvort það sé nóg að gert eða ekki. Ég hefði þó ímyndað mér að miðað við álíka tekjur í framtíðinni, eins og hafa verið á undanförnum árum, þá ættu áherslurnar að geta færst til á færri staði heldur en verið hefur því það hefur lagst niður áætlunarflug til ýmissa staða á undanförnum árum. Þannig að það ætti þá að vera meira til skiptanna til að byggja upp betri aðstöðu á þeim stöðum þar sem virkilega þarf á fluginu að halda. Ég held að það sé þá í sjálfu sér hægt að gera ráð fyrir því að þar verði betur að málum staðið.
    Mig langar til að spyrja vegna einstakra atriða í þessari áætlun. Ég sé að það er t.d. gert ráð fyrir að leggja bundið slitlag á tvo fugvelli sem mjög stutt er á milli. Það er á Bíldudal og Patreksfirði. Því er lýst í áætluninni að þessir flugvellir þjóni næstum sem einn flugvöllur, næstum sem tvær aðskildar brautir á sama flugvelli. Mig langar svolítið að forvitnast betur um það hvort ekki sé hagkvæmt að byggja upp annan völlinn og lagfæra þannig að það sé hægt að nýta hann við fleiri veðurskilyrði eða hvort veðurskilyrðin séu svona mismunandi að það borgi sig og sé verjandi að reka tvo flugvelli sem svo stutt er á milli.
    Ég tek eftir því að sumir flugvellir eru ekki mjög ofarlega á blaði í framkvæmdaáætluninni. Það vantar reyndar suma þeirra inn á framkvæmdaáætlunina eins og Norðfjörð. Mig langar til að spyrja hvort allt sé þar í það góðu standi að það sé engin ástæða til framkvæmda á þeim stað eða hvort menn stefni kannski að því að leggja niður áætlunarflug á Norðfjörð. Síðan er flugvöllurinn við Þórshöfn. Ég tek eftir því að það er ekki gert ráð fyrir því á öllu tímabilinu að leggja bundið slitlag á þann flugvöll, en það er verið að byggja þar upp flugbrautir. Ég spyr: Hvers vegna er ekki gert ráð fyrir að setja bundið slitlag á þann völl? Mér sýnist að það sé það mikil umferð þar að það sé kannski svolítið ankannalegt að ekki skuli vera stefnt að því að setja bundið slitlag á þann völl.
    Síðan varpa ég því fram svona til umhugsunar hvort þessar framkvæmdir sem verið er að gera með bundnu slitlagi á þessum völlum, þar sem um er að ræða velli sem hafa verið byggðir upp fyrir einhverjum árum síðan og undirlagið er ekki nógu öflugt til að bera stærri vélar, hvort það sé ástæða til þess að endurskoða afstöðuna til þess hvernig eigi að byggja þá velli upp. Ef við horfum fram í tímann þá getum við gert ráð fyrir því að það verði jafnvel farið að flytja t.d. fiskafurðir frá einhverjum öðrum völlum heldur en hér sunnan lands. Það er alltaf að aukast flug með fiskafurðir til annarra landa og ég held að það sé full ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort það þurfi ekki að gera ráð fyrir því að það sé hægt að flytja þær afurðir frá fleiri völlum heldur en gert er í dag. Ekki veit ég hvað menn hafa tekið mikið mið af þessu við gerð þessarar flugmálaáætlunar og mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort þau

mál hafi verið í umræðunni.
    Síðan tek ég eftir því í áætluninni að þar eru málin mjög mikið njörvuð niður og nánast öllu fjármagninu er skipað niður. Það er einungis um að ræða 20 millj. á hverju ári, og ég tek eftir því að það er sama talan öll árin, til leiðréttinga og brýnna verkefna. Ég hefði talið að það þyrfti að vera mun meiri sveigjanleiki í áætluninni heldur en þarna kemur fram. Það kann að vera að það dugi kannski 20 millj. kr. við skulum segja á þessu ári og næsta í sveigjanleikann, en mér sýnist að miðað við þær miklu sveiflur sem eru á þessum hlutum og þær miklu breytingar sem eru á fluginu að þá væri kannski ástæða til að hafa þennan lið mun stærri þannig að menn hefðu meira svigrúm til þess að víkja til peningum á áætluninni.