Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 14:47:42 (5644)


[14:47]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því ef ég hef mistalað mig í sambandi við Sveinseyrarflugvöll. Ég geri mér grein fyrir því að þar er ekki um neina framkvæmd að ræða. Ég var að reyna að koma því á framfæri í upphaflegu ræðu minni að spyrjast fyrir um hvað rannsóknum liði um uppbyggingu flugvallar við Sveinseyri. Það var fyrirspurnin.
    Hæstv. ráðherra verður að gera sér grein fyrir því þegar ég er að spyrjast um það af hverju ekki hafi verið haft samráð við samgn. að þingsköpum hefur verið breytt. Þingnefndir eru starfandi allt árið. Þingsköpum var breytt m.a. til þess að þingnefndir væru virkari í starfi þingsins heldur en áður hefur verið. Og vegna þess að hæstv. ráðherra vék að því að það hefði ekki verið komið á framfæri ósk við flugmálastjóra um þetta mál þá skal ég tala hreint út um málið. Úr því að ráðherra vill hafa þennan tón í ræðum sínum, þá sat flugmálastjóri fund samgn. þegar ég bar fram þessa ósk í fyrra sinn, og hann nikkar hér til mín til samþykkis í þessum máli. Hann sat þann fund nefndarinnar þegar ég óskaði eftir þessu en formaður samgn. sá ekki ástæðu til þess þó ég bæri þessa ósk fram aftur að þetta yrði gert, því var ætíð hafnað.