Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 15:12:27 (5652)


[15:12]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst hæstv. samgrh. vera að taka þessar ábendingar nokkuð inn á sig vegna þess að þetta voru vinsamleg tilmæli um vinnubrögð. Ég vil gera orð hv. 1. þm. Norðurl. e. að mínum þar sem hann rifjaði upp hvernig þessi mál hefðu verið og ég hafði ekkert annað uppi en ábendingar í þessu efni. En að öðru leyti er mér alveg fullljóst af hverju fjármunir eru af skornum skammti á Austurlandi í alla flugvelli þar. Ég hef rakið hvers vegna það er og skil það. Það sem ég sagði að væri hættumerki er að það er vísað til lengri tíma heldur en áætlunin tekur til um að verði ekki uppbygging á þessum flugvöllum og sagði að það þyrfti að skoða. Ég skil alveg þessa uppsetningu og ég skil að fjármunir eru af skornum skammti. Ég met þær framkvæmdir sem hafa verið myndarlega af hendi leystar á Austurlandi. En það var þetta atriði sem ég vil láta skoða sérstaklega. Það vildi ég undirstrika við þessa umræðu.