Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 15:18:02 (5655)


[15:18]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir mikið plagg og fróðlegt að mörgu leyti. Þar er margar gagnlegar upplýsingar að finna. Að vísu sakna ég þess að ég finn ekki þar upplýsingar um lokanir flugvalla vegna veðurs. Ef til vill á það ekki heima í þessum plöggum en ég held að það varpi þó verulegu ljósi á nytsemi og gagnsemi einstakra flugvalla og skýri jafnframt einstök frávik í farþegaflutningum og ýmsu öðru. Það eru því upplýsingar sem skipta verulegu máli um notagildi vallanna.
    Hér hefur verið talað um flugvöllinn á Bíldudal og á Patreksfirði og ég tek undir það sem hæstv. samgrh. sagði áðan að þarna skipta aðstæður höfuðmáli. Patreksfjarðarflugvöllur er búinn að þjóna lengi. Bíldudalsflugvöllur skemur af því að hann var keyptur af einkaaðila fyrir um 20 árum og þar hefur verið unnið vel að uppbyggingu. Ég var að tala um veðurupplýsingarnar áðan, það er einmitt sá völlur á Vestfjörðum sem langbest hefur staðið sig að því er ég best veit hvað snertir færa daga til flugs þar sem veðuraðstæður eru þar mjög hagstæðar.
    Það má sjá það í dreifingu farþegafjölda á Patreksfjörð og Bíldudal að það fylgist nokkuð að. Bíldudalur byrjar upp úr 1985 að fara mjög upp á við í aukningu farþega. Á sama tíma fækkar nokkuð á Patreksfirði þannig að það er sama svæðið sem þessir vellir þjóna. Á hitt er líka að líta að það eru tvö flugfélög sem veita þarna þjónustu og þar kemur upp samkeppni sem að mínu viti hefur verið íbúunum heldur hagstæð. Það kom fram að íbúar þarna eiga aðgang að ferju á Barðaströnd yfir Breiðafjörð en yfir Kleifaheiði er að fara sem oft er ófær vegna snjóa á veturna og mjög erfitt að nýta sér þessar ferðir af þeim ástæðum auk þess sem þær eru strjálar yfir vetrartímann.
    Ég vil vekja athygli á því varðandi þessa tvo velli að eins og aðstæðum er háttað núna þá tel ég nauðsynlegt að halda þessum völlum við eins og hér er verið að gera en eftir þrjá mánuði eða svo eru þeir komnir í sama sveitarfélag. Þessi tvö sveitarfélög ásamt fleirum eru að sameinast. Það mun gerast í júní nk. og ég tel víst að íbúar og stjórn hins nýja sveitarfélags muni ræða um með hverjum hætti best megi nýta samgöngumannvirki eins og aðra þætti sem þarna koma og hvort það verður strax í upphafi eða síðar, en það sem styður það er líka batnandi samgöngur á þessu svæði. Það er verið að ljúka við veg yfir Hálfdán og sá fjallvegur er eftir sem áður frekar erfiður en þar hafa mjög miklar umbætur verið gerðar sem auðvelda e.t.v. að samnýta þessi mannvirki í framtíðinni.
    Það sést á þessari áætlun að verið er að fækka áætlunarflugvöllum, oftst nær vegna þess að aðrar samgöngubætur hafa komið í staðinn. Við þessu er ekkert að segja. Þetta er þróun sem er eðlileg og hlýtur að verða. Sama gildir um lendingarstaði sem verið er að leggja af eins og hér er nefnt, Bolungarvík, Króksfjarðarnes, Melgraseyri og Suðureyri. Þetta er sömleiðis vegna þess að þar eru ófullkomin mannvirki og erfið og verið er að bæta samgöngur mjög verulega.
    Það var spurt hér áðan um Sveinseyrarodda, flugvallargerð í Dýrafirði. Það er framkvæmd sem menn á Vestfjörðum binda mjög miklar vonir við og ég tel miður að þeim spurningum, sem hefur verið beint til hæstv. samgrh., hafi ekki verið svarað. Ég veit ekki betur en þarna hafi farið fram rannsóknir á veðurfari og ýmsum öðrum þáttum um alllangt skeið. Ég á ekki von á að það séu komnar lokaniðurstöður úr því en ég trúi ekki öðru en að einhverjar upplýsingar liggi fyrir sem styðja það sem hér kemur fram í fskj. að ætlað er til framkvæmda þarna frá árinu 1988 og 1989, alls 103 millj. þannig að ég leita enn eftir því hvort hægt er að fá upplýsingar af gangi mála í Þingeyri, hvað er að gerast þar og á hvaða stigi eru þessar rannsóknir, er vitað hvenær þeim verður lokið eða hvaða kaflaskil eru í því sem þar er verið að gera.
    Hv. 6. þm. Vestf. nefndi flugvelli á Hornströndum. Þegar litið er yfir B-kafla á bls. 19 um lendingarstaði, þá staldrar maður við nöfn eins og Herðubreiðarlindir, Hveravellir, Kerlingarfjöll, Nýidalur, Sprengisandur. Hérna er um að ræða lendingarstaði sem eru vafalaust settir þarna af öryggisástæðum og þar sem ég hef farið um þessi svæði þá hef ég orðið var við að þetta hefur mjög oft komið sér vel og er reyndar bráðnauðsynlegt.
    Það kom fram hjá hæstv. samgrh. að flugvöllur í Reykjafirði er í einkaeigu og það mun vera eftir því sem ég best veit lendingarstaður í Fljótavík. Hitt er líka rétt að fjaran er víða notuð og þar er það Ægir sem sér um það. Ég vil spyrja: Hvað þarf til á Hornströndum sem er vaxandi ferðamannastaður? Vaxandi fjöldi ferðamanna fer þarna um á hverju sumri. Það er nauðsynlegt þeirra vegna að mögulegt sé að komast með flugi á Hornstrandir. Hvað þarf til til þess að viðurkenndur lendingarstaður verði á Hornströndum og þá fyrst og fremst með öryggissjónarmið í huga?
    Enn fremur vil ég spyrja í sambandi við Patreksfjarðarflugvöll en það kom fram hjá hæstv. samgrh. að þverbraut er ekki möguleg á Patreksfjarðarflugvelli. Nú hefur mjög lengi verið mænt á það að Patreksfjarðarflugvöll mætti gera betri með því að setja á hann þverbraut og fyrir fáum árum vissi ég ekki betur en sú hugmynd væri uppi. Því spyr ég: Eru það nýjar upplýsingar um að þverbraut sé ekki möguleg á Patreksfirði og hvenær komu þær fram?
    Ég held að ég hafi þessi orð ekki miklu fleiri en vil ítreka það að ég óska eftir að fá upplýsingar um á hvaða stigi máls rannsóknir á Sveinseyrarodda eru og hvað þar er að gerast.