Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 15:29:12 (5658)


[15:29]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Það hefur verið talað um það að á suðurfjörðum séu flugskilyrðin að mörgu leyti betri á Bíldudalsflugvelli en á Patreksfirði og sumir hafa tekið svo djúpt í árinni að þeir hafa viljað leggja niður Patreksfjarðarflugvöll. Það er alveg nýtt fyrir mér ef hugmyndin á nú að vera sú að reyna að koma við þverbraut á Patreksfjarðarflugvelli til þess að reyna að leggja niður flugbrautina í Bíldudal því að ekki getur það verið til annars. Ekki fara menn að byggja fullkomna flugvelli sem geta einir þjónað þessu byggðarlagi á báðum stöðum. En þær upplýsingar sem ég hef um þessi mál fyrir utan það að ég hef efasemdir um að það sé rétt að leggja niður Bíldudalsflugvöll eins og ég skil hv. þm., þá eru þær upplýsingar sem ég hef varðandi þverbrautina þær að það séu ekki forsendur fyrir hendi að lengja þessa þverbraut. Það eru þær upplýsingar sem flugmálastjóri gefur.
    Það er svolítið skrýtið að þurfa að endurtaka hér æ ofan æ sömu hlutina, endurtaka æ ofan í æ að endanlegar rannsóknir liggja ekki fyrir varðandi Sveinseyrarflugvöll og það er sagt að það sé ekki fullnægjandi svar. Ég veit satt að segja ekki hvernig á að veita fullnægjandi svör.