Safnahúsið

120. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 15:22:13 (5665)


[15:22]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil einnig þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að reifa þetta mál og reyndar taka undir það sem síðasti hv. ræðumaður sagði. Safnahúsið er friðað hús og eins og ég hef bent á í umræðum áður, þá eru innréttingar bókasafnsins mjög merkilegar og orðnar mjög sérstakar og erfitt að finna slíkar. Þess vegna tek ég undir það sjónarmið að þetta hús á að nýta sem bókasafn og sem vinnustað fyrir fræðiiðkanir. Ég minni í því sambandi á tillögu sem ég hef lagt fram þess efnis að Safnahúsið verði gert að setri íslenskra fræða. Ég get ekki hugsað mér betri starfsemi í þessu virðulega og fallega húsi.