Safnahúsið

120. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 15:25:36 (5667)


[15:25]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það fer að sjálfsögðu fram alvarleg athugun á því hvernig húsið verði nýtt eins og kom fram í máli mínu áðan. Það er öllum ljóst að Safnahúsið er friðað og breytingar á því verða því ekki gerðar. Það er öllum líka ljóst að innréttingar þessa húss eru mjög merkilegar og þeim ber að halda í því horfi sem þær eru núna. Af þeim sökum er auðvitað takmörkunum háð hvers konar starfsemi getur orðið í framtíðinni í húsinu og flestar þær hugmyndir sem uppi hafa verið hníga einmitt í þá átt að þar verði safnahús áfram og þá fyrst og fremst fyrir bækur og þeim hugmyndum er ég sammála. Ég gat um það í umræðu hér um daginn að þegar ræddar voru hugmyndir um að flytja Hæstarétt í þetta hús hefðu fulltrúar menntmrn. í þeirri nefnd mótmælt þeim hugmyndum á sínum tíma. Af hálfu menntmrn. hefur því ekkert annað verið ætlað en að þarna yrði áfram safn eða söfn í einni eða annarri mynd.