Embætti héraðsdýralækna

120. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 15:30:44 (5671)

[15:30]

     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svohljóðandi fyrirspurn á þskj. 815 til hæstv. landbrh.:
  ,,1. Hvaða reglur styðst ráðherra við þegar veitt eru embætti héraðsdýralækna?
    2. Hvers vegna var ekki fylgt svokallaðri punktareglu dýralækna þegar nýlega var veitt embætti héraðsdýralæknis í Mýrasýsluumdæmi?``
    Nýlega, virðulegi forseti, réði hæstv. landbrh. í stöðu héraðsdýralæknis í Mýrasýslu. Fyrst var staðan auglýst í nóvember sl. og þá skipaður í stöðuna starfandi dýralæknir í Stykkishólmi sem sótt hafði um. Var hann með flesta punkta sökum starfsaldurs og reynslu og hingað til hefur hæstv. landbrh. farið eftir því við skipun í embætti dýralækna. Einhverjir bændur í Mýrasýslu hófu þá söfnun undirskrifta til stuðnings öðrum dýralækni sem leyst hafði af í forföllum í Mýrasýslu. Við það tækifæri sagði hæstv. ráðherra þetta í viðtali við DV 20. des. sl.:
    ,,Ég hef ekki annað um þetta að segja en að það hefur verið farið eftir ákveðnum reglum. Ég veitti stöðuna í samræmi við það. Hann er mjög hæfur sá sem skipaður var í stöðuna. Þegar margir hæfir menn sækja um er ekki einhlítt hver fær stöðuna.``
    Þetta sagði hæstv. ráðherra í DV þann 20. des. þegar hann veitti þessa stöðu í fyrra skiptið. Hins vegar sagði sá maður stöðunni lausri og því var auglýst aftur. Sá frestur rann út 1. febr. sl. og nú hefur staðan verið veitt þeim manni sem hefur verið sjálfstætt starfandi dýralæknir á svæðinu.
    Nú var ekki farið eftir svokallaðri punktareglu sem ráðherra hefur þó alfarið farið eftir hingað til, t.d. við veitingu dýralæknisembættis nýlega í Eyjafirði. Sá sem nú fær stöðuna er aðeins með helming þeirra punkta sem annar jafnhæfur umsækjandi hefur. Sá umsækjandi er kona og það gerir e.t.v. gæfumuninn. Hún var með langflesta punkta og jafnframt nýkomin úr sérnámi til viðbótar almennu dýralæknisnámi.
    Það er vissulega eftirtektarvert að ráðherra skuli hafa ákveðið það nú að brjóta þá reglu sem fylgt hefur verið sl. fimm ár við veitingu dýralæknisembætta og einmitt þegar kona á í hlut. Hefur hæstv. ráðherra gleymt því að hann samþykkti á síðasta þingi þál. um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna? Í öðrum lið þeirrar ályktunar segir, með leyfi forseta:
    ,,Það kynið sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein skal að öðru jöfnu ganga fyrir við ráðningar í störf þegar umsækjandi er jafnhæfur eða hæfari.`` --- Það má minna á það að það eru 26 héraðsdýralæknar starfandi á landinu, þar af aðeins þrjár konur.
    Í 8. lið segir: ,,Landbúnaðarráðuneytið athugi ýmis opinber réttindi kvenna í landbúnaði og geri tillögur til úrbóta þar sem þess gerist þörf.`` Enn fremur segir í þessum sama 8. lið um landbrn. að það leitist við að fjölga konum í trúnaðarstörfum.
    Þetta eru yfirlýst markmið landbrn. en nú þegar ráðherra hefur kjörið tækifæri til þess að fylgja þessum markmiðum eftir þá brýtur hann allar fyrri starfsreglur við veitingu þessa embættis sem hér um ræðir.