Embætti héraðsdýralækna

120. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 15:38:47 (5674)


[15:38]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þm. tala mjög mikið um þá menn sem sóttu um þetta starf en málið snýr líka að bændunum í Mýrasýslu. Það hefur komið fram að vilji þeirra stendur mjög sterklega til þess að sá maður sem þar hefur verið praktiserandi verði skipaður héraðsdýralæknir. Mér finnst þetta mál með öðrum orðum ekki vera einkamál landbrh. og dýralækna. Mér finnst bændur koma einnig að málinu. Mér finnst svolítið grunnt að taka málið upp á þessari forsendu þegar það liggur fyrir og er alveg viðurkennt að ástæðan fyrir því að ég veitti Gunnari Gauta stöðuna var sá sterki stuðningur sem hann hafði frá bændum og þau fjölmörgu viðtöl sem bændur höfðu við mig af þessu máli og lögðu meira að segja leið sína upp í ráðuneyti, bæði landbrn. og samgrn. til að fylgja því eftir. Það er því ekki verið að tala hér um kynferði. Það er ekki heldur verið að tala um aðra eiginleika en þá að þessi dýralæknir nýtur sérstaks trausts bænda á þessum stað.
    Ég vil segja um punktareglurnar að þær eru til viðmiðunar. Það er ráðherra sem ber ábyrgðina og auðvitað verður hann að taka ákvörðun um það hvort hann vilji heldur hlíta punktareglunum í blindni eða fara eftir vilja bændanna í þessu tilviki.
    Ég vil svo að síðustu segja að það er óhjákvæmilegt eftir fengna reynslu að endurskoða punktareglurnar. Sá misskilningur hefur komið upp að þessar punktareglur séu hæfnisreglur. Það er ekki svo að dýralæknar séu með sinni niðurstöðu að meta hæfni viðkomandi lækna, málið er ekki þannig vaxið. Á hinn bóginn get ég vel skilið það að fulltrúar Kvennalistans á Alþingi standi upp af þessu tilefni vegna þess að þeir telja að hvernig sem á stendur og hvernig sem aðstæður eru, ef inntökuskilyrði eru sambærileg, þá beri konan að sitja fyrir.