Lánasjóður íslenskra námsmanna

120. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 15:42:52 (5676)

[15:42]

     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn á þskj. 782 til hæstv. menntmrh. um áhrif breytinga á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna og hljóðar fyrirspurnin svo, með leyfi forseta:
  ,,1. Hefur ráðherrann skipað samstarfshóp til að fara yfir áhrif breytinganna á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna frá 1992?
    2. Ef svo er, hverjir skipa hópinn og hvenær er honum ætlað að skila áliti?
    3. Hvernig hyggst ráðherrann bregðast við niðurstöðu samstarfshópsins?``
    Ástæða þess að ég kem hér fram með þessa fyrirspurn er m.a. frétt sem kom í blaði stúdenta fyrir um það bil tveimur mánuðum síðan. Þar er yfirskriftin og haft eftir hæstv. menntmrh., með leyfi forseta: ,,Útiloka ekki breytingar á LÍN.`` Þar segir m.a. að stúdentar bindi miklar vonir við þriggja manna samstarfshóp sem hæstv. menntmrh. Ólafur G. Einarsson hafi skipað til að fara yfir áhrif breytinganna á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það er vitnað í hæstv. ráðherra að hann hafi sagt í samtali við háskólann, Stúdentafréttir, að honum hafi líkað illa hvað mikið hafi borið á milli að mati talsmanna stúdenta og meiri hlutans í stjórn LÍN á áhrifum laganna. Svo segir hann orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Menn hljóta að geta komist að sameiginlegri niðurstöðu þegar þeir setjast niður og ræða málið.``
    Og ráðherra sagði fleira. Hann sagði að hann hefði aldrei útilokað breytingar á lánasjóðnum og það væri hugsanlegt að gerðar yrðu einhverjar breytingar í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefði af nýju lögunum jafnvel þótt tiltölulega stutt væri liðið frá gildistöku þeirra. Þetta fannst mér ákaflega góðar fréttir og ástæða til þess að forvitnast meira um þessa nefnd því að sannleikurinn er sá að ég hafði grun um að hún hefði ekki komið saman. Hvað sem því veldur þá gæti kannski hæstv. menntmrh. sagt okkur hver á að kalla hana saman o.s.frv.
    Ég hef sjálf viljað standa í þeirri meiningu að það gæti látið sig gerast á hv. Alþingi á síðasta ári þessa kjörtímabils að hæstv. menntmrh. skoðaði nú hug sinn að nýju því að sannleikurinn er sá að ýmislegt sem var breytt með þessum nýju lögum fyrir tveimur árum sparar ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir sjóðinn. Það er ekki til annars en að gera stúdentum erfiðara fyrir eftir því sem maður best getur séð og ég veit bara af kynnum mínum við hæstv. menntmrh. að þegar hann áttar sig á því mun hann taka þetta mál til alvarlegrar athugunar með það í huga að ná fram breytingum.