Lánasjóður íslenskra námsmanna

120. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 15:45:58 (5677)


[15:45]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Starfshópurinn hefur ekki verið skipaður. Á fundi með námsmönnum í Háskóla Íslands sl. haust komst ég svo að orði að leitt væri til þess að vita að upplýsingar frá Lánasjóði ísl. námsmanna og fulltrúum námsmanna um staðreyndir bæri oft og tíðum ekki saman. Ég varpaði því fram þeirri hugmynd að til greina kæmi að skipa starfshóp sem færi yfir hvaða áhrif ný lög um LÍN hafi haft, m.a. á sókn manna í lánshæft nám o.s.frv. Auðvitað er reynslutími laga nr. 21/1992 skammur. Hann er í raun aðeins rúmlega eitt skólaár og þyrfti starfshópurinn því í vinnu sinni að hafa hliðsjón af þessum skamma reynslutíma.
    Þá er spurt ef starfshópurinn hafi verið skipaður hvenær honum væri ætlað að skila áliti. Ég nefndi við fulltrúa frá Stúdentaráði Háskóla Íslands að mér þætti rétt að skipa í slíkan starfshóp menn frá Lánasjóði ísl. námsmanna, formann stjórnar og framkvæmdastjóra sjóðsins nefndi ég og formann Stúdentaráðs. Framkvæmdastjóri Lánasjóðs ísl. námsmanna tjáði mér seinna að hann teldi ekki rétt að hann eða aðrir starfsmenn sjóðsins tækju sæti í slíkum starfshópi þótt eðlilega yrði leitað til þeirra um upplýsingar sem hópurinn taldi sig þurfa í starfi sínu. Þá ræddu fulltrúar námsmannasamtaka við mig og lýstu þeirri skoðun sinni að það væri óeðlilegt að ekki kæmu önnur námsmannasamtök en Stúdentaráð, t.d. SÍNE og BÍSN, að þessu starfi. Ég hef þess vegna hugsað mér að ræða betur við þessi samtök áður en ég tek frekari ákvarðanir í þessu máli. Ég hef raunar fengið bréf frá samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna þar sem samstarfsnefndin tilnefnir einmitt Pál Magnússon sem fulltrúa sinn í samstarfsnefndina og sem ég hafði ætlað mér að skipa í starfshópinn.
    Það er augljóslega ekki tímabært að gefa yfirlýsingar um hvernig brugðist verður við áliti starfshóps sem ekki hefur verið formlega skipaður og ekki liggur fyrir hvernig áliti muni skila en í þessu sambandi vil ég benda á að það er úr lausu lofti gripið að með þessari hugmynd um starfshópinn hafi ég gefið í skyn að nýsettum lögum um LÍN þyrfti að breyta. Ég hef hins vegar aldrei útilokað breytingar eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Og af því að vitnað var frétt í blaði stúdenta og í samtal sem þar var átt við mig, þá átti það samtals sér aldrei stað. Þetta var hins vegar sett upp eins og um viðtal við mig væri að ræða í blaði stúdentanna.
    Ég hef lagt á það áherslu að það gæti verið leið til þess að fulltrúar námsmannasamtaka og meiri hluti stjórnar LÍN, skulum við segja, gætu borð saman bækur um staðreyndir og gefið mér rökstutt álit á því hvaða áhrif lögin hafi haft á þeim skamma reynslutíma sem liðinn er frá því að þau voru sett.
    Þetta er svar mitt við þessum spurningum. Ég hef ekki fallið frá því að starfshópurinn verði skipaður með fulltrúum frá stjórn lánasjóðsins og samtökum námsmanna. Það liggja að sjálfsögðu fyrir hjá lánasjóðnum ýmsar upplýsingar um áhrif hinna nýju laga og ég veit það að hjá samtökum stúdenta liggja einnig

fyrir ýmsar upplýsingar, en eins og ég sagði þá ber þessum upplýsingum ekki alltaf saman og það var ástæðan fyrir því að ég setti fram þessa hugmynd.