Lánasjóður íslenskra námsmanna

120. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 15:50:31 (5678)


[15:50]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli en erindi mitt hingað í pontuna er fyrst og fremst það að brýna ráðherrann til þess að skipa þennan hóp því að ég held að það sé mjög brýnt að fylgjast náið með þeim áhrifum sem breytingin á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna hefur og mun hafa.
    Vandinn í þessu máli er sá að afleiðingarnar munu vera að koma fram, ekki bara núna á fyrstu tveimur, þremur árunum heldur á mörgum, mörgum árum. Því miður munum við standa frammi fyrir því að margt ungt fólk sem nú er að taka lán mun enda með mjög erfiða greiðslubyrði á sínum herðum. Því er nú haldið fram að þetta fólk muni eiga afar erfitt með að komast inn í húsnæðiskerfið, ekki síst vegna þeirrar þróunar sem hefur orðið á atvinnumarkaði. Og það er spurningin um hvers konar hagstjórn þetta er að vera að gera fólki erfiðara fyrir að stunda nám þegar jafnerfitt er að fá vinnu og raun ber vitni.