Lánasjóður íslenskra námsmanna

120. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 15:51:52 (5679)


[15:51]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég neita því ekki að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með svör hæstv. menntmrh. en ég þakka engu að síður fyrir þau. Nú heitir þetta bara að hafa sett fram hugmynd en ég lýsi þó ánægju með það að hann er ekki fallinn algerlega frá þeirri hugmynd að setja á laggirnar starfshóp sem fari yfir þessi mikilvægu mál.
    Það sem ég vil láta koma fram, hæstv. forseti, eru þau þrjú atriði sem eru óásættanleg. Það er hin margumtalaða 6. gr. um eftirágreiðslurnar. Ég veit ekki hvort hæstv. menntmrh. veit það að þeir fjármunir sem sjóðurinn þarf að deila út í auknum lánum vegna vaxtanna eru 30--40 millj. en það er nánast sama upphæðin og allt fjaðrafokið varð út af og 6. gr. er afleiðing af. Nefnilega það að það hafi verið um 50 millj. á ársgrundvelli sem nemendur vanreiknuðu tekjur sínar og fengu of mikil lán. En samt sem áður voru 90% endurgreidd á sama ári. En það voru þessar 50 millj. sem allt snerist um hérna um árið.
    Um endurgreiðslurnar er svo aftur það að segja að þær eru ekki komnar til framkvæmda. En eins og þetta er í dag, þá þarf fólk að borga 3,75% af sínum launum og þó að það sé ekki hærri prósenta en þetta, þá veldur hún því að fjöldinn allur ræður ekki við endurgreiðslurnar. Það eru beiðnir á borði stjórnar á hverjum fundi um það að taka á þessu og veita undanþágu, hvað þá þegar þetta er orðið 5% og síðan 7% eins og kveður á um í lögunum sem eru 10% af ráðstöfunartekjum. Þetta getur náttúrlega ekki gengið.