Rannsóknir á atvinnulífi og náttúruauðlindum í Öxarfjarðarhéraði

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 16:16:59 (5684)


[16:16]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Sem einn af flm. þessarar tillögu ætla ég að leggja hér örfá orð í belg. Ég held að á þessu svæði séu bæði staðhættir og atvinnuhættir þess eðlis að það sé bæði rétt og æskilegt að hið opinbera hafi ákveðið frumkvæði í samvinnu við heimamenn til þess að kanna möguleika þessa svæðis. Hér er um að ræða verkefni sem er það yfirgripsmikið að það er ofviða heimamönnum en árangur af því gæti hins vegar orðið af þeirri stærðargráðu að það kæmi mörgum öðrum til góða en þeim sem búa einmitt á þessu svæði.
    Í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að hér er verið að fjalla um landsvæði þar sem m.a. eru náttúruperlur sem eiga sér ekki samjöfnuð hvort sem við leitum innan lands eða förum víðar og þarna eru einmitt einnig ýmsir möguleikar fólgnir í náttúrunni sem er sjálfsagt að kanna og þróa frekar.
    Ég tel að það sem lægi beinast við þarna og geti skilað sér kannski fyrst sé það sem tengist ferðamálum og þarna sé mikill akur óplægður hvað það snertir. Það er svo að fram undir þetta hefur þetta svæði fyrst og fremst þjónað þeim tilgangi að það hefur verið mikið gegnumrennsli ferðamanna en mjög lítið um það að þeir stoppi þarna til lengri dvalar. En eins og ég sagði áður þá býður þetta svæði upp á ótal möguleika hvað það snertir. Það tengist reyndar einu máli sem hefur komið á borð okkar þingmanna kjördæmisins þar sem hefur verið frumkvæði heimamanna að koma upp 9 holu golfvelli á túnunum í Ási við Ásbyrgi sem gæti á margan hátt orðið einstæður sem slíkur, en því miður, þar strandar á því sem ég vil leyfa mér að segja hér ótrúlegri stífni Náttúruverndarráðs sem virðist, ég vil leyfa mér að segja það, virðulegi forseti, þar virðast margir vera þeirrar skoðunar að um þessar helstu náttúruperlur okkar megi enginn fara nema þeir séu í elítunni og helst ekki ganga um nema berfættir. Mér finnst þetta sjónarmið því miður allt of mikið uppi, að það sé ekki hægt að treysta hinum almenna borgara þessa lands til þess að umgangast náttúruna með þeirri virðingu sem nauðsynleg er. En það er hins vegar að mínu mati ekkert annað sem getur tryggt náttúruvernd verðugan sess í þjóðarsálinni en það að kenna fólkinu og leyfa því að umgangast náttúruna og þar á meðal okkar dýrmætustu perlur á því sviði.
    En þetta nefni ég af því að þetta tengist þessu en þar hefur verið sýnd ótrúleg stífni og menn bera fyrir sig rök sem síðan eiga sér enga stoð í raunveruleikanum þegar eftir er leitað.
    Ég ætla að nefna annan þátt í þessu sambandi sem er sérstaklega nefndur í þessari tillögu og það eru áhrifin af vatnsflutningunum. Maður hélt nú fyrir nokkrum árum að þessi hugmynd um að flytja Jökulsá á Fjöllum austur á landi væri komin út af borðinu og við þyrftum ekkert að ræða um hana á næstunni. Í mínum huga er reyndar hugmyndin um rafstrenginn þess eðlis að það eru ekki miklar líkur á að af þessu verði. En ég held að það sem þarna sé um að ræða sé í raun svo augljóst að það þurfi nánast ekki að ræða það hvaða áhrif það mundi hafa að flytja vatnsfall af þessari stærðargráðu milli landshluta og það gæti kannski sparað bæði mikinn tíma og pening að taka þá hugmynd út af borðinu sem fyrst.
    Að vísu hefur hv. 1. þm. Norðurl. e. oft nefnt það í því sambandi þegar rætt er um rafstrenginn til Evrópu að hann liggi í báðar áttir. Þarna kunni að leynast einn ákveðinn kostur og hann sé sá að okkur standi þá til boða ódýrari raforka en við búum við í dag ef búið væri að koma þessari tengingu á. En þá þurfum við líka ekki á því að halda að flytja vatn á milli landshluta.