Framhaldsskólar

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 17:01:30 (5692)


[17:01]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir verður nú að eiga það við sig hvaða hugrenningar hún ber til mín, en það á ekkert að koma á óvart að unnt sé að skipta um fulltrúa í nefndum og ráðum. Skólanefndir, eða hluti þeirra, sækja umboð sitt til sveitarstjórna og ráðherra skipar í skólanefndir, það er rétt, til fjögurra ára eins og segir í lögunum samkvæmt tilnefningum tiltekinna aðila og þar á meðal sveitarstjórna. Ég get ekki ímyndað mér annað en ef það kemur beiðni frá þeim sem tilnefnir, í þessu tilfelli sveitarstjórn, um að skipt verði um fulltrúa að ráðherra muni verða við slíkum beiðnum. Það eru einmitt slík dæmi sem ég hef frá vori 1990. Það eru nokkur dæmi um það í menntmrn. að nýkjörnar sveitarstjórnir þá óskuðu eftir að ráðherra tæki til greina tilnefningar um nýja fulltrúa aðra en þá sem höfðu verið tilnefndir af sveitarstjórnum veturinn 1990. Það var undantekningarlaust tekið til greina. Þótt það segi í lögunum að þessir fulltrúar skuli skipaðir til fjögurra ára þá segi ég enn og aftur að þeir sækja umboð sitt til sveitarstjórnanna og ef sveitarstjórn vill breyta, þá er það mín skoðun að hún hafi til þess vald. Í þeim tilvikum sem eru til í menntmrn. hafa ekki verið bornar brigður á það að sveitarstjórn og ráðherra hafi valdið til þess að breyta. Þess vegna ef þessi skoðun mín er rétt, sem byggist sem sagt á venju, ef hægt er að kalla það venju, það er alla vega fordæmi, þá sé ég ekki annað en einhver annar meiri hluti en er núna í sveitarstjórnum og er að tilnefna í skólanefndir geti eftir kosningar breytt þessu. Ef það er aðalatriðið hjá hv. flm. að sjá svo um með þessari lagabreytingu að annar meiri hluti en nú er í einhverjum sveitarstjórnum geti komið sínum mönnum að, ef ég má orða það svo, þá á það að vera alveg gulltryggt. Þetta er það sem ég vildi um þetta segja.
    Ég ítreka það að mér finnst ekki ástæða til að vera að breyta þessu núna vegna þess að við erum með ný framhaldsskólalög í undirbúningi þannig að þær skólanefndir sem núna verða skipaðar munu hvort eð er varla sitja í fjögur ár.