Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 17:37:41 (5701)


[17:37]
     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Aðeins örstutt. Ég þakka hv. 17. þm. Reykv., Valgerði Gunnarsdóttur, fyrir að taka undir þetta frv. Það kom mér auðvitað ekkert á óvart. Ég veit að mjög margar konur telja að þessu eigi að breyta í þá veru sem hér er lagt til og ég tel það mjög mikilvægt að við reynum að beita okkur á þinginu til þess að fá þessum ákvæðum breytt. Ég tek það fram að það er ekkert síður með þessa svokölluðu öfugu sönnunarbyrði eða breyttu sönnunarbyrði eða dreifðu, ég veit ekki hvað við eigum að kalla það. Aðalatriðið er er að við vitum hvað við erum að meina. Mér er illa við að kalla það öfuga sönnunarbyrði því það er eins og maður sé að víkja eitthvað mjög afbrigðilega frá einhverju venjulegu og það tel ég ekki vera í þessu tilviki. Eins og ég tók fram áðan, þá er þetta venja í rétti orðið víðast hvar. Á þessu hefur orðið mikil breyting. Ég held að þegar hæstv. félmrh. lagði frv. fram á 111. löggjafarþingi vorið 1989 hafi ekki verið eins langt komið í þessu máli. Ég hugsa því að það sé meiri grundvöllur fyrir því núna að fá þessu ákvæði breytt.
    Ég fagna því að það skuli fara fram endurskoðun á þessum lögum, en það breytir ekki því að ég held að það sé mjög mikilvægt að taka eitt skref í einu. Stundum er betra að reyna að taka lítil skref og reyna að vinna þetta áfram í staðinn fyrir að bíða alltaf eftir heildarendurskoðun. T.d. hafa Svíar, sem hafa verið með sín jafnréttislög í stöðugri endurskoðun, oft verið að gera pínulitlar breytingar á hverju ári og þeir breyttu lögunum síðast 1992 eftir því sem ég best veit. Kannski eru komin enn ný. Þeir eru alltaf að bæta pínulitlu og breyta pínulítið.
    Það verður að taka á þessum málum þannig að ég vænti þess að núna í vor getum við breytt þessu atriði og ég reikna með því að við fáum þá enn þá frekari breytingar í haust að því er varðar jafnréttislögin og fagna ég því vegna þess að þau verða að vera í sífelldri endurskoðun.
    Það atriði sem hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir kom hér inn á um launamuninn er það alvarlegasta varðandi misrétti kvenna og karla, það er á vinnumarkaðnum. Því miður er það þannig að manni finnst allt of lítið ganga og maður fer að verða --- ég vil ekki segja svartsýnn, en stundum verður maður ansi þreyttur á því að þurfa alltaf að vera að berjast í því sama og segja það sama ár eftir ár eftir ár. Það breytist lítið og stundum finnst manni ganga frekar aftur á bak. Því miður er það þannig.
    Varðandi háskólamenntaðar konur er það því miður þannig að þar er jafnvel, hugsa ég, mesti launamunurinn. Það er jafnvel skárra hjá ófaglærðu fólki, því miður er það svo, milli kvenna og karla. Þegar ég var ung, eins og maður segir, og var í menntaskóla og var að reyna að ákveða hvað ég ætlaði að læra og hvað ég ætlaði að gera var sagt: Aðalatriðið fyrir konur er að mennta sig. Þá lagast þetta allt saman, mennta sig bara nógu mikið og ekki fara í neitt hefðbundið, fara í eitthvað sem ekki er alveg það venjulegasta. Maður byrjaði á því að fara í stærðfræðideild og ekki fara í það sem allar stelpurnar fóru í heldur eitthvað aðeins annað. Og hvað kemur í ljós? Jú, það er alltaf þetta sama. Þegar konur eru búnar að mennta sig var sagt við þær --- reyndar hefur það ekki enn þá verið sagt við mig, en ég var einu sinni á fundi og það var sagt: Þið bara menntið ykkur vitlaust, stelpur mínar. Fyrst á maður að mennta sig og svo er það ekki rétt. Það er því alltaf hægt að finna eitthvað nýtt og nýtt og alltaf var fundið upp eitthvað skemmtilegt fyrir konur að fást við. Núna er jafnvel svo komið að á margan hátt eru háskólamenntaðar konur ekkert betur settar en hinar. Því miður er það svo.
    Ég geri mér því góðar vonir um það að félmn. geti fjallað um þetta mál. Þetta ætti ekki að vera flókið og ég er viss um að Jafnréttisráð og þeir sem um þessi mál hafa fjallað hafa á reiðum höndum svör og geta gefið álit með stuttum fyrirvara. Ég vil þó benda á að ég held að það hafi verið réttarfarsnefnd sem gerði athugasemdir á sínum tíma við þessi ákvæði þegar við lögðum þetta til í nefnd félmrh. á sínum tíma. Við ákváðum að taka ekkert tillit til þeirra athugasemda vegna þess að við vissum að þetta var alls staðar í löggjöf í löndunum í kring og þess vegna töldum við að þeirra athugasemdir ættu ekki nægilega mikinn rétt á sér til þess að við gætum ekki breytt lögunum í þá veru sem við lögðum þá til og félmrh. var þá greinilega sammála. Því miður var meiri hluti Alþingis á þeim tíma ekki sammála okkur hinum en nú erum við komin með nýtt þing og vonandi breytt viðhorf.