Leit að verðmæta- og atvinnuskapandi verkefnum

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 17:47:56 (5703)


[17:47]
     Flm. (Árni M. Mathiesen) :
    Hæstv. forseti. Við höfum nú á undanförnum árum verið að horfast í augu við erfiðleika sem vonandi eru tímabundnir en þessir erfiðleikar hafa leitt til þess að nú er hér atvinnuleysi sem við höfum ekki þurft að búa við talsvert langan tíma. Á sama tíma og við höfum þurft að horfast í augu við þetta atvinnuleysi höfum við verið að gera okkur grein fyrir því að atvinnusköpun eða sköpun atvinnutækifæra fram að aldamótum þarf að vera á bilinu 20--25 þúsund störf. Til þess að stöðva þetta atvinnuleysi og til þess að skapa þessi atvinnutækifæri þurfum við að auka fjárfestingar í atvinnulífinu. Því miður eru fjárfestingar í lágmarki hjá okkur nú um stundir og reyndar er ekki fyrirsjáanlegt að við getum af eigin krafti fjárfest eins og þarf bæði til að koma í veg fyrir að atvinnuleysi aukist og minnka atvinnuleysið og skapa þau atvinnutækifæri sem við þurfum á að halda fram að aldamótum. Við höfum þrjár leiðir til þess að auka þessa fjárfestingu. Við getum gert það með því að taka lán erlendis, en staða okkar hvað varðar skuldir við útlönd er slík að það er í dag ekki ráðlegt. Þrátt fyrir það að heildarskuldir ríkisins séu ekki á hættumörkum, þá eru erlendar skuldir þjóðarbúsins svo miklar að það er ekki ráðlegt að auka þær. Stefna ríkisstjórnarinnar hefur verið að lækka þær fremur en auka og hefur það reyndar tekist að nokkru leyti á síðasta ári. Við höfum þann möguleika að leitast við að auka innlendan sparnað til þess að til verði fjármunir hér innan lands til að fjárfesta með. Því miður hefur innlendur sparnaður ekki verið nægilega mikill á undanförnum árum og mjög nauðsynlegt er að auka hann. Það getum við t.d. gert með því að gera breytingar á lífeyrissjóðakerfi okkar og auka þar frjálsræði og gefa þar með fleiri fjárfestingarmöguleika sem mundu hjálpa okkur til þess að fjárfesta okkur út úr þeim vanda sem við búum við í atvinnumálum. Jafnvel þótt okkur takist þetta þá þarf fjárfestingin að vera svo mikil að ég held að við mundum ekki ná innlendum sparnaði upp á það stig sem þarf að vera og því held ég að við þurfum að horfa til þriðja möguleikans sem er

að leita eftir fjármagni hjá erlendum fjárfestum. Þess vegna hef ég ásamt hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni og Tómasi Inga Olrich lagt fram eftirfarandi þáltill.:
    ,,Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að koma á fót þremur tímabundnum stöðum erindreka sem hefðu það hlutverk að leita að verðmæta- og atvinnuskapandi verkefnum erlendis --- verkefnum sem hægt er að vinna hérlendis í samstarfi erlendra og innlendra rekstrar- og fjárfestingaraðila.
    Nefnd skipuð fulltrúum utanríkis-, fjármála-, viðskipta- og forsrn. skal hafa umsjón með starfi erindrekanna og hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins. Kostnaður við starfsemina greiðist úr ríkissjóði.``
    Eins og staðan er í dag þá er erlend fjárfesting í atvinnulífi á Íslandi óveruleg. Það hefur komið fram í umræðunni að við sem þjóð erum að tapa af erlendum fjárfestingum ef borið er saman við nágrannaþjóðir okkar. Tilkoma hins Evrópska efnahagssvæðis og aðild okkar að því svæði á að skapa okkur möguleika í þessum efnum. Þá möguleika erum við enn sem komið er ekki farnir að nýta okkur að neinu marki.
    Því hefur verið haldið fram að innganga Norðurlandaþjóðanna, Finnlands, Svíþjóðar og Noregs í Evrópusambandið muni leiða til þess að fjárfestingar muni frekar leita til þessara landa en til þeirra landa sem ekki hafa óskað eftir inngöngu í Evrópusambandið. Þetta er að sönnu rétt í meginatriðum en við verðum hins vegar að líta til þess að Evrópska efnahagssvæðið gefur okkur þó nokkuð mikla möguleika, en það mun hins vegar ekki verða eins áberandi að við séum meðlimir í Evrópska efnahagssvæðinu eða þá hugsanlega í framtíðinni höfum tvíhliða samning við Evrópubandalagið sem byggður er á samþykktum þessa Evrópska efnahagssvæðis eins og það mun vera áberandi að Norðurlandaþjóðirnar séu meðlimir í Evrópusambandinu. Við þurfum því að beita okkur á annan hátt en þessar nágrannaþjóðir okkar þurfa að gera. Við þurfum að vera virkari í því starfi sem við vinnum og við þurfum að kynna betur en þeir hvaða möguleikar eru hér á landi og við þurfum að fara meira út á við til þess að sækja verkefnin en aðrar Norðurlandaþjóðir munu þurfa að gera.
    Við erum auðvitað ekki sams konar iðnaðarþjóðfélag og Svíþjóð og Finnland og við höfum ekki þörfina fyrir eins miklar erlendar fjárfestingar og þessar þjóðir munu þurfa á að halda í framtíðinni. Okkar möguleikar felast frekar í sértækum verkefnum sem byggjast á séríslenskum aðstæðum og því ætti okkur að vera mögulegt að ná til okkar verkefnum á þessum sérstöku sviðum ef við beitum okkur á réttan og skynsamlegan hátt.
    Nú er í undirbúningi af hálfu ríkisstjórnarinnar að koma á fót upplýsingaskrifstofu fyrir erlenda fjárfesta og það er vissulega mjög jákvætt spor í þessa átt. Ég tel hins vegar að við þurfum að gera meira en einungis að setja á stofn skrifstofur þar sem upplýsingarnar eru fyrir hendi til þess að aðilar geti leitað eftir þeim. Við þurfum beinlínis að koma upplýsingunum á staðinn til þeirra aðila sem við teljum að geti haft hag af því að fjárfesta hér hjá okkur og við getum haft hag af því að fjárfesti hjá okkur.
    Sérstaða Íslands hvað varðar landfræðilega stöðu, svo og umhverfisvænleika landsins og afurða þess er nú að verða helsti markaðsstyrkleiki afurða okkar. Þessi sérstaða er greinileg bæði á sviði framleiðslu og þjónustu og því er nauðsynlegt að mati okkar flm. að innlendir aðilar hafi sameiginlegt frumkvæði um það að fylgja eftir hugmyndum um nýsköpun og verðmætaaukningu. Þess vegna höfum við lagt til að það verði komið á fót tímabundið embættum erindreka til þess að kynna þessa möguleika okkar. En til þess að jafnræði verði meðal hinna ýmsu aðila vinnumarkaðarins leggjum við til að forsrn. hafi forgöngu um ráðningu erindrekanna sem valdir verði með hliðsjón af reynslu þeirra og sérþekkingu á erlendum markaðsstörfum og svæðum. Ráðning þeirra taki einnig mið af sérstökum verkefnum sem sinna þyrfti hverju sinni.
    Í nágrannalöndum okkar, m.a. í Noregi, hefur þessi háttur verið hafður á með góðum árangri. Erindrekar sem annars eru við störf hjá innlendum fyrirtækjum, eru ráðnir til ákveðinna tímabundinna verkefna á markaðssvæðinu en atvinnuveitendur þeirra, fyrirtæki eða stofnanir, samþykkja tímabundið leyfi þeim til handa. Þessir erindrekar fara inn á markaðssvæði sem þeir þekkja af reynd og leita að ákveðnum fjárfestum sem væntanlega gætu haft erindi til samstarfs við íslenska aðila, bæði með fjárfestingu, samstarfi og söluaðgerð. Vinna erindreka af þessum toga byggist fyrst og fremst á máta sem nefndur hefur verið maður á mann og nýtist oft og tíðum betur en sambærileg vinna ráða og stofnana sem vitaskuld njóta síðan góðs af samböndum þeim sem erindrekarnir kynnu að stofna til. Á sama hátt eru erindrekar ekki kvaddir til nema undirbúningsvinna aðila vinnumarkaðarins og opinberra stofnana sé fyrir hendi þannig að erindrekarnir hafi bæði upplýsingar og söluhvata á reiðum höndum. Þar sem samkeppni við fjármagn og markaðsleiðandi aðila er mjög hörð hefur beinskeytt starf sérstakra erindreka oft og tíðum skilað betri árangri en annarra. Má benda á bresk og bandarísk fyrirtæki sem fundist hafa eftir sérhæfða leit og kynningu fulltrúa hérlendra sveitarfélaga.
    Við flutningsmenn teljum að ef þessi tillaga yrði að veruleika þá mundum við auka möguleika okkar á því að fá til landsins erlenda fjárfesta mjög verulega og þá erum við ekki bara að tala um hvaða fjárfesta sem er eða fjárfestingar í hvaða verkefni sem er, heldur fjárfesta og fjárfestingar sem munu koma okkar atvinnulífi sem allra best og skapa bæði hag fyrir Íslendinga og erlenda samstarfsaðila.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að tillögunni verði vísað til hv. allshn.