Leit að verðmæta- og atvinnuskapandi verkefnum

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 17:59:07 (5704)


[17:59]

     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ég vil koma að þessari till. til þál. með örfáum orðum eftir ágæta framsögu hv. þm. Árna M. Mathiesens, en ég er meðflm. hans að þessu máli og tel að hér geti verið um mjög athyglisvert mál að ræða. Hér er um að ræða í raun tilraun til að koma íslenskum aðilum inn í reynsluheim og sérþekkingu erlendra markaðssvæða með því að koma þeim í tengsl við erlend fyrirtæki og koma þeim upp sérþekkingu á þessum markaðssvæðum í gegnum starf þeirra á erlendri grundu. Þessi leit er í raun og veru sambærileg við ýmiss konar svið sem mætti flokka undir hagnýtar rannsóknir og ég stenst ekki þá freistingu að vekja athygli á því að í þau mörgu ár sem hér hefur verið starfandi sérstakur sjóður sem hefur eflt hagnýtar rannsóknir í þágu atvinnuveganna þá hefur það viðgengist mjög lengi að ef litið er á rannsóknarframlög eftir atvinnugreinum þá er ekki litið á viðskipti sem sérstaka atvinnugrein. Það er litið á sjávarútveginn sem sérstaka atvinnugrein, það er litið á fiskveiðar og vinnslu, það er litið á iðnaðinn, það er litið á þjónustu sem sérstaka atvinnugrein og síðan er skoðað hversu mikil rannsóknarframlög hafa verið veitt eftir greinum.
    Í raun og veru er það svo að þó að við Íslendingar segjumst iðulega lifa á fiskveiðum þá er það ekki svo, við lifum ekki á fiskveiðum heldur lifum við fyrst og fremst á því að veiða fisk og selja hann þannig að við lifum á markaðsmálum, tengslum við markað og þekkingu á viðskiptum.
    Nú er það svo að hægt er að nálgast þessa þekkingu með ýmsum hætti og ég tel að við höfum í raun og veru vanrækt það að skoða með fræðilegum hætti markaðsmál og viðskipti þó að sjálfsögðu hafi Háskóli Íslands lagt margt mjög merkilegt af mörkum í þeim efnum. En sú hugmynd sem hér er sett fram í formi þáltill. beinist að því að finna beinni leið inn á þessi markaðssvæði, inn í reynsluheim og sérþekkingu á þessum markaðssvæðum og ég er sannfærður um það að sú leið er fær. Það hefur í raun og veru verið sannað að þessi leið er fær og hin beinu tengsl sem skapast geta með þessum hætti geta leitt til verulegs árangurs. Ég lít því í raun og veru á þetta sem hluta af vanræktu sviði í tengslum við okkar atvinnulíf og styð þetta mál eindregið, bæði með því að vera á því og mæla með því hér og tel að það geti komið okkar atvinnulífi til góða, sérstaklega nú þegar ný viðskiptasvæði hafa opnast og með vaxandi mikilvægi þess að Íslendingar afli sér sérstakrar þekkingar á fjármagnsmálum, viðskiptamálum og markaðsmálum og sæki til nýrra verkefna á sviði atvinnustarfsemi, þá held ég að þetta mál geti komið okkur til góða og sé vænleg leið til árangurs.