Kynning á ímynd Íslands erlendis

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 18:03:41 (5705)


[18:03]
     Flm. (Árni M. Mathiesen) :
    Hæstv. forseti. Ég tala hér fyrir till. til þál. um kynningu á ímynd Íslands erlendis sem ég flyt ásamt hv. þm. Salome Þorkelsdóttur, Sólveigu Pétursdóttur og Láru Margréti Ragnarsdóttur. Þetta er þriðja þingið sem við flytjum þessa tillögu en hún hlaut ekki afgreiðslu á síðasta þingi og var reyndar ekki mælt fyrir henni á þinginu þar áður. Tillagan fjallar um það að nefnd sem forsrh. skipar hafi frumkvæði að því að samræma það hvernig ímynd Íslands er kynnt á erlendum vettvangi í samvinnu við hagsmunaaðila. Það verði gerð áætlun um þessa kynningu og kostnaður af áætluninni verði greiddur af hagsmunaaðilum og ríkissjóði samkvæmt því sem Alþingi ákveður í fjárlögum. Jafnframt gerir tillagan ráð fyrir því að gerð verði úttekt á því hvernig aðstæður og aðgerðir hér innan lands samræmast þeirri ímynd landsins sem kynnt er erlendis.
    Ég tel að það sé afar mikilvægt fyrir Ísland á þeim tímum þegar viðskiptafrelsi er að aukast og samkeppnin á alþjóðlegum frjálsum markaði harðnar, að ímynd Íslands sé kynnt á skipulegan hátt erlendis. Við höfum allt of lengi látið það vera hlutverk þeirra aðila sem selja vöru og þjónustu að kynna ímynd landsins þannig að allt of mikill tími og allt of miklir fjármunir þessara viðskiptaaðila hafa farið í það að kynna Ísland, legu þess og staðhætti, kosti og galla lands og þjóðar. Þeir fjármunir og sá tími hefur þá ekki nýst til að sinna hinum eiginlegu sölustörfum, að selja vöruna og selja þjónustuna. Með því að samþykkja þessa tillögu og framkvæma hana, þá erum við að létta ákveðnum byrðum af viðskiptalífinu, ákveðnum byrðum sem við höfum raunverulega lagt á það og auka þannig svigrúm og möguleika viðskiptalífsins til þess að koma vörum okkar og þjónustu enn frekar á framfæri erlendis og skapa þannig fleiri störf hér heima en við höfum nú þegar á að skipa. Ég held að það sé skynsamlegt að gera þetta, ekki síður nú í dag en þegar við fluttum þessa tillögu fyrst fyrir tveimur árum síðan, þetta sé raunverulega enn þá nauðsynlegra nú í dag en þá og vil ég þá vísa til orða minna sem ég hafði hér í framsögu fyrir dagskrármáli sem

hér var á dagskrá á undan þar sem ég ræddi um fjárfestingarþörf hér á landi og þau atvinnutækifæri sem við þurfum að skapa fram að aldamótum.
    Ég tel að ef við náum góðum árangri á þessu sviði þá detti fólki erlendis í hug Ísland þegar upp í hugann koma ímynd hreinleika og gæða og það sé markmið sem við eigum að vinna að sameiginlega og góður árangur á þessu sviði muni skila sér ríkulega til okkar í aukinni vermætasköpun, auknum útflutningi og auknum atvinnutækifærum.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að tillögunni verði vísað til hv. allshn.