Kynning á ímynd Íslands erlendis

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 18:08:21 (5706)


[18:08]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Sú till. til þál. um kynningu á ímynd Íslands erlendis sem hér er til umfjöllunar er athyglisverð og er full ástæða til þess að taka undir með 1. flm. að verkefnið sjálft að samræma kynningu á Íslandi með eins konar sameiginlegri hönnun á ímynd landsins er afar brýnt verkefni.
    Í raun og veru er hægt að segja sem svo að það starf að kynna Ísland sé ekki skipulagt í dag og á vissan hátt höfum við nálgast það verkefni á óæskilegan máta að kynna Ísland í augum annarra þjóða. Ég vil nefna sem dæmi að þó að það hafi aldrei verið gert á opinberan máta þá höfum við, alla vega ákveðnir aðilar, freistast til þess að draga upp þá mynd af Íslendingum að þeir væru fyrst og fremst afkomendur víkinga. Þetta sést raunar á ýmsum minjagripum og söluvörum sem boðnar eru erlendum aðilum til kaups. Þá vaknar sú spurning hvort ímynd af þessu tagi er í einhverju samræmi við það sem við stöndum fyrir hérna á Íslandi og á það þá jafnt við um nútímamenningu Íslendinga sem fornmenningu. Í raun og veru má segja að sú ímynd, ímynd víkingsins, sé í hróplegu ósamræmi við eðli íslensks miðaldasamfélags fyrir utan það að hún verkar afar illa á Evrópumenn sem hafa af víkingatímanum afar neikvæða reynslu og er skemmst að minnast þess að öldum saman kunnu Frakkar bæn sem miðaði að því að biðja hinn almáttuga að vernda þá gegn æði víkinganna. Í sjálfu sér er hægt að fullyrða að það samfélag sem hér þróaðist í miðöldum var í fullkominni mótsögn við það sem víkingatíminn býður upp á í augum erlendra aðila. Hér var háþróað samfélag, ekki aðeins á sviði bókmennta, en Íslendingar uppgötvuðu langt á undan öðrum þjóðum ákveðna sagnalist sem þróaðist hér með mjög sérstökum hætti á 13. öld. Náðu Íslendingar raunar í þeirri tækni tökum á textaritun sem segja má að Vestur-Evrópubúar hafi ekki uppgötvað í raun og veru fyrr en með skáldsagnagerð 19. aldarinnar.
    En Íslendingar höfðu sérstöðu á mörgum öðrum sviðum. Þeir voru kunnáttumenn í sagnaritun og langt á undan sinni samtíð í þeim efnum. Þeir voru kunnáttumenn í hljóðfræði og skrifuðu um það lærðar ritgerðir. Þeir voru stjarnvísindamenn. Þetta var með öðrum orðum háþróað samfélag sem stundaði líka lagasmíð sem var mjög sérstök á þeim tíma sem hún fór hér fram þannig að ef við ætlum að kynna miðaldamenningu Íslendinga þá er nokkurn veginn gefið að sú kynning ætti að vera á öllum öðrum forsendum en þeim að tengja það á einhvern hátt þeim ránsferðum og því rupli sem víkingar eru þekktir fyrir. En það ber þó að geta þess að víkingar voru í raun mun geðslegri fulltrúar síns heimshluta en þjóðsagan sem af þeim fer var. Þeir stunduðu mikið viðskipti og hefur verið gerð tilraun til þess að bæta þá ímynd sem víkingar njóta í nútímanum með því að gera grein fyrir því hversu fráleitt það er að lýsa ferðum þeirra um heiminn fyrst og fremst sem ránsferðum því að þær voru landafundaferðir og viðskiptaferðir ekki síður en hitt.
    Þetta vildi ég segja hér vegna þess að það skiptir mjög miklu máli hvernig við drögum upp einfalda en sannferðuga mynd af okkar samtíma og okkar fortíð til þess að skapa okkur þessa ímynd. Ég vil taka undir það að góður árangur á því sviði sem hér er verið að fjalla um í þessu þingmáli byggist á því að þegar nafn Íslands er nefnt, eins og hér stendur réttilega í greinargerð með þáltill., þá komi upp í huga manna ímynd hreinleika og gæða en það ætti einnig að koma upp í huga manna menning. Ég held að íslensk menning standi fyllilega undir því að höfða til manna við hliðina á þessum jákvæðu hugtökum um hreinleika og gæði.
    Það er alveg hárrétt sem kemur fram í greinargerðinni að þessi almenna kynning á ekki að vera og getur ekki orðið hlutverk fyrirtækjanna í landinu, hún getur það ekki. Það vill svo til að ég fékk tækifæri til þess að ræða við forstjóra þess sænska fyrirtækis sem hefur nú verið stofnað eiginlega við einkavæðingu sænska ferðamálaráðsins, en það er orðið einkafyrirtæki nú. Þegar ég spurði þennan framkvæmdastjóra að því hversu gild rök hefðu legið til þess að þessi stofnun var einkavædd, þá viðurkenndi hann það fyrir mér að að hluta til væri þarna um að ræða þróun sem ekki væri hægt að styðja þeim rökum að ríkið hefði ekki hlutverki að gegna þarna og þá kom hann einmitt inn á þennan almenna kynningarþátt. Hann sagði að það væri óhjákvæmilegt að ríkið sinnti þessu vegna þess að það væri í raun og veru alls ekki hægt að sýna fram á það að neinn hefði beinar tekjur af almennu kynningarstarfi. Það væri óverjandi fyrir fyrirtæki að verja miklum fjármunum til svona kynningarstarfa. Þó að þess séu dæmi hér á Íslandi að einkafyrirtæki, og ég nefni sérstaklega Flugleiðir, hafi lagt í svona kynningu þá sé það í raun og veru hlutverk hins opinbera að stunda slíka kynningarstarfsemi og það sé einmitt ekki síst vegna þess að þetta kemur í hlut hins opinbera sem þetta samræmingar- og undirbúningsstarf þarf að vera mjög vandað.
    Með öðrum orðum er það hlutverk hins opinbera að taka frumkvæði í þessu máli og það varðar

t.d. stefnumörkun í ferðamálum svo dæmi sé tekið. En það varðar miklu meira en stefnumörkun í ferðamálum vegna þess að mjög mikilvægar afurðir á Íslandi, t.d. matvælaiðnaðurinn íslenski, eru ekki kynntar erlendis sem íslenskar vörur. Sjávarútvegurinn t.d. framleiðir gæðavörur en á erlendum mörkuðum eru þessar vörur ekki þekktar sem íslensk vara ef undan eru skildar tvær framleiðsluvörur, þ.e. saltfiskurinn sem er kunnur á Íberíuskaganum undir merkinu Íslenskur saltfiskur og er gæðavara þar, og í öðru lagi er það íslenska síldin sem hefur orðið þekkt einkum og sér í lagi í Svíþjóð sem gæðavara. En fiskurinn sem við flytjum út í stórum stíl, jafnvel fiskurinn sem fer frá okkar bestu frystihúsum er almennt ekki kynntur erlendis sem íslensk vara. Hann er alla jafnan settur í umbúðir sem eru merktar ákveðnum erlendum fyrirtækjum og kemur því fyrir augu kaupendanna erlendis sem vara frá þessum fyrirtækjum án þess að nokkrar upplýsingar liggi fyrir um það hvaðan fiskurinn kemur. Við erum þess vegna ekki þekkt sem matvælaframleiðsluþjóð þó að við séum fyrst og fremst matvælaframleiðsluþjóð. Og þetta setur okkur í ákveðinn farveg sem að mínu mati þarf að breyta.
    Ég er þeirrar skoðunar að það mál, sem hér er rætt um og er tekið mjög réttilega á, sé þannig vaxið að þetta kynningarstarf sé bæði vandmeðfarið og dýrt og við eigum að leita leiða til þess að samnýta kraftana. Ég hef sannfæringu fyrir því að ferðaiðnaðurinn sem slíkur og sjávarútvegurinn hafi þarna sameiginlegra hagsmuna að gæta. Það á að vera hægt að kynna Ísland, það á að vera hægt að smíða ímynd Íslands sem kemur sér vel bæði fyrir ferðamennskuna og fyrir matvælaframleiðsluna. Hreinleikinn gildir fyrir hvort tveggja. Ef Ísland getur markað sér bás sem gott matvælaframleiðsluland, þá hefur það gífurlega mikla þýðingu fyrir ferðamennskuna svo að við tökum þarna bara eitt dæmi.
    Ef við höfum líka tiltölulega vistvæna orku þá rennur þetta allt saman í sama farveg, að kynna landið sem land vistvænnar orku, sem land góðra matvæla og sem land gróskumikillar ferðaþjónustu og sem land sem kýs að kynna menningu sína út á við.
    Svo að ég nefni enn eitt þá hefur verið rætt um það og er raunar verið að gera tilraunir með það að nýta íslenska heilsugæslu sem er á háu stigi í þágu ferðaþjónustu, þ.e. að rækta upp svokallaða heilsuferðaþjónustu. Þetta er ekki hægt nema menn viti af því erlendis að hér sé heilsugæsla, heilbrigðisþjónusta á mjög háu stigi en það er ekki svo að menn viti það almennt erlendis að hér á landi sé háþróuð heilsugæsla. Ég minnist þess að hafa heyrt þá sögu sem ég get vel sagt hér í þingsalnum þeim þingmönnum sem hér eru viðstaddir til fróðleiks, að þess munu vera dæmi að hingað hafi komið Ítalir til ferðalaga þvert og endilangt um landið og þeir höfðu með sér líflækni sinn vegna þess að þeir litu svo á að þeir gætu ekki treyst því að fá hér eðlilega þjónustu á þessu sviði. Þegar læknirinn kom hingað til Reykjavíkur fór hann að kynna sér ástand heilbrigðisþjónustu á Íslandi og sá í hendi sér eins og skot að áhyggjur hans höfðu verið ástæðulausar og hér var heilbrigðisþjónusta sem gaf heilbrigðisþjónustu í hans heimalandi ekkert eftir nema ef síður væri. Þetta varpar ljósi á það hvað menningarstig okkar er illa þekkt erlendis og ég lít svo á að þessi till. til þál. sé hluti af því að taka á þessu kynningarstarfi og fagna því að hún er fram komin.