Kynning á ímynd Íslands erlendis

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 18:19:59 (5707)


[18:19]
     Flm. (Árni M. Mathiesen) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 5. þm. Norðurl. e. kærlega fyrir hans ræðu hér rétt á undan og áhuga hans á þessu máli. Það er alveg hárrétt sem hann sagði í sinni ræðu að kynning á ímynd Íslands er ekki skipuleg af okkar hálfu. Það er kannski rétt að geta þess að í þessu sambandi þar sem örugglega mörgum dettur í hug Útflutningsráð, að Útflutningsráð lítur ekki á það sem sitt hlutverk að kynna ímynd landsins erlendis. Þeir eru fyrst og fremst söluaðilar, viðskiptaaðilar og sem slíkir eiga þeir að selja vörur og kanna markaði.
    Það er líka hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Tómasi Inga að okkar sjávarútvegsfyrirtæki selja fæst sína vöru undir íslensku vörumerki. Þeir aðilar sem mest hafa kynnt ímynd Íslands erlendis eru Ferðamálaráð og Flugleiðir. Hvorir um sig eru auðvitað aðallega söluaðilar. Þeir eru söluaðilar að tiltekinni þjónustu sem eru flutningar og ferðaþjónusta. Og mér er sagt að nánast eina íslenska fyrirtækið sem flaggar íslensku vörumerki og er áberandi á erlendum mörkuðum eru Flugleiðir. Og lítum við þannig á, þá held ég að við megum vera mjög þakklátir þessu ágæta fyrirtæki fyrir þá landkynningu sem það hefur stundað.
    Það var áhugavert sem hv. 5. þm. Norðurl. e. nefndi um heilbrigðisþjónustuna og að erlendir viðskiptaaðilar gerðu sér ekki grein fyrir þeirri stöðu sem heilbrigðisþjónustan er í hér á landi. Þegar við vorum að ræða um 7. dagskrármálið hér á undan þá nefndi hv. þm. Tómas Ingi það að við hefðum ekki litið á viðskipti sem rannsóknir og ekki stundað rannsóknir á þessu sviði. Þetta er sjálfsagt í stórum dráttum rétt hjá honum en þrátt fyrir það að ég hafi nefnt hér áðan að Útflutningsráð liti ekki á sig sem kynningaraðila þá hefur verið unnin ákveðin starfsemi á vegum ráðsins hvað varðar viðskiptarannsóknir. Ég var á fundi sl. föstudag í Grindavík, nánar tiltekið í Bláa lóninu, þar sem m.a. var kynnt skýrsla sem Útflutningsráð vann fyrir Bláa lóns nefnd heilbrrn. og heilsufélagið Bláa lónið. Þessi skýrsla er skrifborðsúttekt á því hver markaður er fyrir psoriasis-lækningar. Það eru mjög merkilegar niðurstöður sem koma fram í þessari skýrslu og gæti eflaust orðið grundvöllur fyrir nokkuð góðum viðskiptum á heilbrgiðissviðinu ef hægt væri að selja þessa heilbrigðisþjónustu erlendis sem við getum óefað veitt í Bláa lóninu og það mundi

örygglega hjálpa í slíkri sölu ef kynning á ímynd landsins væri samhæfð því markmiði að selja heilbrigðisþjónustu.
    Ég er líka sannfærður um það að víkingar eins og þeir eru oftast kynntir erlendis mundu ekki draga að sér mikið af sjúklingum. Þess vegna fannst mér athyglisverð þessi sýn Tómasar á því hvernig ímynd Íslands erlendis ætti raunverulega að vera. Við ættum ekki að vera baráttuglaðir víkingar heldur ættum við að vera hugsuðir og rithöfundar, hæstv. forseti.
    Það er því sjálfsagt alveg rétt hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. og ég varð einmitt var við það eða get nefnt til stuðnings þessum hugmyndum hans grein sem ég las um helgina í Lesbók Morgunblaðsins eftir Þórhall Vilmundarson. Hann er örnefnafræðingur og greinin fjallaði um örnefnið Víghóll eða Víghólar. Niðurstaða vísindamannsins varð sú að Víghólar drægju ekki nafn sitt af vígaferlum eða bardögum sem háðir hefðu verið á þessum hólum heldur hefði hér orðið beyting á örnefninu og flestir þessir Víghólar sem við þekkjum hefðu upphaflega heitið Veghólar og verið svo kallaðir vegna þess að þeir vísuðu ferðamönnum veginn. Tæplega geta íslensk örnefni og íslensk þjóð verið ferðavænni en þetta örnefni lýsir.