Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 14:19:37 (5713)


[14:19]
     Frsm. 1. minni hluta landbn. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem kom hér fram í máli hv. síðasta ræðumanns að ég hef ekki gert neina breytingu á afstöðu minni í þessu máli frá því sem hún var við 2. umr. Það hlýtur að vera hverjum þingmanni fullkomlega skiljanlegt að fyrir því hef ég ekki nokkrar minnstu ástæður vegna þess að það sem síðar hefur verið fjallað um þessi mál og þau fylgigögn sem hér liggja fyrir er fyrst og fremst þess efnis að styðja þann málflutning sem ég hafði hér í frammi við 2. umr. Og hvers vegna skyldi ég þá vera að sveigja af leið, (Gripið fram í.) þegar ég er að fá enn betri staðfestingu á því að mínar skýringar séu með eðlilegum og réttum hætti?
    Að því er varðar þá tilvitnun sem hér er í orð Markúsar Sigurbjörnssonar, þá vil ég ekki fara að draga það sérstaklega inn í umræðuna, og það má þakka fyrir að það sé ekki í áliti hans núna, en ég minnist þess nú að þetta hafi átt við 2. minni hlutann en ekki 1. minni hlutann, en þetta segi ég með fullkomnum fyrirvara.