Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 14:25:49 (5716)


[14:25]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Enn er kominn þriðjudagur hér í þinginu og allt er við sama keip og verið hefur, deilurnar komnar í fullan gang um landbúnaðarmálin og enn höfum við heyrt eftir ræðu hv. þm. Egils Jónssonar að tíðinda sé að vænta eða ég hygg, hæstv. forseti, að það muni verða einstök tíðindi í þingsögunni sem hér gerðust í málflutningi hv. þm. þegar hann lýsir því yfir að hann muni hiklaust fella brtt. hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar og fleiri sem er hér flutt til þess að taka af öll tvímæli um það hver sé vilji þingsins. Um leið og hv. þm. Egill Jónsson lýsir þessu yfir, þá er hann jafnframt að lýsa því yfir að hann muni í rauninni fella eigið nefndarálit og ég sá að það fóru hláturskrampar um andlitið á krötunum undir þessari yfirlýsingu því að þeir sáu að enn hafði þessi þingmaður tekið kollsteypu í þessu máli. Enn hafði þessi einstaki flóttamaður í landbúnaðardeilunni tekið kúvendingu og beygt af leið og yfirgefið eigin málflutning og ætlar nú ásamt flokksmönnum sínum hér að fella eigið nefndarálit í rauninni. Þetta er einstakt í þingsögunni og dálítill gleðibragur á hæstv. utanrrh. því að hann sér að deilan mun halda áfram. Því að hæstv. utanrrh. hefur talið sér trú um að flokkur sinn vinni fylgi á því að stríða í fjölmiðlum um íslenskan landbúnað og framtíð hans. ( Gripið fram í: Misskilningur.) En það er vel að hér eru þeir mættir sem um þetta mál hafa vélað svo lengi. Mig skiptir engu þó hæstv. landbrh. sé ekki við þessa umræðu því að hann hefur verið leiksoppur í allri þessari deilu. Hann hefur ekki verið sá sem hefur farið með þetta mál. Það eru hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. sem hafa samið um það frá upphafi og auðvitað er staðreyndin sú að hv. þm. Egill Jónsson hefur í hvert sinn orðið að beygja sig eins og ég hef hér rakið.
    Það er auðvitað einstakt í jafnlitlu máli sem þessu þar sem vilji þingsins liggur fyrir, en máli sem skiptir íslenskan landbúnað og íslenska atvinnuvegi miklu skuli þessar deilur hafa ríkt. Hæstv. forsrh. kallaði þetta mál nú á tímabili tittlingaskít. Staðreyndin er sú að stjórnarsamstarfið er brostið út á þessar deilur, það er búið. Viðeyjarstjórnin er í rauninni dáin þótt hún starfi að nafninu til enn. Og auðvitað er ástandið í herbúðum þessara flokka eins og Vatnsenda-Rósa lýsti svo vel forðum um sitt ástarsamband og sagði:
          Man ég okkar fyrri fund
          forn þótt ástin réni.
          Nú er eins og hundur hund
          hitti á tófugreni.
    Þannig er nú Viðeyjarsamstarfið farið fyrir bí. Og farið hefur fé betra, eins og sagt er. En það er ljótt ef þessir húsbændur ætla að þrauka áfram yfir engu starfi, að þeir skuli ekki gera íslenskri þjóð þann greiða að gefa upp boltann og þjóðin fái að velja sér nýja leiðtoga til þess að taka við.
    Þetta samstarf var auðvitað byggt á misskilningi í upphafi. Ástarhjalið í Viðey voru draumórar af því að foreldrar þessara manna höfðu náð saman um einhverja viðreisnarstjórn sem þeir ímynduðu sér að hefði starfað vel. En nú verður allt að deilumálum. Það er ekki bara landbúnaðurinn. Við þekkjum deilurnar um þyrluna og hvernig þessir menn í rauninni í ósamkomulagi sínu koma í veg fyrir mörg hin bestu og mikilvægustu mál sem þurfa að nást hér fram og að auki þar sem þjóðar- og þingviljinn er skýr.
    Hæstv. forseti. Þetta stjórnarsamstarf sem hæstv. forsrh. ber ábyrgð á, þjakar þingið, það pínir þjóðina. Þessu þarf að ljúka.
    Ég ætla hér að mæla fyrir brtt. sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson lagði fram við þetta frv. og ég flyt ásamt hv. þm. Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni með honum. En í þeirri brtt. segir:
    ,,Við frumvarpið bætist ný grein er verði 6. gr. og orðist svo:
    Rísi ágreiningur um túlkun þessara laga skal aðallega hafa hliðsjón af þeim skýringum sem fram koma á þskj. 671 á 117. löggjafarþingi.``
    Þessi brtt. skýrir sig í rauninni sjálf. Hún er sett fram vegna þess að hér hefur það gerst sennilega í fyrsta sinn í sögu Alþingis Íslendinga að fram eru lögð við sama lagatextann sitt hvort nál. Flokkarnir standa saman um lagatextann en leggja fram sitt hvort nál. til skýringar á hvert þeir vilja fara. Og það má segja, hv. þm. Gísli Einarsson, að annar vill í því nál. norður og hinn kannski norður og niður. Svo ólík eru þessi nál. og túlkun á þeim lagatexta sem hér liggur fyrir að ég veit að hina eldri og reyndari þingmenn rennir ekki minni til að slíkt hafi gerst í þingsögunni fyrr. Nú hefur það gerst að hv. þm. Egill Jónsson, formaður landbn., hefur kallað fyrir, að vísu að beiðni okkar landbúnaðarnefndarmanna, mæta lögspekinga til þess að fjalla um þetta mál.
    Nú vill svo til, hæstv. forseti, að í þingsköpum Alþingis stendur skýrt í 36. gr.:
    ,,Lagafrumvörp skulu vera samin með lagasniði og skal prenta þau og útbýta þeim meðal þingmanna á fundi. Hverju frumvarpi skal fylgja greinargerð um tilgang þess yfirleitt og skýring á höfuðákvæðum.``
    Velkist nokkur í vafa um hvað menn settu inn í þingsköpin? Það var ekki verið að búast við því, enda hafa menn sjálfsagt ekki búist við því, að það gætu komið fram um sama lagatextann, tiltölulega skýran að vísu, tvö nál. sem túlkuðu svo ólík sjónarmið. En það er enginn vafi í okkar huga að sú staðreynd að flokkarnar sem ráða þinginu og ríkisstjórninni túlka frv. með svo ólíkum hætti mun valda hér réttaróvissu, mun valda hér uppákomum og deilum í þjóðfélaginu. Þess vegna er brtt. sem hér er lögð fram mjög mikilvæg. Menn skulu gera sér grein fyrir því að leikreglur þingskapanna krefjast þess að það sé skýrt sett fram hvað á bak við lagasetninguna býr.
    Ég ætla hér máli mínu til stuðnings að vitna í einn allra virtasta lagaprófessor okkar fyrr og síðar, Ármann Snævarr, en hann fjallar um störf Alþingis og hann fjallar um einmitt hvaða þýðingu nefndarálit hafa. Í þessu áliti segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Nefndarálit hafa svipað gildi sem lögskýringargögn og umræður á Alþingi eða ummæli í greinargerð. Öll geta þessi gögn horft til upplýsinga um viðhorf löggjafans til lagaákvæða.``
    Þetta er skýrt fram sett. Og síðar segir:
    ,,Er gert ráð fyrir því að frv. sæti meðferð nefnda og að jafnaði eftir lok 1. umr. Álit nefnda eru ákaflega mismunandi, bæði um það hve rækileg þau eru og hve vel er til þeirra vandað en þar koma stundum fram ummæli sem verulegu máli skipta til skilnings á ákvæðum laga. Er þó mjög fátítt að til þeirra sé vitnað í dómum,`` segir að vísu. En síðar segir prófessor Ármann Snævarr: ,,Dómarar gera sér mikið far um að grafast fyrir um vilja lagasetningarvalds samkvæmt tiltækilegum gögnum. Í mörgum dómum er ótvírætt að könnun á löggjafarvilja hefur riðið baggamuninn um það hver lögskýringarkostur hefur orðið fyrir valinu en jafnframt er þess að gæta að stundum hefur þeirri lausn verið hafnað sem helst mátti telja vilja löggjafans. Hafa þá önnur lagasjónarmið mátt sín meira, þar á meðal meginreglur laga og eðli máls.``
    Og enn segir: ,,Þegar rætt er um löggjafarviljann er vitaskuld átt við viðhorf og vilja alþingismanna en ekki annarra handhafa lagasetningarvalds.`` Menn sjá það auðvitað að komi hér upp deilur, þá er sinn viljinn hjá hvorum flokknum um hvað þeir voru hér að setja í lög. Þetta er tvísýna sem hv. formaður landbn. hefur látið hafa sig út í sem er óásættanlegt.
    Og enn segir Ármann Snævarr, með leyfi forseta: ,,Það er ljóst að með vilja löggjafans hlýtur að hafa verið átt við viðhorf þess meiri hluta þingmanna sem stóð að samþykkt laganna.`` --- Þess meiri hluta þingmanna, hv. formaður landbn. Nú mun meiri hluti þingmanna sjálfsagt greiða undanhaldinu, sem hv. formaður hefur staðið fyrir, atkvæði sitt. En hver er meiri hlutinn? Annar meiri hlutinn segist vera að fara þessa leið og hinn meiri hlutinn segist vera að fara hina, þannig að þetta er alvarleg staða sem komin er hér upp og óásættanleg gagnvart Alþingi Íslendinga að mínu viti, enda hefur hæstv. landbrh., sem ég hygg að sé alllögfróður maður þó hann sé ekki löglærður, áttað sig á því hvað þetta er óeðlileg lagasetning og túlkun um hana, enda sagði hann, með leyfi forseta, við umræðuna að það yrði bara að koma í ljós hvorum aðila dómarar trúi betur. Hann var í engum vafa um það, hæstv. landbrh., að þessi meðferð þingsins á málinu mundi valda deilum og verða að dómsmáli. En nú hefur það gerst hér í dag að hv. formaður landbn., Egill Jónsson, skýrir þingi og þjóð hiklaust frá því að hann ber ekki meiri virðingu fyrir þeim gögnum sem hann hefur barið saman eða látið berja saman fyrir sig en svo að hann ætlar að fella þau hér. Hann ætlar ekki að splundra stjórnarsamstarfinu með því að styðja eigið nál. og tryggja að allar deilur um íslenskan landbúnað tilheyri sögunni. Þvílíkur kjarkur. Þvílík ást á dánu stjórnarsamstarfi að láta hafa sig út í þessar ófærur. Að rísa ekki upp og segja fremur: Gagnvart íslenskum landbúnaði, atvinnuástandinu á Íslandi og þeim alþjóðlegu samningum sem við stöndum frammi fyrir, þá fylgi ég fremur eigin samvisku og geri kröfu um að lagasetningin verði skýr og ótvíræð. (Gripið fram í.) Það má í rauninni segja það, hv. þm., að hundur hafi hlaupið í allt samstarf í landbn. Þar hefur ekki verið starfsfriður um langan tíma. Þetta var nefnd sem var þekkt fyrir það hér í þinginu að vinna af heilindum, ná saman um mál og skila þeim til þingsins yfirleitt með einum vilja. Ég get lýst því yfir að mér finnst óþolandi að starfa í landbn. við þessar aðstæður, eftir að hv. formaður hefur farið svo marga kollhnísa að ég hef ekki tölu á þeim, eftir að hv. þm. Gísli Einarsson, varaformaður nefndarinnar, hefur í rauninni öll ráð í sinni hendi. En hann klagar að vísu og sækir sín völd til foreldranna sem stýra þessari ríkisstjórn, hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh.
    Við stjórnarandstöðuþingmenn höfum ekki tafið umræðuna um þetta mál hér í þinginu. Hvenær sem þessi mál hafa komið hér til umræðu, þá hafa það verið stjórnarliðar sem hafa hnakkrifist út af málinu, við höfum ekki komist þar að með okkar skoðanir. Ég hygg að ég hafi ekki talað við 1. umr., ekki við 2. umr., enda hafa það að mestu leyti verið stjórnarliðar. (Gripið fram í.) En ef ég aðeins svona til fróðleiks,

af því að ég veit að þetta mál verður seinni tíma rannsóknarefni sagnfræðinga í störfum þingsins, (Gripið fram í.) sagnfræðinga, hv. þm., þá er ég sannfærður um að það verður rannsóknarefni hvernig þingið fór að í þessu máli og menn kúventu. En ef ég rek það bara svona til skýringar að það er að verða ár síðan landbn. eftir góða forustu hv. formanns lagði hér fram heildstætt frv. þar sem tekið var á öllum aðalatriðum og fyrir lá algjör samstaða í nefndinni, en þetta frv. olli því að hæstv. forsrh. varð í fússi að slíta þinginu.
    Ég þarf ekkert að rekja hér uppákomur sumarsins um kalkúnalæri, skinku o.s.frv. Það er þekktari saga en svo. En það er álit færustu lögmanna, ekki síst þeirra sem landbn. hefur notast við í störfum sínum að hefði slík lagasetning átt sér stað á Alþingi í fyrravor, þá hefði ekki ríkt hér nein réttaróvissa, þá hefðu ekki verið hér nein átök um íslenskan landbúnað, þá hefði verið komin lagasetning sem var skýr og skorinorð og samstaða í þjóðfélaginu um landbúnaðinn. Og að auki hefði landbúnaðurinn vitað hvar hann stóð framtíðarinnar vegna. Síðan þekkjum við að það er fyrst í desember sem hv. formaður landbn. ætlaði að smygla á einni nóttu helst frv. í gegnum þingið, þá lá svo mikið við. Og hæstv. utanrrh. var erlendis og þá var vinnufriður að því er hæstv. landbrh. sagði og lag til þess að koma skýrri lagasetningu í gegn. Það voru fyrstu viðbrögð haustins. En utanrrh. kom heim í þessar umræður og spillti eitthvað vinnufriðnum, en eigi að síður fór fram lagasetning og síðan munum við söguna: Hæstaréttardómur 20. jan. þar sem það kom í ljós að lagasetningin frá í desember var moðsuða, óskýr og réttaróvissa var fyrir hendi. Í framhaldi af því lagði hæstv. landbrh. hér fram frv. sem var bæði loðið og lint en var sagt vera samkomulag ríkisstjórnarinnar. Við gagnrýndum það frv. mjög við 1. umr. og lögðum við framsóknarmenn fram það ágæta frv. sem landbn. hafði flutt í fyrravor. Þessi aðgerð okkar varð auðvitað til þess að menn komust ekki lengur hjá því að vinna í málinu. Og þá varð það úr að þessir ágætu lögmenn, títtnefndir í þessari umræðu, komu til starfa með landbn.
    Og hvað gerðist? Þeir komust að nákvæmlega sömu niðurstöðu og landbn. hafði gert í fyrravetur. Leiddu hv. þm. Egil Jónsson eina ferðina enn inn á veginn og inn á rétta braut en honum virðist nú erfitt að tolla á veginum, þeim hv. þm. og nokkru síðar keyrði hann út af og vék frá meginatriðum þess sem lögmennirnir höfðu lagt til. 28. febr. varð hann að beygja sig eftir að hann var orðinn heimsfrægur fyrir þétta afstöðu í þessu máli. Þjóðhetja hjá Íslendingum sem þykir vænna um vinnuna sína en áður og gerði sér grein fyrir því að þetta mál snýr að atvinnumálum Íslendinga fremur en annað.
    En þá varð að beygja hv. þm. Það gerði hæstv. forsrh. á títtnefndu kvöldi og bað hann um að slátra ekki ríkisstjórninni fyrir sér og fékk hann til þess að taka þrjú atriði út úr þessu ágæta frv. sem lögmennirnir höfðu með okkur unnið í landbn.
    Ég er svo sem ekkert að lá hv. þm. Agli Jónssyni sem er flokkshollur maður þó hann hafi beygt sig. Það er mikil ábyrgð að leggja það á einn þingmann að skipta ekki um skoðun þegar svo mikið er í húfi að tilvist heillar ríkisstjórnar er að tilheyra sögunni, enda beygði hann sig. Og ef menn efast um þetta, þá er annar þingmaður flokksins, sá hinn staðfasti, sá sem byggði skoðanir sínar á bjargi og stendur við þær enn og rekur það glöggt í nál. 4. minni hluta, hv. þm. Eggert Haukdal. Hann vék hvergi frá vegi sannleikans í þessu máli en heldur sínum skoðunum til streitu og stendur ekki með hv. þm. að frv.
    Ef ég síðan vík hér að örfáum atriðum sem fram hafa komið í umræðum því að ekki vil ég bera ábyrgð á því að hér renni upp nýr þriðjudagur einhvern tíma eftir páska og þessu máli verði þá ólokið. Ég álít að það sé mikilvægt fyrir Alþingi Íslendinga að ljúka þessu máli sem fyrst. Það hafa nógu margir menn orðið sér til skammar í kringum þetta mál og það sem verra er, íslenskur landbúnaður hefur liðið mest fyrir þessa óvissu og mun líða mest fyrir hana.
    Ég geri mér grein fyrir því, hv. þm. Egill Jónsson, að í hvert sinn sem þingmaðurinn náði réttum áttum í málinu þá strandaði vinna hans á því sem okkur er ljóst, að hæstv. landbrh. samdi af sér í ríkisstjórninni í desember. Og það er enginn vafi að hæstv. utanrrh. beygði Sjálfstfl. í hvert sinn og sagði: Það var samkomulag okkar á milli að GATT-samningarnir kæmu aldrei inn í þessa lagasmíð. Og því fór nú sem fór.
    En kveðjurnar hafa verið kaldar í þessu máli og hæstv. utanrrh. sparaði sig ekki hér fyrir um hálfum mánuði þegar hann sagði um samstarfsflokkinn, með leyfi forseta, að hann harmaði það að þeir aðilar í hv. landbn., sem hafa náð saman niðurstöðu um lagatextann sjálfan, skuli ekki setjast niður að siðaðra og viti borinna manna hætti, svo að ég endurtaki það, og ganga frá sameiginlegri álitsgerð. Auðvitað ber að harma það, segir hann. Þegar búið er að gera leiðréttingar á lagatextanum sjálfum þá er sett fram greinargerð sem lætur eins og lagatextanum hafi ekkert verið breytt. Svona hafa þessar deilur gengið eins og ég hef hér rakið, að ávirðingarnar ganga á milli stjórnarflokkanna í þessu efni.
    Ég hef ekkert efast um vilja hæstv. landbrh. í þessu máli, að hann vild ná fram skýrum texta. Hann sagði í umræðunum, með leyfi forseta:
    ,,Það er satt að segja grátlegt nú þegar í það stefnir að nýr GATT-samningur verði undirritaður jafnvel eftir mánuð rúman, þá skuli á Alþingi Íslendinga vera deilur um það með hvaða hætti okkur takist að styrkja þann atvinnuveg okkar, landbúnaðinn, sem ásamt sjávarútvegi er aðaluppspretta þeirra nýju atvinnutækifæra sem við getum búist við að fá í náinni framtíð, ef undan er skilin ferðaþjónusta því að því miður hefur reynslan sýnt okkur að iðnaður sem ekki styðst við landbúnað eða sjávarútveg hefur ekki verið í færum um að vaxa þannig að hægt sé að tala um að hann hafi orðið að slíkri útflutningsatvinnugrein að

okkur sé mikill styrkur í.``
    Síðan kemur ráðherrann að því að t.d. skinnaiðnaðurinn hafi sum árin skilað milljarði í gjaldeyristekjur. Hvenær sem maður les þessar ræður, þá les maður grátinn í því hvernig sumir þessara manna sem eiga þó góðan vilja hafa orðið að láta undan Alþfl. í þessu máli, sem er nú vart lengur mælanlegur í fylgi flokka í skoðanakönnunum sem fram fara. Eigi að síður nær hann þessum árangri.
    Af því að ég var hér að vitna í ræðu hæstv. landbrh. þar sem hann var talað um gjaldeyristekjur þá ætla ég að vitna til þess sem kannski verst er í þessu máli, hvernig hæstv. utanrrh. hefur í þessum alþjóðlegu samningum komist upp með í nafn þessarar ríkisstjórnar að gera hina og þessa samninga og fara með forræði Íslendinga í þessu máli án þess að þurfa samþykki ríkisstjórnar eða þingsins til.
    Ég verð þá að minnast á tvíhliða samninginn um garðyrkjuna sem margir þingmenn hafa rætt hér undir þessum umræðum. Það er heill atvinnuvegur sem skapar líklega um 500 störf í landinu sem nú er í óvissu vegna þess að ríkisstjórnin bar enga virðingu fyrir þessum atvinnuvegi. Og hæstv. utanrrh. náði fram stílbroti í EES-samningunum að því leyti að honum leyfðist í nafni þessarar ríkisstjórnar að taka þar upp samninga um landbúnaðarmál. Þeir samningar áttu að snúast um allt annan hlut. Það voru fiskafurðir. Og síðan gerist það hér allt í einu í maí 1991, nokkrum vikum eftir að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er mynduð, að þá kemur tilkynning upp í landbrn. um það að hæstv. utanrrh. sé sestur yfir tvíhliða samninga um garðyrkjuafurðir til þess að koma á og auðvelda sölu á tollfrjálsum fiski. Þarna er náttúrlega einhver versti samningur sem gerður er. Við getum hugsað okkur það ef hann hefði farið að eins og Norðmenn og Svíar sem leyfðu sér það eitt að gera tvíhliða samninga um vörur sem þeir ekki framleiddu, kannski epli, appelsínur og eitthvað fleira, þá leyfist hæstv. utanrrh. í nafni ríkisstjórnarinnar að gera samning um aðalgreinarnar í íslensku garðyrkjunni, blómin, gúrkurnar, tómatana, paprikuna. Við skulum nú hugsa okkur að hann hefði minnst íslensks landbúnaðar þegar hann var að fórna þessari grein eða gera tilraun til að fórna henni. Hefði hann nú hugsað sem svo: Á ég ekki að semja um að íslenski hesturinn seljist tollfrjálst inn í Evrópubandalagið? Nú var íslenski hesturinn sennilega seldur úr landi á síðasta ári fyrir um 500 millj. í gjaldeyristekjum. Það hefði nú kannski munað um það til að markaðssetja hann ef eitthvað slíkt hefði náðst fram og ríkisstjórnin hefði munað eftir einhverri annarri grein á móti og samið um íslenska hestinn þá. En auðvitað var hitt aðalatriðið að svona samninga má aldrei gera en þeir voru gerðir af ásetningi af þeim sem gerði þá. Tollfrjáls, niðurgreidd, erlend afurð kemur hér inn mánuðum saman og ógnar atvinnuvegi sem er alla vega verulega stór í mínu kjördæmi og víðar um land og auðvitað mjög mikilvægur íslensku atvinnulífi.
    Litlu síðar gerist það undir forsjá þessarar ríkisstjórnar að hæstv. viðskrh. Jóni Sigurðssyni leyfist það að taka úr gildi heila reglugerð sem fjallaði um bann á innflutningi á landbúnaðarvörum. Á þessu ber hv. þm. Egill Jónsson fulla ábyrgð ekkert síður heldur en hæstv. viðskrh. Þetta er gert í nafni ríkisstjórnarinnar og þetta hefur valdið verulegri óvissu.
    Ég vil undir lokin segja að atvinnuleysið er í dag stærsta efnahagsvandamál íslensku þjóðarinnar. Það teygir sig inn á öll svið. Það veldur hörmungum á heimilunum, það skerðir tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaganna, það veldur því að bankar og sjóðir eru að bíða afhroð. Við eigum 8 þúsund manns án atvinnu. Og ríkisstjórnin hefur á sínum tíma verið að fórna heilum atvinnugreinum. Ég nefni skipaiðnaðinn, ég nefni nýjustu upplýsingar úr byggingariðnaðinum þar sem á tveimur árum hefur orðið samdráttur í mannafla upp á 20% um leið og umsvifin hafa aukist. Það segir að við höfum flutt störfin úr landi. Og þannig hefur þetta verið að gerast á öllum sviðum. Hvað landbúnaðinn varðar og það frv. sem við erum hér að fjalla um þá snýr það auðvitað að þessum atvinnumálum. Það er meginkjarninn. Hvernig ætlum við að standa að því að taka við þessum alþjóðlegu samningum og verjast þeirri innflutningsáráttu við núverandi aðstæður sem hér er ávallt uppi? Ísland er einu sinni þekkt fyrir matvælaiðnað. Við höfum kannski hvergi náð lengra, bæði með fiskafurðir og ekkert síður úrvinnslu á mjólk og kjöti.
    Ég hygg að hæstv. forsrh. sé það t.d. ljóst að hér á Norðurlöndunum viðurkenna menn atvinnuleysið sem sitt mesta böl og sem sitt stærsta vandamál í fjármálum. En það er talið að atvinnuleysi á Norðurlöndum hafi í beinan kostnað á síðasta ári numið 3.000 milljörðum ísl. kr. Og þá er ekki inn í það reiknað hvernig mannauðnum er sóað við þessar aðstæður.
    Við erum að tala hér um fjárlög upp á 100 milljarða. En atvinnuleysið á Norðurlöndum sem nú er að nema land hér og festast í sessi kostar þar 3.000 milljarða ísl. kr. Hvílík vá, hvílíkt böl og þvílíkt ábyrgðarleysi að eiga ríkisstjórn um þessar mundir sem er haldin þeirri áráttu að kunna ekki að standa með íslensku atvinnulífi hvort sem það er til sjávar eða sveita.
    Hæstv. utanrrh. sagði í þessum umræðum fyrr í vetur, með leyfi forseta, að þetta mál snerist ekki um lögfræði. Það snerist um lífskjör, það snerist um málefni neytenda. Ég hygg að íslenskum neytendum sé að verða það ljóst að það er fleira líf heldur en eiga rétt til þess að kaupa erlenda, niðurgreidda matvöru og drepa um leið atvinnuna undan sér. Ég hygg að íslenski launþeginn, íslenski neytandinn sé að verða meðvitaður um að það er atvinnan sem skiptir máli þegar það liggur nú fyrir að það eru engin úrræði af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þó er það vitað að yfir 20 þúsund ný störf þarf að stofna til aldamóta. Það er ekkert smáverkefni sem bíður íslenskra stjórnmálamanna, atvinnulífsins og launþegahreyfinganna við að ná tökum á þessu stærsta máli sem hér hefur nú fest rætur sínar og ríkisstjórnin ber meginábyrgð á.
    Hæstv. forseti. Ég hef rökstutt þá brtt. sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson er 1. flm. að og ég vil

spyrja hv. þm. Egil Jónsson hvort ég hafi virkilega heyrt rétt að hann mundi hiklaust fella eigið nál. með því að greiða atkvæði gegn þessari tillögu. Hann hefur sjálfur oft og tíðum gortað af því að 54--55 þingmenn vildu standa saman í þessu máli. Við framsóknarmenn leggjum þetta fyrst og fremst fram, við erum ekki sammála, við vildum hafa frv. öðruvísi, en við leggjum þetta fram vegna þess að við viljum að það sé alveg skýrt hver vilji þingsins er. Ég spurði lögfræðingana góðu sem með landbn. unnu og fjölluðu um þau nefndarálit eða lögðu þau nefndarálit sem hér eru komin fram, ég spurði þá eftir fund landbn.: Hvað mundi nú gerast ef þingið vísaði brtt. frá sem við höfum lagt fram eða felldi hana? Þeir voru í engum vafa um það. Þeir sögðu að það mundi valda óvissu. Ef það ylli ekki óvissu, þá væri það þó klárt mál að það yrði mörgum tilefni til þess að takast á um þessi mál áfram og láta reyna á innflutning.
    Hæstv. forseti. Ég ætla þá ekki að tefja öllu lengur. En það er óvenjulegt að sjá ágæta nefnd sem á merkilegt starf að baki þetta kjörtímabil fallna í fjóra búta og enginn fundur fer fram með þeim friði sem skyldi. Það stafar auðvitað fyrst og fremst af þeim óheilindum sem verið hafa á milli formanns landbn. og varaformannsins.