Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 15:09:27 (5717)


[15:09]
     Frsm. 1. minni hluta landbn. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það skýrir nú nokkuð málflutning þessa hv. síðasta ræðumanns að hann stendur í þeirri meiningu að nefndarálit séu borin upp á Alþingi. Nefndarálit 1. minni hluta er ekki frekar borið upp á Alþingi heldur en önnur nefndarálit og þar af leiðandi á ég engan kost á að greiða því atkvæði. Ef það væri innan þingskapa, þá eins og ég hef áður sagt mundi ég auðvitað gera það.
    En þetta var ekki tilefni þess að ég kom hér í ræðustól heldur hitt að þessi hv. ræðumaður bað sérstaklega um það að Markús Sigurbjörnsson kæmi til viðtals við landbn. og þar voru m.a. lagðar fram spurningar um þá brtt. sem hann hefur verið að tala hér fyrir. Og þegar hann hafði orð á því að hann vildi fá Markús Sigurbjörnsson, þá lagði hann alveg sérstaklega áherslu á það sem grundvallarósk. Nú veitti ég því athygli að þrátt fyrir að í greinargerð þessa heiðursmanns sé einmitt ítarlega fjallað um þá tillögu sem hann var að mæla fyrir, þessi hv. ræðumaður, þá vitnaði hann aldrei í hana einu einasta orði. (Forseti hringir.) Og hvað á það annars að þýða að leita eftir skýringum hjá sérstökum mönnum sem menn hafa traust á og trúnað en að bera svo ekki orð þeirra fyrir sig þegar afstaða þeirra liggur fyrir? Ekki einu einasta orði. Ég vil vekja sérstaka athygli á þessu að þingmaðurinn vitnaði ekki einu einasta orði í þessa greinargerð.