Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 15:41:19 (5728)


[15:41]
     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er, þá er meginmunurinn á fyrirliggjandi texta og svo aftur þeirri brtt. sem við hv. þm. flytjum hér varðandi 3. gr. a-lið, meginmunurinn á textanum og svo aftur brtt. er sá að það er skotið inn orðunum ,,innlendra og erlendra`` landbúnaðarhráefna. Sannleikurinn er sá að þó að hv. formaður landbn. haldi því fram að þetta sé alveg skýrt, þá virðist það ekki vera nægilega skýrt í hugum allra. Það hefur komið fram hér í þinginu að hv. talsmenn Alþfl. hafa ekki talið að þetta næði bæði til innlendra og erlendra þátta og þess vegna hefur mér þótt nauðsynlegt og gagnlegt að draga þetta skýrt fram og fá þetta alveg á hreint. Þess vegna er tillagan að sjálfsögðu flutt.
    Ef málið stæði þannig að það hefðu allir nákvæmlega sama skilning á þessu og allir hefðu lýst því yfir að þeir skildu þetta nákvæmlega eins og hv. formaður landbn., þá væri auðvitað enginn vandi hér á ferð, þá væri engin tillaga flutt. En málið er ekki þannig, hann veit það sjálfur, og þess vegna er það gagnlegt að breyta lagatextanum á þennan veg.