Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 15:44:13 (5730)


[15:44]
     Frsm. 4. minni hluta landbn. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frhnál. 4. minni hluta landbn.
    Nefndin hefur fjallað á ný um þetta frv. á milli 2. og 3. umr. vegna brtt. á þskj. 758. Þessi tillaga er borin fram í þeim tilgangi að eyða vafa sem upp er kominn um túlkun á þskj. 672, en sá vafi er orðinn til vegna tveggja nál. sem fela í sér mismunandi túlkun á frv. Fyrra álitið er frá 1. minni hluta landbn., þskj. 671, og hið síðara frá 2. minni hluta, þskj. 696. Hið fyrra nál. er samið með leiðsögn frá lögfræðingunum Gunnlaugi Claessen hrl., Tryggva Gunnarssyni hrl. og Sveini Snorrasyni hrl. sem unnu að lögfræðilegri útfærslu á brtt. á þskj. 672 fyrir landbn. Hið síðara er hins vegar unnið að meginhluta til undir handleiðslu hæstv. utanrrh., Jóns Baldvins Hannibalssonar, og aðstoðarmanns hans, Þrastar Ólafssonar. Tilgangur þess er augljóslega að hindra eins og frekast er unnt að komið verði á verðjöfnunarkerfi sem tryggi stöðu landbúnaðar á Íslandi þegar opnað verður fyrir innflutning samkvæmt þeim milliríkja- og fríverslunarsamningum sem fyrir liggja, annaðhvort þegar samþykktir af Alþingi eða tilbúnir til undirritunar og staðfestingar Alþingis í framhaldi af því. Í nál. má víða sjá túlkun sem gengur langt umfram efni laganna og stangast í mikilvægum atriðum á við nál. 1. minni hluta landbn. Þess vegna er 4. minni hluti efnislega samþykkur því sem áðurnefnd brtt. felur í sér, að hafa skuli hliðsjón af nál. á þskj. 671 ef ágreiningur kemur upp við túlkun laganna og til að tryggja rétta framkvæmd þeirra.
    Fleira kemur hins vegar til. Á fundi landbn. sem haldinn var milli umræðna, mættu þeir lögfræðingar sem áður eru nefndir og auk þeirra Markús Sigurbjörnsson prófessor. Tvennt í máli þeirra ber að hafa til hliðsjónar við afgreiðslu á brtt. á þskj. 758.
    Í fyrsta lagi kom skýrt fram af þeirra hálfu að nál. 1. minni hluta landbn. á þskj. 671 væri það nál. sem í reynd fylgdi brtt. á þskj. 672. Nál. 2. minni hluta á þskj. 696 verði ekki skoðað á sama hátt, enda sé það með dæmalausum fullyrðingum sem rétt sé að vekja sérstaka athygli á. Í því megi m.a. lesa þá fullyrðingu ,,að ekki liggi ljóst fyrir hvort þær rúmu heimildir, sem landbúnaðarráðherra eru veittar í frumvarpi á þskj. 672, standist ákvæði stjórnarskrárinnar``. Flutningsmaður nál. stendur þó að brtt. á þskj. 672 en ætla má að það sé einsdæmi í sögu íslenskrar lagasetningar að flutningsmaður láti í ljós efa sinn í nál. um að lagasetning, sem hann ætlar að standa að, standist stjórnarskrá landsins.
    Í öðru lagi kom fram í máli lögmannanna að lögfesting á sérstakri reglu um skýringu laga, eins og lögð er til, sé andstæð hefðum í lagasetningu hér á landi. Þeir upplýstu að líklega sé einu hliðstæðuna að finna í 3. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið þar sem hafi verið sett regla sem komist nærri því að vera áþekk tillögunni, en þar er boðið að skýra eigi lög og reglur til samræmis við EES-samninginn eftir því sem við á. Þetta ákvæði telur 4. minni hluti ekki vera til eftirbreytni frekar en annað sem í þeim samningi er.
    Að teknu tilliti til þessara tveggja atriða mun 4. minni hluti ekki taka afstöðu með eða á móti við afgreiðslu á breytingartillögu á þskj. 758.
    Í þessari deilu um búvörulög hefði verið besta leiðin að taka miðuppkast lögfræðinganna sem voru að störfum fyrir landbn. og gera það að lögum. Allir nefndarmenn voru því hlynntir utan fulltrúi Alþfl. Það hefði verið eðlilegast að skilja Alþfl. eftir í málinu á þeim punkti. Sá undansláttur, sem fólst í þriðja uppkasti lögfræðinganna gagnvart Alþfl. mun viðhalda deilunum áfram.
    Ástæða er til þess að minna á að undirritaður er andvígur EES-samningnum og þeim neikvæðu áhrifum sem hann hefur fyrir íslenskan landbúnað. Enn á ný reynir utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, að notfæra sér ákvæði EES-samningsins til breytinga á landbúnaðarlöggjöfinni til þess að klekkja á íslenskum landbúnaði.

    Fjórði minni hluti vísar til afstöðu sinnar sem fram kemur í nál. á þskj. 703 um fyrirliggjandi breytingar á lögum nr. 99/1993 í þskj. 672. Þar er rakið í þremur aðalatriðum í hverju tillagan víki frá þeim tillögum að breytingum sem voru kynntar í landbn. en síðan dregnar að hluta til baka að kröfu formanns Alþfl.
    Fjórði minni hluti mun greiða atkvæði gegn frv. og breytingum á því og leggja til að það verði fellt, nema því aðeins að því verði breytt í samræmi við þær brtt. lögfræðilegra ráðgjafa landbn. sem voru undanfari brtt. á þskj. 672, þ.e. miðuppkasti lögfræðinganna.
    Atkvæði 4. minni hluta er mótmæli gegn vinnubrögðum Jóns Baldvin Hannibalssonar utanrrh. og þeirri undanlátssemi sem honum er jafnan sýnd.
    Virðulegi forseti. Varðandi brtt. sem hér liggur fyrir á þskj. 854, þá mun ég styðja þær. Þær ganga til móts við miðuppkast lögfræðinganna. Út úr því var tekið eins og hér hefur verið rakið að tillögu Alþfl., ákveðin þrjú atriði. Þess vegna tel ég að þessi tilraun sé til þess að lagfæra frv. Hér áðan deildu tveir hv. þm. um skýringu á texta lögfræðinganna. Texti lögfræðinganna er að sjálfsögðu skýr en hann er skýr um það sem er í frv. Hann getur ekki verið skýr um það sem búið er að taka út úr því og það voru mistök að taka ekki miðuppkast lögfræðinganna og gera það að lögum óbreytt.