Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 15:58:56 (5735)


[15:58]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Sennilega er þessari lotu landbúnaðardeilunnar miklu að ljúka. En mér segir svo hugur um að þessari umræðu um landbúnaðarmálin og hvernig staðið verði að innflutningi sé hvergi nærri lokið. Enda vitum við að ríkisstjórnarflokkarnir sömdu um nokkurra mánaða vopnahlé. Þeir ætla að setja málið í nefnd sem á að fjalla um væntanlegan GATT-samning og hvernig verði staðið að innflutningi á landbúnaðarvörum samkvæmt þeim samningi. Þannig að því fer fjarri að málinu sé lokið en vissulega er hér ákveðnum kafla þess að ljúka.
    Frá því að 2. umr. átti sér stað um þetta frv. hefur svo sem ekki margt gerst. Eins og hér hefur verið rakið var haldinn fundur í landbn. þar sem kallaðir voru til lögspekingar, bæði þeir sem stóðu að því að semja brtt., sem hér liggja fyrir, og eru aðalhöfundar þeirra greinargerða sem 1. minni hluti hefur lagt fram, eða nál. 1. minni hluta, en síðan var líka kallaður til óháður aðili, prófessor upp í háskóla, til þess að skoða þetta mál.
    Það var einkum þrennt sem nefndarmenn vildu fá skýringar á eftir 2. umr. hér í þingsölum. Fyrsta spurningin var hvað það þýddi þegar meiri hluti nefndar legði fram sameiginlegar brtt. en skilaði svo tvenns konar nál. sem túlka hlutina á mismunandi hátt. Reyndar er það ljóst að þessi túlkun á brtt. kom fyrst og fremst fram í umræðum hér á þinginu. Þegar betur er að gáð þá snúast þessi nál. meira um fortíðina heldur en raunveruleikann, í rauninni það sem stóð í öðru uppkasti svokölluðu, þ.e. brtt. lögfræðinganna sem Alþfl. barði síðan í gegn breytingar á. Fyrsti og annar minni hluti tókust á um þessar breytingar og hvort rétt hefði verið að gera þær. --- Ég sé að landbrh. er hér eitthvað órólegur í salnum og vill fá formann landbn. til sín en ég vil endilega biðja hv. formann landbn. að sitja því mig langar að ræða hér við hann það atriði sem er að finna í brtt. Ragnars Arnalds o.fl., því ég er ekki sammála túlkun hans í þeim efnum.
    Fyrsta atriðið sem við vildum fá skýringar á var sem sagt hvað það þýddi fyrir túlkun laganna að nál. væru tvö. Það var mat lögfræðinganna að í rauninni skipti það sáralitlu máli ef lagatextinn væri skýr. Þeim ber saman um að lagatextinn sé skýr. En það breytir ekki því að þau vinnubrögð að meiri hluti sem skilar sameiginlegum brtt. skuli svo fara þá leið að skila tvenns konar nál. og túlka alla þróun málsins, ég held það sé óhætt að segja það, þróun málsins út og suður og í rauninni að rífast þar um vinnubrögð, þetta er afar sérkennilegt. En mér er sagt og ég ætla að koma því hér á framfæri vegna þess sem fram kom í máli hv. þm. Guðna Ágústssonar, mér er tjáð að það séu þrjú önnur fordæmi fyrir því að meiri hluti nefndar hafi skilað mismunandi nál., þ.e. að skilað hefur verið lagabreytingum en þær síðan túlkaðar á mismunandi hátt. Það er því ekki alveg nýtt að þetta gerist en það er jafnfurðulegt og ekki síst í máli eins og þessu og ber fyrst og fremst vott um ástandið í ríkisstjórninni og ríkisstjórnarflokkunum þar sem menn hafa rifist eins og hundar og kettir um þessi mál og snertir það sem svo sem hefur verið margnefnt hér í umræðunni hversu ólík sjónarmið eru ráðandi varðandi innflutning landbúnaðarvara og hvernig réttast sé að bregðast við þeim breytingum sem fram undan eru.
    Í öðru lagi vildi landbn. fá skýr svör við því hvert valdsvið ráðherra væri við álagningu verðjöfnunargjalda ef um væri að ræða hráefni sem ekki eru framleidd hér á landi en er að finna í vörum. Það er einmitt þetta atriði sem menn voru að deila um hér áðan. Ég er búin að fara nokkuð vel í gegnum texta lögmannanna og ég er ekki sammála þeirri túlkun sem hv. formaður landbn. kom fram með áðan því að í minnisblaði lögmannanna segir, og það er birt hér sem fskj. með frhnál. 1. minni hluta, með leyfi forseta:
    ,,Spurt var um valdsvið landbrh. við álagningu verðjöfnunargjalda samkvæmt brtt. og hvort heimilt væri að verðjafna vegna hráefna sem ekki eru framleidd hér á landi.``
    Ég skil brtt. Ragnars Arnalds o.fl. þannig að það sé verið að reyna að ná til hráefna sem ekki eru framleidd hér á landi. Þá segja lögmennirnir áfram, með leyfi forseta:
    ,,Eins og fram kemur í áður tilvitnuðum texta 1. mgr. 72. gr. er heimild landbrh. til að leggja verðjöfnunargjald á vöru til staðar þegar eftirfarandi þrjú skilyrði eru uppfyllt:
    a. Varan er innflutt.
    b. Varan er tilgreind í tollskrárnúmerum í viðaukum I eða II með lögunum.
    c. Varan er jafnframt framleidd hér á landi.``
    Þetta eru þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að hægt sé að verðjafna þegar ákveðin vara á í hlut.

Síðan segir í framhaldi:
    ,,Reglur 72. gr. fjalla um verðjöfnun vegna mismunar á innlendu og erlendu verði þeirra hráefna sem notuð eru í viðkomandi vöru. Til þess að unnt sé að reikna út og staðreyna að gjaldið sé innan þess hámarks sem lögin setja þurfa tvær stærðir að vera fyrir hendi, þ.e. innlent verð hráefnisins og erlent verð hráefnisins. Sé annar þátturinn ekki finnanlegur er ekki grundvöllur til að reikna út verðjöfnunargjald á þátt viðkomandi hráefnis í vörunni eða vöruna ef hún er eingöngu þetta tiltekna hráefni.``
    Ég skil þetta þannig að ef hráefnið er ekki framleitt hér á landi þá er ekki leyfilegt að verðjafna.
    Síðan er þetta skýrt áfram og tekið fram að í sumum þeim milliríkjasamningum sem Íslendingar hafa gert hafi verið samið sérstaklega um einstök hráefni, t.d. jurtaolíu eins og gert er í bókun 3 við EES-samninginn. Þar af leiðir að þar sem um er að ræða vöru sem inniheldur jurtaolíu, vöru sem jafnframt er framleidd hér á landi, þá er heimilt að verðjafna. Ef varan er frá löndum sem tilheyra EES þá er heimilt að verðjafna en ef um er að ræða aðra vöru þar sem er að finna hráefni sem ekki eru framleidd hér á landi þá er ekki heimilt að verðjafna. Þannig skil ég þetta. Ég gekk út af nefndarfundinum með einmitt þennan skilning, að það væri alveg ljóst að þegar um samsettar vörur er að ræða og í þeim er að finna landbúnaðarvörur sem ekki eru framleiddar hér á landi þá er ekki heimilt að verðjafna, þ.e. ef hráefnið er ekki framleitt hér innan lands.
    Eins er það líka alveg ljóst varðandi vörur sem eru í greinilegri samkeppni við íslenskar landbúnaðarvörur, við getum tekið sem dæmi pasta, sem er í samkeppni við innlendar vörur. Pasta er að mjög litlu leyti framleitt hér innan lands. Það eru einhver örlítil dæmi um það. Það eru margar, margar tegundir af pasta. Reyndar er pasta, þ.e. pasta með kjötinnihaldi, að finna hér í viðaukanum. En pasta er dæmi um vöru sem keppir við innlenda framleiðslu. En vegna þess að varan er nánast ekki framleidd hér þá verður ekki um verðjöfnun að ræða þar.
    Í þriðja lagi var sá þáttur sem við vildum fá nánari skýringar á vegna mismunandi túlkana sem komu fram hér í umræðum og það varðar GATT-samninginn. Ég er komin á þá skoðun að í rauninni getum við ekkert náð frekar utan um væntanlegan GATT-samning en hér er gert. Það kom skýrt fram í máli lögfræðinganna að ef væntanlegur GATT-samningur gengur í gildi án þess að gerðar hafi verið sérstakar lagabreytingar vegna hans þá gilda almennar reglur um verðjöfnun, ef um er að ræða vörur sem framleiddar eru hér á landi, svo framarlega að það brjóti þá ekki í bága við samninginn. Hins vegar eins og hér hefur komið margsinnis fram þá gerðu ríkisstjórnarflokkarnir samkomulag um að láta frekari breytingar sem hugsanlega fylgja GATT-samningnum bíða og ákváðu að fara rækilega í gegnum þessi innflutningsmál. Það er auðvitað ómögulegt að segja hvað kemur út úr þeirri vinnu eða hvaða lagabreytingar þarf að gera eða hvaða lagabreytingar menn vilja gera í kjölfar GATT-samningsins. Og það er staðreynd að efnisinnihald hans liggur ekki fyrir í öllum tilvikum. Reyndar deila menn nokkuð um þetta og sumum finnst nauðsynlegt að kveða þarna skýrar að orði en það er mín niðurstaða að það sé ekki hægt að ná utan um GATT-samninginn frekar en orðið er og að við verðum a.m.k. að sjá hvernig hann lítur endanlega út áður en það verður hægt.
    Ég ætla að víkja nokkrum orðum að þeirri tillögu sem liggur hér fyrir vegna þessa máls og er frá Ólafi Þ. Þórðarsyni o.fl. Ég get ekki annað en vakið athygli á því sem prófessor Markús Sigurbjörnsson segir um þessa tillögu sem er afar sérstök. Hann segir í sínu áliti, með leyfi forseta:
    ,,Á fyrrnefndum fundi með landbn. lýsti ég þeirri skoðun að þessi breytingartillaga á þskj. 758 væri óþörf, auk þess sem lagasetning í þessum búningi væri óæskileg. Þessa skoðun skýrði ég nánar á fundinum með vísan til eftirfarandi þriggja atriða.`` Og síðan skýrir hann það nánar í sínu bréfi. Þó að til sé fordæmi fyrir þessu í EES-samningnum, þá er það mikið umhugsunarefni fyrir Alþingi hvort rétt sé að fara þessa leið. Ef sú niðurstaða lögmannanna er rétt að lagatextinn sé svo skýr að hann ætti ekki að valda neinum vafa, þá er tillagan auðvitað óþörf. Markús Sigurbjörnsson prófessor segir einnig í sínu bréfi, með leyfi forseta:
    ,,Í þriðja lagi vakti ég athygli á að lagaákvæði á borð við það sem er lagt til á þskj. 758 yrði algert einsdæmi í íslenskri löggjöf að því leyfi að þar er vísað til ákveðins gagns um skýringu á tilteknum lögum.``
    Ég held að við þurfum mjög að huga að því fordæmi sem hér er á ferð. Það verður ekki annað sagt en að tillaga Ólafs Þ. Þórðarsonar er afar sérstök og ég verð að lýsa því að ég á erfitt með að styðja hana eins og hún kemur hér fram. Auðvitað er tilgangurinn með tillögunni sá að reyna að finna leið til að draga úr réttaróvissu og þó að lögmennirnir segi að textinn sé skýr, þá kom það fram á þessum fundi nefndarinnar að það er afar líklegt að menn muni láta á það reyna fyrir dómstólum hvað þessi lög þýða í raun og veru með vísun til þeirra mismunandi túlkana sem komu fram í umræðum hér.
    Hv. þm. Guðni Ágústsson vísar einmitt til þess að prófessorinn benti á þá leið að menn gerðu grein fyrir atkvæði sínu og ég verð að segja það að mér líst miklu betur á þá leið. Séð frá þingtæknilegu sjónarmiði finnst mér sú leið vænlegri til þess að vilji löggjafans sé alveg skýr frekar en að vísa í nefndarálit sem væri hægt að túlka með ýmsu móti. Enda eins og hefur komið fram, þá snúast þessi nefndarálit meira um fortíðina heldur en inntak þeirra lagabreytinga sem hér eru á ferð.
    Rétt í lokin, virðulegi forseti, þá get ég ekki látið hjá líða að rifja það aðeins upp um hvað sú deila snýst sem við höfum horft upp á milli stjórnarflokkanna. Að mínum dómi snýst hún fyrst og fremst um

vinnubrögð. Við höfum orðið vitni að furðulegum vinnubrögðum og menn hafa dregið þessa deilu alveg ótrúlega á langinn vegna tortryggni og deilna milli ráðherra og stjórnarflokkanna og jafnvel innan stjórnarflokkanna, en á meðan brennur Róm og sá tími nálgast að íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir gerðum hlut. Áhrif EES-samningsins munu koma skýrar og skýrar í ljós á næstu mánuðum og það styttist í það að væntanlegur GATT-samningur gangi í gildi, hvað sem hann hefur í för með sér. Ég segi það enn og aftur að ég er ósammála þeirri túlkun hæstv. forsrh. að GATT-samningurinn feli harla lítið í sér. Hann mun breyta miklu. Um það eru menn, held ég, sammála. Ég get vísað til ræðu hæstv. utanrrh. í þeim efnum sem ég held að hafi réttara fyrir sér en ýmsir aðrir.
    En spurningin sem við stöndum frammi fyrir er þessi: Hvað er verið að gera til þess að búa íslenskan landbúnað undir þessar breytingar? Hvernig á að bregðast við? Ætla menn bara að sitja auðum höndum á meðan mánuðirnir líða? Ég rakti það í minni ræðu við 2. umr. að það er margt sem þarf að gera til þess að tryggja stöðu landbúnaðarins og til að búa hann undir þessar breytingar. Það þarf bæði endurskipulagningu og það þarf að fara í gegnum ýmsa þá kostnaðarþætti sem landbúnaðurinn stendur frammi fyrir. Það þarf að leita allra leiða til þess að auðvelda íslenskum bændum að ganga í gegnum þessar miklu breytingar og jafnframt að aðstoða þá við að finna leiðir til að flytja út og til þess að nýta sér það sem þessir alþjóðasamningar fela í sér og byggja það fyrst og fremst á gæðum íslensks landbúnaðar.
    Ég vil vitna til orða formanns Stéttarsambands bænda sem sagði að það yrði hægt að lifa með GATT-samningnum en ýmsir sérsamningar sem hafa verið gerðir á undanförnum árum valda meiri vandræðum. Ég held að þetta sé rétt hjá formanni Stéttarsambands bænda. Ég held að íslenskur landbúnaður muni lifa þessar breytingar af og geta styrkt stöðu sína ef bændur standa saman og ef við sameinumst um þá hugmynd að það skiptir miklu máli að halda uppi innlendri matvælaframleiðslu og að við verðum að halda uppi vinnu í okkar landi. Til þess að það sé hægt, þá verðum við að nýta kosti okkar lands. Einn af þeim kostum er hreinleiki og góðir og óspilltir dýrastofnar sem hér lifa og ég held að ef við leggjumst á eitt og nýtum þessa möguleika, þá eigum við að geta horft til bjartari framtíðar jafnt í landbúnaðarmálum sem á öðrum sviðum.