Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 17:11:54 (5745)


[17:11]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. formanni landbn. fyrir svör hans. Það fer held ég ekkert milli mála varðandi þetta ákvæði, með leyfi forseta, í 72. gr.: ,,Fjárhæð verðjöfnunargjalds má að hámarki vera mismunur annars vegar á innlendu verði hráefnis`` o.s.frv., að þarna er sett hámarksákvæði sem takmarkar álagningu gjaldanna. Segjum svo að bændur lækki verð eitthvað tímabundið eins og nú hefur gerst þá á samkvæmt þessu að lækka verðið á því innflutta líka. Þarna er held ég um ótvíræða takmörkun að ræða. Það kom einnig fram í máli hv. þm. að í viðaukunum eru ekki allar vörur taldar upp sem heimild er að verðjafna fyrir samkvæmt GATT-tilboðinu. Þannig að þar virðist þá einnig vera um þrengingu að ræða. Ég vil láta í ljós ánægju mína ef ekki þarf að túlka bókstaflega þetta ákvæði, að varan eigi að vera framleidd hér á landi, en væri þá ekki betra að setja inn í lagatextann eitthvert ákvæði um að þarna skyldi ekki vera farið bókstaflega eftir ákvæðinu heldur en að sniðganga það?