Hæstiréttur Íslands

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 17:39:18 (5752)


[17:39]
     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég tek hér til máls við 3. umr. um þessi frumvörp til að greina frá því að eftir að 2. umr. um þau var lokið barst Alþingi bréf frá Hæstarétti varðandi frv. til laga um breyting á lögum um Hæstarétt. Í bréfinu var þess aðallega farið á leit að afgreiðslu frv. yrði frestað í heild sinni en að því frágengnu að felldar yrðu niður breytingar á frv. sem allshn. lagði til og voru samþykktar við 2. umr. Óskin um að fresta afgreiðslu frv. í heild sinni er byggð á því að ein helsta tillagan í frv. um að fjölga dómurum við Hæstarétt um einn geti reynst til erfiðleika vegna þrengsla í húsakosti réttarins.
    Þessi ósk er einnig byggð á því að tillaga allshn. um þá breytingu á frv. að skipting dómara milli starfsdeilda við Hæstarétt fari eftir lögákveðinni reglu þarfnist nánari athugunar við og að núverandi dómarar við réttinn séu henni andsnúnir. Óskin um að fella aðeins þessa breytingu niður er byggð á sama grunni.
    Þessi málaleitan Hæstaréttar var tekin til sérstakrar athugunar í allshn. milli 2. og 3. umr. Niðurstaða nefndarinnar var einróma á þann veg að því er ég best veit að þótt hún telji sér rétt og skylt að leitast við að virða óskir Hæstaréttar, þá sé henni það ekki fært í þessu tilviki og leggi því til að frv. verði samþykkt óbreytt. Helstu rökin fyrir þessari afstöðu allshn. eru í stuttu máli þau að hún telur mjög knýjandi að stytta verulega þann langa afgreiðslutíma sem nú er á málum fyrir Hæstarétti. Til að ná því markmiði sé óhjákvæmilegt að fjölga dómurum við Hæstarétt eins og er ráðgert í frv. en ekki sé hægt að láta þessa bráðnauðsynlegu réttarbót stöðvast vegna tímabundinna vandkvæða í húsnæðismálum réttarins.
    Það má minna á að í frv. eru einnig aðrar tillögur sem eiga að miða að sama markmiðinu en eru með öllu óháðar þessu atriði. Nefndin telur því ekki unnt að fresta afgreiðslu frv. af þessari ástæðu.
    Um þá breytingu á frv. sem hefur verið gerð að tillögu allshn. og Hæstiréttur óskar nú eftir að

verði fallið frá vil ég taka fram að hún kom að öðrum þræði til í beinum tengslum við áðurnefnda tillögu um fjölgun dómara við réttinn. Í umsögnum til nefndarinnar bentu ýmsir á að fjölgun dómara gæti leitt af sér aukna hættu á að ósamræmi yrði í úrlausnum Hæstaréttar. Nefndin taldi nauðsynlegt að bregðast við þessari hættu með því að binda í lög hvernig dómarar við Hæstarétt skiptast í deildir við dómstólinn og koma í veg fyrir að þeir færist á milli deilda með stuttu millibili eins og hefur verið á undanförnum árum. Slíkar tilfærslur hafa í för með sér hættu á að niðurstöður í samkynja málum geti orðið með ólíkum hætti á mismunandi tímum.
    Ég vil einnig vekja athygli á að allshn. fékk ýmsa á sinn fund áður en hún lauk afgreiðslu frv. til að tjá sig um þessa breytingu, m.a. forseta Hæstaréttar og fulltrúa frá Dómarafélagi Íslands og Lögmannafélagi Íslands. Við það tækifæri komu ekki fram nein sérstök andmæli gegn breytingunni. Jafnframt því að leggja nú til að þessi frumvörp verði samþykkt óbreytt vil ég geta þess að á vegum dómsmrh. er nú unnið að samningu frv. til dómstólalaga. Því frv. er m.a. ætlað að leysa af hólmi þau ákvæði laganna um Hæstarétt frá 1973 sem nú stendur til að breyta. Við samningu þess frv. er því tækifæri til að skoða þessi mál ítarlega og setja eftir atvikum nánari reglur um skiptingu Hæstaréttar í starfsdeildir en hér eru til umræðu.