Sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 18:08:21 (5756)


[18:08]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að það hafi verið vorið 1991 sem ég átti dálitla aðild að þessu máli með því að sitja í þeirri nefnd sem fjallaði um stjórnarskrárbreytinguna í hv. efri deild. Þar varð niðurstaðan sú, sem hv. 4. þm. Austurl. las upp hér áðan, að við hvöttum til þess að það yrði á þessu máli tekið. Ég þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir þá forustu sem hann hefur haft fyrir því að taka þetta mál hér upp og vil segja það í framhaldi af orðum hv. 3. þm. Reykv. að ég er sammála honum um það að málafylgja Ríkisútvarpsins í þessu máli er til vansa. Ég tel að núna standi málið þannig að Alþingi þurfi sjálft að taka þessa ákvörðun og það eigi ekkert að bíða eftir Ríkisútvarpinu. Hvort svo þetta gerist frá og með næstu áramótum eða einhverjum öðrum tíma skiptir kannski ekki öllu máli en aðalatriðið er að þingið taki þessa ákvörðun. Og ég spyr: Er ekki hugsanlegt að Alþingi taki á sig einhvern hluta af þeim kostnaði sem þarna er verið að tala um því þegar upp er staðið þá er þetta allt meira og minna sami ríkissjóðurinn sem þarna er verið að tala um?
    Ég kvaddi mér hér hljóðs til að benda á þetta og til að taka undir þau sjónarmið sem komu fram í máli hv. 3. þm. Reykv. Ég tel að frammistaða Ríkisútvarpsins til þessa sé til vansa í þessu máli.