Sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 18:30:54 (5764)


[18:30]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka flm. þessarar þáltill. fyrir að flytja þetta mál. Ég tel að það sé orðið alveg bráðnauðsynlegt að taka á þessu máli því þetta er orðið að enn einni mismununinni milli landshluta. Það er auðvitað ekki upp á það bjóðandi að Alþingi Íslendinga mismuni þegnunum með þeim hætti að einungis sumir hverjir af þeim hafi möguleika til að fylgjast með því sem hér er að gerast. Í sjálfu sér er ekkert athugavert við að gera þetta sem tilraun eins og búið er að vera núna í gangi hjá Sýn og hafi þeir þökk fyrir sem fyrir því stóðu. En til frambúðar getur þetta auðvitað ekki gengið. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að útvarp frá Alþingi sé á margan hátt þénugra en sjónvarp og miklu mikilvægara. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að útvarpað verði frá Alþingi en það sé í sjálfu sér ekki eins mikilvægt að sjónvarp nái til allra staða í landinu. Það eru miklu fleiri sem eiga möguleika á að nýta sér útvarpssendingar, menn geta nýtt sér þær bæði við vinnu sína og í bílum og þess vegna tel ég það vera mjög mikilvægt sem næsta skref í þessu máli að útvarpssending komist til alls landsins og líka til fiskimiðanna. Ég tek undir með hv. 16. þm. Reykv. sem sá ástæðu til að beina athyglinni að flotanum og sjómönnunum sem eru því miður út undan hjá okkur í þessum málum.
    Ég held að þetta sé á margan máta mikilvægt. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram og vil árétta það að pólitískt er þetta ákaflega mikilvægt að fólkið í landinu fái sjálft að meta það sem er að gerast á Alþingi, það sé ekki matreiðsla fjölmiðla sem ráði þar öllu um hvað til skila kemst heldur geti fólkið í landinu fengið sjálft að fylgjast með miklu meira en áður hefur verið og að meta sjálft þau málefni sem eru á ferðinni. Nú er ég ekki að deila á þá fréttamenn sem fjalla hér um málin, það er einfaldlega þannig að það er mjög lítið af því sem hér gerist í sölum Alþingis sem kemst fyrir í fréttum og til umfjöllunar og auk þess verður það ævinlega bæði afstaða viðkomandi aðila sem fara með þessi mál, sem kemur auðvitað í gegn að einhverju leyti, hve mikilvægt þeir telja þeir viðkomandi mál. T.d. eru ýmis mál á ferðinni í gegnum Alþingi sem aldrei fá umfjöllun í fréttum en ýmsir aðilar í þjóðfélaginu munu telja mikilvæg þó að þau hljóti ekki náð fyrir augum fréttamanna sem eitt af hinum stærstu málum eins og þeir virðast velja sín viðfangsefni.
    Ég verð að segja eins og er að ég lýsi yfir miklum efasemdum um það að þær kostnaðartölur sem hér hafa verið nefndar séu raunhæfar. Við höfum séð á undanförnum árum að það hafa risið upp litlar útvarpsstöðvar. Þær hafa verið stofnaðar af miklum vanefnum, ná að vísu ekki til mjög stórs hluta landsins en þó til nokkurs hluta og þess vegna er ástæða til að skoða þessi mál upp á nýtt. En alla vega tel ég að Alþingi hljóti og verði að sjá til þess að ákvarðanir um framhald í þessu máli verði teknar með það grundvallarsjónarmið að allt fólkið í landinu hafi rétt til þess að fylgjast með því sem gerist á hv. Alþingi. Mér finnst ekkert annað boðlegt en að Ríkisútvarpið geri þetta. Til hvers í ósköpunum höfum við Ríkisútvarp ef það á ekki að þjóna landsmönnum með þeim hætti sem við erum að tala um? Mér finnst að ef það á á annað borð að skila þessu efni til landsmanna allra þá eigi Ríkisútvarpið að bjóða upp á þá þjónustu og vitanlega hlýtur Ríkisútvarpið að geta boðið upp á þessa þjónustu á hagkvæmasta verði. Það er ótrúlegt annað. Ég held því ekki fram að það megi ekki bera kostnað Ríkisútvarpsins saman við þá möguleika sem einkaaðilar hafa til að gera þessa hluti. Gott og vel, þá skulu menn bara skoða þá hluti en mér sýnist vera farið að fjara svolítið undan þessu stóra fyrirtæki okkar sem heitir Ríkisútvarp ef það á ekki að hafa bestu möguleikana á að veita þessa þjónustu og fyrir utan það að ég tel að það sé hlutverk þess sem slíks að gera það.
    Ég vil að lokum einungis segja það að ég tel að þessi tilraun Sýnar til að senda þetta út hafi tekist vel. Hún hefur sannað það að á þessu er full þörf og hún hefur skapað kröfuna um það að fólkið í landinu fái þessa þjónustu. Hún hefur skapað þeirri kröfu það mikinn styrk að það verður ekki aftur snúið. Núna er það nauðsynlegt að þetta gerist, þ.e. að þessar útsendingar verði að veruleika fyrir alla landsmenn sem allra fyrst því þetta er óþolandi fyrir landið að öðru leyti að horfa upp á það sem enn eina mismununina að hafa aðgang að því að fylgjast með því sem gerist á hv. Alþingi.