Sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 18:37:59 (5765)


[18:37]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég tek til máls til að taka undir meginefni þessarar tillögu að það sé nauðsynlegt að gera átak í því að koma útvarpi frá Alþingi til allra landsmanna. Það er kannski reynslan af Sýn sem gerir okkur þingmönnum fært að standa hér upp og halda því fram fullum fetum að landsmenn vilji almennt fá að fylgjast með því í beinni útsendingu sem gerist á Alþingi. Það er hætt við því ef við hefðum ekki þá reynslu þá hefðum við ekkert annað til að byggja á en okkar eigin álit að þjóðin mundi brenna í skinninu eftir að fá að fylgjast með því sem við erum að gera hér. Ég get tekið undir að það hefur komið mér eiginlega þægilega á óvart hversu mikið er horft á Sýn og hvað þetta hefur í raun mikil áhrif á lýðræðislegt starf í landinu. Það eru ófá símtölin sem koma til alþingismanna sem viðbrögð almennings á þessu svæði við því sem fólk hefur séð að í gegnum Sýn að hér er að gerast.
    En það sem gerir það að verkum að ég kem hér upp eru tvö atriði. Það er í fyrsta lagi að ég sé ekki annan aðila en ríkið og Ríkisútvarpið til að þjóna þessu hlutverki. Við skulum átta okkur á því að það dreifikerfi og sá geisli sem hér er notaður til útsendingar fyrir Sýn var ekki sett upp gagngert til þess að sjónvarpa frá Alþingi. Þetta sjónvarp byggist fyrst og fremst á því að þarna stóð þessi búnaður tilbúinn og ónotaður og þótti handhægt fyrir eiganda hans að hafa þó eitthvert efni til þess að láta renna í gegnum þann kanal þó sjálfsagt komi það þeim aðilum eins og okkur á óvart að þeir skyldu allt í einu vera með í höndunum eitt vinsælasta fjölmiðlaefni landsins þar sem er Sýn.
    En hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna er að mér finnst að við séum í raun að ræða um tvíþætt mál. Það er annars vegar hina beinu útsendingu sem gefi hlustendum eða áhorfendum tækifæri til þess að fylgjast með einstökum málum og umræðum um þau sem eru á áhugasviði viðkomandi eða vegna almenns áhuga á þjóðmálum og stjórnmálum. Í þriðja lagi eins og maður hefur heyrt að oft komi til að það sé skemmtigildið eitt sem nægir til þess að fólk horfi á þessar útsendingar.
    Þetta er önnur hliðin á málinu. Hin hliðin er að koma frá Alþingi almennum fréttum um dagskrá þingsins um þau mál sem eru tekin fyrir á hverjum degi og einhverjum útdrætti úr umræðum. Ég get tekið undir það með hv. 3. þm. Reykv. að það er mjög miður að dagblöðin séu öll búin að afleggja þessa þjónustu. Ég velti því fyrir mér hvort ekki þurfi að skoða það í þessari vinnu hvort ríkisfjölmiðlarnir geti ekki á einhvern hátt komið til móts við þessar þarfir. Nú er ég ekki að vanmeta það sem ríkisfjölmiðlarnir gera hvað þetta snertir, bæði í almennum fréttum, í Pólitíska horninu á rás 1 og í Þingsjánni í sjónvarpinu. En þessi vettvangur er ekki þess eðlis að hann gefi þessa heildstæðu mynd af því starfi sem fer fram á Alþingi frá degi til dags. Ég er fyrir mína parta afar hissa á því að Morgunblaðið aflagði þessa þjónustu því maður varð var við það alveg eins og með Sýn að þetta var mjög mikið lesið og þetta var sú leið sem áhugafólk um allt land hafði þó til þess að fylgjast með því sem hér var að gerast en er ekki lengur til staðar. Þannig að ég varpa því inn í þessa umræðu hvort það þurfi ekki að taka á þessum þætti líka því það er allt annað að fylgjast með umræðu um einstök mál og hitt það að vilja hafa aðgang að því hvað er að gerast á Alþingi frá degi til dags án þess að þurfa að sitja yfir öllum umræðunum því það verður reyndar að viðurkennast að það geta komið þær stundir að áhorfendur sitja tímunum saman fyrir framan sjónvarpið en séu kannski engu nær um það hvað verið er að fást við á þeim tíma og yfir höfuð hvað felst í störfum á Alþingi.