Sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 18:43:43 (5766)


[18:43]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þar sem ég er ein af meðflm. þessarar þáltill. þá þykir mér við hæfi að segja nokkur orð. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að ganga í að tryggja að sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi nái öllu landinu og vil leggja alveg sérstaka áherslu á það vegna þess að ég tel að þegar þessi tilraun var gerð þá hafi því í raun verið lofað að það yrði ekki svo langt þangað til farið yrði í að fylgja því eftir að stækka svæðið. Það hefur einnig komið í ljós að það er mikil hlustun þar sem þetta nær. Nú nær þetta ekki einu sinni um allt Reykjavíkursvæðið, það er líka nokkuð misjafnt hvað það nær hér. En ég tel að þessi flutningur og þetta útvarp og sjónvarp frá Sýn hafi sýnt sig að vera mjög nauðsynlegt til að gefa landsmönnum kost á því að fylgjast með og dæma sjálfir um það hvernig unnið er á hinu háa Alþingi.
    Mér hefur oft fundist það og get alveg látið það koma hér fram að ég er ekki alltaf sammála því hvernig fjölmiðlar sem hér fylgjast með þingstörfum matreiða fréttir héðan ofan í hlustendur, ég er ekki alltaf sammála því fréttamati og hefur fundist að það væri fyrst og fremst tekinn héðan neikvæður fréttaflutningur þó það séu auðvitað sem betur fer góðar undantekningar frá því, en meira um hitt þar sem hægt er að segja að sé neikvæður fréttaflutningur og jafnvel þegar hann er klipptur í sundur að hann verði jafnvel afbakaður.
    Ég legg mikla áherslu á að það sé reynt að koma þessum sendingum meira út og þær nái öllu landinu þannig að allir borgarar séu þar jafnir. Við ræðum mikið um það að jafna aðstöðu landsmanna til sem flestra hluta. Oft er vitnað í að það sé dýrt, það sé ekki hægt af ýmsum ástæðum, vegna fámennis á sumum stöðum sé ekki hægt að veita sambærilega þjónustu. En í fjarskiptum ætti það að vera mögulegt. Í fjarskiptum ættu menn ekki að gjalda þess hvar þeir búa og með öllu því kerfi sem hér er búið að koma upp í landinu til þess að auka og bæta fjarskipti þá tel ég að hér sé aðeins spurning um vilja frekar en að það sé ekki mögulegt.
    Þegar þetta samkomulag var gert um að sjónvarpa frá Alþingi fór það ekki á milli mála, það skildu það held ég allir þingmenn á þann veg að það væri stefnt að stækkun samkvæmt því samkomulagi sem gert var 8. apríl 1992. Þar var ekkert um það að sú stækkun yrði skoðuð í ljósi þess að það kæmu fram ný útvarpslög og meira að segja, eins og hér er sagt í bréfum sem hafa gengið á milli forsætisnefndar Alþingis og forsvarsmanna Sýnar, að það sé ekki hægt að ákveða þetta fyrr en búið sé að samþykkja þau útvarpslög. Það tel ég alveg fráleitt. Það var á engan hátt látið að því liggja að það væri neitt háð slíku hvort stefnt yrði að stækkun heldur fullyrt í því samkomulagi sem gert var við Alþingi að það yrði stefnt að stækkun. Ég er ekki að segja að það verði hægt að ná til alls landsins í einu stökki en að það verði markvisst unnið að því að stækka þetta svæði. Það hljóta allir okkar kjósendur að eiga rétt á því að geta fylgst með þessum störfum og ég tel að ef það verður ekki hægt þá sé alveg eins hægt að skoða það að loka aftur fyrir þessa sjónvarpsrás. Það sé þá ekkert verið að útvarpa fundum Alþingis ef ekki er hægt að stefna að því að það nái til landsins alls þó það verði ekki gert í einu stökki þá er hægt að vinna að því á einhverjum tímapunktum og setja sér markmið í því en það stöðvist ekki bara við það svæði sem það nær nú til og síðan verði það látið standa þannig.
    En ég ætlaði ekki að lengja þessa umræðu mikið, það hefur komið fram vilji flestra þingmanna til þess að þessar sjónvarpssendingar eða útvarpssendingar a.m.k. frá Alþingi nái til allra landsmanna og hugsanlega væri hægt að leysa þetta ef af einhverjum ástæðum er ekki möguleiki á að koma á sjónvarpssendingum þá væru það a.m.k. útvarpssendingar til að byrja með sem fólk gæti hlustað á en ég tel að að þessu verði að vinna.
    Hv. forsætisnefnd hefur tekið málið fyrir, gerði það sl. vor, þótt tillagan væri ekki samþykkt og sendi bréf til Sýnar út af því en þar kom það fram sem ég var að rekja áðan og sem ég tel engan veginn fullnægjandi svar.
    Ég vænti þess að þessi tillaga verði samþykkt að lokinni umfjöllun hér og í nefnd og síðan verði unnið að því, eins og segir í tillögunni, að tryggja að sjónvarps- og útvarpssendingar frá fundum Alþingis nái til landsins alls og helst ekki seinna en við upphaf nýs þings í haust. Eins og ég sagði er líka hægt að setja sér það markmið að það náist á einhverjum tíma.