Sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 19:00:10 (5772)


[19:00]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Það kann að vera árátta þeirrar sem hér stendur til að fara að þingsköpum en í 10. gr. laga um þingsköp eru alveg ákveðin fyrirmæli um starfsemi forsætisnefndar. Hins vegar eru jafnákveðin ákvæði annars staðar í þingskapalögum um hverjar skuli vera nefndir þingsins sem um þingmál fjalla. Það er raunar í 13. gr. Ég vil benda hv. 4. þm. Austurl. á að hér er ekki um að ræða erindi til forsætisnefndar, þetta er formlegt þingmál og um formleg þingmál ber formlegum fastanefndum þingsins að fjalla. Vitaskuld hefur þetta erindi og þessi mál komið á borð hv. forsætisnefndar og öllum þingmönnum er ljós vilji hæstv. forseta þingsins í þessu máli. En ég tel að það væri vikið allverulega frá þingsköpum ef þetta mál, eins og öll önnur formleg þingmál, færi ekki til fastanefndar þingsins. Ég tel eðlilegt að forsætisnefnd skoði þetta mál og e.t.v. eðlilegt að hún segði eitthvað um það. En ég held að það sé alveg nauðsynlegt að einhver fastanefnd þingsins og í þessu tilfelli hiklaust hv. allshn. fái þetta mál til afgreiðslu svo farið sé með þessa tillögu hv. 4. þm. Austurl. eins og önnur þingmál.