Ráðstafanir til að veita íslenskri garðyrkju viðunandi samkeppnisstöðu

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 19:04:54 (5775)


[19:04]
     Flm. (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 628 flyt ég till. til þál. um ráðstafanir til að veita íslenskri garðyrkju viðunandi samkeppnisstöðu. Meðflm. mínir eru Ingibjörg Pálmadóttir, Valgerður Sverrisdóttir og Guðni Ágústsson. Tillagan hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera nú þegar nauðsynlegar ráðstafanir til að veita íslenskri garðyrkju viðunandi samkeppnisstöðu eftir að opnað hefur verið fyrir óheftan tollfrjálsan og niðurgreiddan innflutning á ýmsum tegundum grænmetis og blóma í marga mánuði á hverju ári, jafnframt því sem einstaklingum verði bætt það eignatjón sem ekki er unnt að koma í veg fyrir af þeim sökum.``
    Efni þessarar tillögu hefur verið rætt að undanförnu þannig að það er kunnugt hv. þm. en aðdragandinn er, eins og fram kemur í ályktuninni, tvíhliða samningurinn við Evrópubandalagið um tollfrjálsan innflutning á grænmeti og blómum. Ísland samdi þar um einhliða innflutningsheimildir gagnstætt því sem aðrar EFTA-þjóðir gerðu þar sem var um gagnkvæman samning að ræða um innflutning og útflutning landbúnaðarafurða. Þessi háttur var réttlættur af hæstv. utanrrh. með því að slíkur samningur mundi bæta stöðu til að ná fram tollalækkun á útfluttum fiski og það mundi færa þjóðarbúinu mikinn auð. Það virðist því óviðunandi ósanngirni að garðyrkjubændur einir séu látnir bera þennan fórnarkostnað bótalaust. Því er þessi þáltill. flutt um að ríkisvaldið geri ráðstafanir til að veita íslenskri garðyrkju viðunandi samkeppnisstöðu.
    Það var vakið máls á þessari stöðu þegar Alþingi kom saman eftir áramótin og þá lofaði hæstv. landbrh. úrbótum en þegar ekki bólaði á neinu slíku var þessi þáltill. flutt. Síðan hefur nýlega verið flutt og mælt fyrir frv. til laga um breytingu á tollalögum sem gerir ráð fyrir heimild til fjmrh. að endurgreiða eða fella niður tolla af græðlingum og öðrum efnivörum, hráefni og hlutum til framleiðslu garðyrkju og enn

fremur að endurgreiða eða fella niður vörugjöld af innlendu hráefni og efnivörum vegna garðyrkjuafurða. Það kom fram í máli hæstv. fjmrh. þegar hann mælti fyrir því frv. að þar var um að ræða 10 millj. kr. sem gert var ráð fyrir, miðað við innflutning 1992, að ríkissjóður mundi tapa og þar með garðyrkjubændur hafa ávinning af þeim breytingum sem það frv. gerir ráð fyrir.
    Það er því augljóst að frv. og sú lagabreyting sem það gerir ráð fyrir hrekkur skammt til að jafna stöðu garðyrkjubænda og því er þessi þáltill. ekki síður þörf en áður. Það kemur fram í minnisatriðum frá Sambandi garðyrkjubænda að það er margt sem skekkir þarna samkeppnisstöðuna. Auk tolla og vörugjalda er raforkuverðið nefnt og að hægt sé að vera betur á verði bæði með upprunavottorð og fleira við innflutning á garðyrkjuafurðunum. T.d. hefur komið í ljós við innflutning á blómum nú í vetur að þau hafa borið með sér hættuleg skordýr og því hefur þurft að stöðva innflutning á þeim sendingum. Það sýnir því miður það, sem reyndar margir óttuðust og vissu fyrir, að vottorðum er lítt að treysta hvað það varðar eins og fleira.
    Þá er einnig í þessu minnisblaði garðyrkjubænda bent á að þessi opnunartímabil séu óhagkvæm fyrir íslenska garðyrkju. Ef það ætti að halda sig við árlega opnunartíma, þá væri þó skárri kostur ef tímabilið byrjaði fyrr og endaði fyrr þannig að innflutningur yrði ekki leyfður svo langt fram eftir vori. Fleira er nefnt og jafnframt er í minnisblaði þeirra vakin athygli á erfiðri skuldastöðu garðyrkjubænda.
    Þá er rétt að geta þess einnig að það eru ekki eingöngu þeir liðir sem þarna eru nefndir sem skekkja samkeppnisstöðuna. Þar er einnig við að glíma gífurlegar niðurgreiðslur á rekstrarkostnaði garðyrkju í nágrannalöndum okkar og þar er af mörgu að taka. Ég vil aðeins nefna hér örfá atriði sem koma fram í drögum að skýrslu sem hefur verið gerð um ylrækt og samkeppnisstöðu hennar. Í henni segir um nokkra styrki sem veittir eru til garðyrkjunnar í Danmörku, með leyfi forseta:
  ,,1. Jarðakaupalán, allt að 50 þús. danskar krónur til kaupa á viðbótarlandi og allt að 80 þús. danskar krónur til að stofna garðyrkjustöð. Auk þess fást lán til byggingarframkvæmda þó þannig að heildarlánin fara ekki yfir 500 þús. danskar krónur. Lánin eru til 30 ára með 6,7% vöxtum þegar almennir vextir voru 13,5%.
    2. Lán til ungbænda til 20 ára með ríkisábyrgð til bústofnunar, þó ekki yfir eina millj. danskra króna eða 25% af áætluðu endursöluverði bús. Ríkið borgar fyrstu afborganir.
    3. Búnaðarlán með ríkisstyrk. Ábyrgð vegna nýbygginga, endurbygginga, viðbóta og viðhalds getur numið allt að 530 þús. dönskum króna á hvert ársverk, allt að tveimur ársverkum á búi.
    4. Lán til fjárhagslegrar endurskipulagningar.
    5. Ríkisábyrgð á rekstrarlánum til gróðurhúsabænda.
    6. Skjólbeltastyrkir.``
    Í Hollandi, þaðan sem innflutningurinn kemur nú þó að upprunalandið sé gjarnan annað, er líka langur listi styrkja og má nefna, með leyfi hæstv. forseta:
  ,,1. Stofn- og yfirtökustyrkir. Slíka styrki geta einstaklingar með landbúnaðarmenntun fengið í fyrsta sinn sem þeir kaupa eða stofna bú með meira en 10 hluta úr ársverki. Styrkurinn nemur 12,5% af heildarfjármagnsþörf, þó ekki meira en svarar 130 þús. norskum krónum árið 1990.
    2. Styrkir til að bæta framleiðsluskilyrði. Veittur styrkur til allt að 25% á móti láni til fjárfestinga á fasteignum vegna umhverfisbóta, 20% til annarra umhverfisvænna fjárfestinga og til að bæta gæði framleiðslunnar. Á svæðum sem EB hefur lýst sérstöku vandræðaástandi á má hækka þessa styrki um 25%. Veittur styrkur er 7,5% af fjármagnsþörf til að bæta stofnanagerð og hagræði almennt. Umsækjendur yngri en 35 ára sem starfað hafa innan við 5 ár í landbúnaði geta fengið 25% styrk í þessum styrkkerfum.``
    Þannig er langur listi um styrki og viðbótarstyrki í Hollandi. Það er því augljóst að þarna er um gífurlega mismunun að ræða.
    Nú var verið að dreifa á borð okkar frv. til laga um breytingu á tollalögum þar sem rýmkaðar eru heimildir til að leggja undirboðs- og jöfnunartolla á innflutning vara. Það kom fram í máli hæstv. fjmrh. við umræðu um hitt frv. að ætlunin væri að nýta þar heimildir til stuðnings garðyrkjunni. En þarna er í mörg horn að líta og því vil ég endurtaka að það er þörf á að þessi mál séu rækilega skoðuð og gerð úttekt á þeim eins og gert er ráð fyrir í þessari þáltill. Ég vonast því til að hv. landbn., sem ég legg til að fái þetta frv. til meðferðar að lokinni 1. umr., taki nú til við að skoða raunveruleg hagsmunamál íslenskrar garðyrkju og íslensks landbúnaðar þannig að starf hennar geti farið að bera árangur á því sviði.