Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 19:21:46 (5777)


[19:21]
     Flm. (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 81/1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Flm. eru auk mín Ingibjörg Pálmadóttir, Jóhann Ársælsson, Gísli S. Einarsson, Guðjón Guðmundsson, Steingrímur J. Sigfússon, Gunnlaugur Stefánsson, Stefán Guðmundsson og Vilhjálmur Egilsson. 1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Liður F3 í 3. gr. laganna (F. Breiðafjörður), sbr. 8. gr. laga nr. 42/1977, fellur brott.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Með frv. þessu er gerð tillaga um þá breytingu á 3. gr. núgildandi laga nr. 81/1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, að liður F3 verði felldur út úr lögunum. Felur breytingin í sér að eftir hana verður óheimilt að stunda veiðar með botnvörpu og flotvörpu á svæði sem takmarkast af línu sem dregin er í fjögurra sjómílna fjarlægð frá viðmiðunarlínu á Snæfellsnesi, norðan við línu réttvísandi í vestur frá Malarrifi (vms 38) og utan við viðmiðunarlínu milli Öndverðarnesvita (vms 41) og Skorarvita (vms 42). Að norðan takmarkast þetta svæði af 65°16.0 N.
    Í 3. gr. laga nr. 81/1976 segir svo um hólf F3: ,,Á tímabilinu 1. júní til 31. desember er skipum, sem eru 26 metrar að lengd eða minni, heimilt að veiða með botnvörpu og flotvörpu utan línu, sem dregin er í 4ra sjómílna fjarlægð frá viðmiðunarlínu á Snæfellsnesi, norðan við línu réttvísandi vestur frá Malarrifi (vms 38) og utan við viðmiðunarlínu milli Öndverðarnesvita (vms 41) og Skorarvita (vms 42). Að norðan takmarkast svæði þetta af 65°16.0 N.``
    Frá því að frv. til laga um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni kom fram á 94. löggjafarþingi árið 1973 hefur orðið mikil breyting á útgerðarháttum. Meðal annars hefur sú breyting orðið að botnvörpuveiði allt að 26 metra langra skipa hefur aukist. Bæði er það vegna öflugri veiðarfæra og aukins togkrafts.
    Upphaflega var hólf þetta afmarkað til að ná fram sáttum á milli útvegsmanna við Breiðafjörð og til þess að dreifa sókn á milli svæða þannig að stærri og öflugri skip væru að togveiðum utar en minni bátar. Kemur þetta sjónarmið fram í greinargerð með frv. til laga á 94. löggjafarþingi, sem áður var vitnað til, á bls. 608, í þskj. 120 1973--74. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Á Breiðafjarðarsvæðinu er mikill fjöldi báta af þessum stærðarflokki og óvenjumargir aðilar, einstaklingar og hagsmunasamtök, komu hugmyndum sínum um togveiðiheimildir á þessu svæði á framfæri við fiskveiðilaganefnd. Með því að draga veiðisvæði þetta upp, eins og gert er í frumvarpinu, hefur nefndin reynt að samræma hin ólíku sjónarmið, eins og frekast var unnt, auk þess sem friðunarsjónarmið voru einnig höfð í huga.``
    Eftir að lög nr. 81/1976 voru samþykkt varð sú breyting á að viðmiðunarmörkin breyttust frá því að vera 105 brúttólestir yfir í að miðað var við 26 metra lengdarmælingu skips. Var það gert þar sem samkvæmt þágildandi mælireglum gátu tvö jafnlöng, breið og djúp skip mælst mjög misstór í brúttórúmlestum talið.
    Á þessum tíma var hlutfallið á milli lengdar á skipi og togkrafts þess mjög sambærilegt. Það þýddi að undantekningarlítið hafði 26 metra langur bátur minni togkraft en 36 metra langt skip. Nú hafa verið smíðaðir sérútbúnir togbátar sem hafa togkraft til veiða eins og togari en eru einungis 26 metra langir. Eru þessi skip oft með mun öflugri veiðarfæri en þau skip sem verða að veiða fjær landi. Einnig eru veiðarfæri þeirra mun öflugri en veiðarfæri þeirra skipa sem upphaflega áttu að veiða í umræddu hólfi.
    Hólfið, sem lagt er til að verði friðað fyrir togveiðum með frv. þessu, er talið vera viðkvæmt fyrir togveiðarfærum. Ástæða þess er sú hversu mikið er um hraunfláka á botninum þar sem þorskurinn leitar skjóls. Hólfið er einkar heppileg línuveiðislóð fyrir línubáta.
    Á þeim tíma, sem lög nr. 81/1976 voru sett, var veitt þannig á þessu svæði að bátarnir toguðu á sandbotni sem er á milli hraunflákanna. Sjómenn við Breiðafjörð hafa haldið því fram að á umræddu svæði sé griðastaður þorsks yfir sumartímann. Á þeim tíma árs sé fiskurinn ekki heppilegur til vinnslu og markaðsaðstæður séu ekki hagstæðar. Því sé mun skynsamlegra að veiða á þessu svæði á haustin og fyrri hluta vetrar með línu og netabátum. Þá eru gæði þorsksins meiri og þar af leiðandi fæst hærra verð fyrir hann. Öflug nútímatogskip með þung veiðarfæri togi yfir hraunið og brjóti það niður þannig að allt skjól fyrir þorsk hverfi.
    Útvegsmannafélag Snæfellsness hefur sent frá sér ályktun þar sem skorað er á alþingismenn Vesturlandskjördæmis að þeir beiti sér fyrir nauðsynlegri breytingu á löggjöf um fiskveiðar þannig að komið verði í veg fyrir umræddar togveiðar. Í framhaldi af því var með bréfi, dags. 24 nóv. sl., óskað upplýsinga frá Hafrannsóknastofnun um veiðar í hólfi F3.
    Í svari Hafrannsóknastofnunar, sem er birt sem fylgiskjal með greinargerð þessari, kemur fram að árin 1991, 1992 og 1993 voru veiðar með botnvörpu í hólfi F3 0,4--0,8% af heildarafla þorsks hvert ár. Af því má sjá að ekki er um að ræða afgerandi hluta í heildarafla. Ljóst er af svari Hafrannsóknastofnunar að netaveiðar, línu- og dragnótaveiðar eru mun stærra hlutfall heildarveiða á svæðinu.
    Með hliðsjón af þeim heildarhagsmunum sem hér er um að ræða og fiskverndarsjónarmiðum sem útvegsmenn og sjómenn hafa mælt fyrir er lagt til að svæði F3 verði lokað fyrir togveiðum allt árið.
    Virðulegi forseti. Ég hef mælt fyrir því frv. sem hér er lagt fram og geri það að tillögu minni að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.