Átak við að koma raflínum í jarðstreng

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 19:33:35 (5779)


[19:33]
     Flm. (Gísli S. Einarsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um að gera átak við að koma raflínum í jarðstreng í stað loftlínu. Meðflm. mínir eru Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Eggert Haukdal, Steingrímur J. Sigfússon, Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Sigbjörn Gunnarsson og kann ég þeim bestu þakkir fyrir að leggja þessu máli lið.
    Till. er svohljóðandi: ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hún beiti sér fyrir að gert verði sérstakt átak við að koma raflínum í dreifikerfum í jarðstreng í stað loftlína á þeim svæðum þar sem mest veðurálag er eða æskilegt er frá umhverfissjónarmiði að þær hverfi. Ríkisstjórnin leggi fram, sem lið í atvinnuátaki, sérstakt fjármagn til þessara framkvæmda.``
    Í greinargerð segir svo: ,,Mjög mikið tjón hefur orðið á raflínum á undanförnum árum og hefur það valdið miklu tjóni, sérstaklega í sveitum og dreifðum byggðakjörnum. Varla þarf að lýsa þeim erfiðleikum og hættum sem viðgerðarmenn hafa búið við og verið samfara viðgerðum við hrikalegar veðurfarsaðstæður.
    Þar til fyrir 2--3 árum hefur ekki verið fjárhagslegur grundvöllur fyrir framkvæmdum af þessum toga en samkvæmt upplýsingum Rarik er orðið ódýrara að leggja jarðstreng en reisa nýjar loftlínur.
    Jarðstrengir hafa lækkað umtalsvert í verði og er heildarkostnaður um 80--90% af kostnaði við tréstauralínur.
    Rafdreifilínur eru um 7.000 km langar á Íslandi. Mjög víða hagar þannig til að auðvelt er að plægja niður strengi jafnvel þótt jarðvegur sé grýttur og væri þannig auðvelt að koma fyrir jarðstrengjum því að meginhluti lína liggur á þannig svæðum.
    Íbúar í sveitum hafa orðið að búa við kulda og ljósleysi vegna rafmagnsleysis allt að nokkrum dögum þegar verstu veður hafa gengið yfir. Mikil tæknivæðing við meðferð mjólkur og gripafóðrun hefur átt sér stað tengd raforku og skapast mikil vandamál einnig af þeim sökum þegar rafmagnsleysi verður eins og kunnugt er. Af þessum ástæðum svo og af fjölmörgum öðrum er eðlilegt að ríkisstjórnin setji fjármagn til þessa verks sem yrði tengt atvinnuátaki sem skilar sér sem trygging fyrir öruggari búsetu á landinu.
    Hlutföll milli vinnu og efnis við framkvæmd þá sem hér er um rætt eru: Efni 65--70% og vinna 30--35%. Í þessari tillögu er miðað við að vinnulaunaþáttur verði fjármagnaður af ríkisfé enda verði verkefnið atvinnuátakstengt.
    Oft er rætt um að sjónmengun sé af raflínum og að þær séu lýti á landslagi. Á það er ekki lagður dómur með þessari tillögu en hún kemur þó til móts við sjónarmið þar að lútandi. Fyrst og fremst er verið að hugsa um öryggismál, hagkvæmni og atvinnuaukningu og má benda á að miðað við núverandi vaxtakjör stendur jákvæður mismunur á kostnaði við að leggja rafstreng í jörð undir kostnaði af lántöku vegna framkvæmdanna.``
    Það eru auðvitað fjölmörg rök sem setja má fram málinu til stuðnings, m.a. að út frá umhverfissjónarmiði yrði mikil prýði að því að fjarlægja dreifilínur og stauranet sem þær bera uppi. Einnig er að á sumum stöðum liggja línur tiltölulega lágt yfir landi og í miklu fannfergi skapast oft hætta af þeim sökum. Þar sem dreifilínur liggja yfir ræktarland mundi skapast betra vinnusvæði með því að leggja þær í jarðstreng. Svona dæmi og fleiri má tína til en fyrst og fremst er verið að fjalla um málið frá atvinnu-, öryggis- og hagkvæmnissjónarmiði.
    Varðandi atvinnusköpun þarf vart að hafa mörg orð um þann þátt mála. Ég er þess fullviss að fjölmargir verktakar og vinnandi hendur taka verkefnum af þessu tagi sem himnasendingu.
    Ég vil, með leyfi forseta, geta um dæmi sem sanna hagkvæmni slíkra aðgerða og hér er gerð tillaga um. Á undanförnum fjórum áratugum hefur verið varið um 8 milljörðum kr. á verðlagi í dag til uppbyggingar á dreifikerfum til sveita á orkuveitusvæði rafmagnsveitnanna. Að auki hefur verið varið um 1,5 milljörðum til uppbyggingar á dreifikerfum til sveita á öðrum svæðum, aðallega á Vestfjörðum, þar sem Orkubú Vestfjarða annast uppbyggingu og rekstur kerfanna. Hafa þessar framkvæmdir verið fjármagnaðar af ríkissjóði til þess að dreifikerfi til sveita geti talist rekstrarhæf og til þess að hægt sé að afhenda orku til notenda í sveitum landsins með viðunandi gæðum. Telur Orkuráð í skýrslu frá 1990 að á næstu árum þurfi að verja a.m.k. 1 milljarði 150 millj. kr. til styrkingar á þeim. Tillaga Orkuráðs gekk út á að framkvæma áðurnefnda styrkingu á sjö árum eða um 164 millj. kr. á ári fyrir öll orkuveitusvæði landsins. Fjárveiting undanfarin þrjú ár hefur verið á bilinu 10--20% af þessari árlegu þörf.
    Fyrir dyrum stendur að hefja umfangsmikla endurnýjun dreifikerfa í sveitum og er talið að hún kosti allt að 200 millj. kr. á ári á orkuveitusvæðum rafmagnsveitnanna en um 230 millj. kr. á landinu öllu. Dreifikerfin eru mörg hver orðin 40--50 ára gömul og því komið að endurnýjun þeirra. Munurinn á styrkingu og endurnýjun er í því fólgin að styrking miðar að bættu eða nýju kerfi með meiri flutningsgetu en hið eldra enda þótt það sé ekki endanlega úr sér gengið. Það er þörfin á meiri flutningsgetu sem kallar á aðgerðina. Endurnýjun felur hins vegar í sér að eldra kerfi er úr sér gengið fyrir tímans tönn og þörf á nýju þótt flutningsþörfin vaxi ekkert eða jafnvel minnki.
    Það eru þrjár leiðir sem einkum koma til greina til að fjármagna þetta verkefni. Það er að hækka

gjaldskrá rafmagnsveitnanna, annaðhvort u.þ.b. 6--7% hækkun á alla gjaldskrárliði eða liðlega 20% hækkun á notendur í dreifbýli. Í öðru lagi að sérstakt gjald verði lagt á alla raforkuvinnslu í landinu eða skattlagning með einu eða öðru móti á orkuveitur landsins. Í þriðja lagi að framlög úr ríkissjóði, líkt og gert er ráð fyrir í þessari tillögu, komi til eins og áður og þegar rafvæðing sveitanna fór fram.
    Frú forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir að fá tækifæri til að flytja þetta mál núna og endurtaka þakkir mínar til meðflm. fyrir góðar undirtektir við málið. Ég óska eftir að málinu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.